11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4639 í B-deild Alþingistíðinda. (4041)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Það er einkar athyglisvert að hlýða á hv. 3. þm. Reykv. byggja mál sitt á upprifjunum á átökum sem virðast hafa farið fram í síðustu ríkisstj. og upprifjunum á því hvernig Alþb. hafi farið halloka í samskiptum við samstarfsflokka í þeirri ríkisstj. Ég sé í sjálfu sér ekki hvaða máli það skiptir í umr. sem þessum að dragá þau mál hér inn. Við þurfum miklu fremur að horfa á þau verkefni sem við blasa og framundan eru og ættum síst að horfa aftur í tímann og síst til stjórnarára Alþb. í þeim efnum.

Þessi ríkisstj. var ekki mynduð til þess að missa tök á stjórn ríkisfjármálanna og þar af leiðandi mun hún auðvitað takast á við það verkefni sem við blasir nú, að tryggja greiðslujöfnuð á rekstri ríkissjóðs. Það er óhjákvæmileg forsenda efnahagsstefnu ríkisstj. að það takist að halda gengi krónunnar tiltölulega stöðugu. Það er meginástæðan fyrir þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við verðbólguna að gengi krónunnar hefur verið tiltölulega stöðugt síðan efnahagsaðgerðir ríkisstj. voru gerðar á s. l. vori. Þeirri stefnu verður að sjálfsögðu fram haldið.

En hitt má öllum vera ljóst, svo sem hæstv. forsrh. hefur bent á, að verulegur halli á rekstri ríkissjóðs mundi nú, eins og áður þegar Alþb. hafði stjórn ríkisfjármála með höndum, leiða til óðaverðbólgu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að takast á við þennan vanda. Það er rétt sem hv. 3. þm. Reykv. bendir á að afleiðingarnar af því að ekki yrði tekist á við vandann mundu hafa kjaraskerðingu í för með sér. Þannig gengu mál fyrir sig meðan ríkisfjármálin voru undir stjórn Alþb. Það er alveg hárrétt að þetta mundi gerast aftur ef ekki yrði tekist á við vandann. Það er af þeim sökum, að við mundum fara af leið í baráttu okkar gegn verðbólgunni og við mundum ekki tryggja það kaupmáttarstig sem við höfum leitast við að halda þrátt fyrir veruleg áföll í þjóðarbúskapnum, sem okkur er óhjákvæmilegt að takast á við þetta verkefni.

En það er ekkert hlaupið að því að ná saman endum í þessum efnum. Eðlilegt er að það taki nokkurn tíma að finna lausn sem leiðir okkur ekki af braut í baráttu okkar fyrir efnahagslegu jafnvægi. Öllum má vera ljóst að við þessar aðstæður er útilokað að mæta öllum þessum vanda með niðurskurði á útgjöldum ríkisins. Meginhluti ríkisútgjaldanna er á sviði heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála. Við ætlum okkur ekki í einu vetfangi að standa þar að slíkum niðurskurði að hann jafnaði þessi met. Það er ekki í samræmi við okkar markmið og mundi ekki þjóna þeim hagsmunum sem við erum að vinna að. Þess vegna getur niðurskurður á útgjöldum ríkisins ekki leyst þennan vanda að öllu leyti. En hann er óhjákvæmilegur að hluta.

Þess vegna komumst við ekki hjá því að einhverju leyti að afla nýrra tekna. Við komumst heldur ekki hjá því að neytendur opinberrar þjónustu taki aukinn þátt í þeim kostnaði og svo kann að fara að að einhverju leyti verði að auka erlendar lántökur til þess að endar nái saman. Auðvitað er það erfitt verk að ganga frá ríkisfjármálum með þeim hætti. En þetta eru hinar köldu staðreyndir sem menn hafa fyrir augunum og þessi mál verða auðvitað ekki leyst öðru vísi en að menn viðurkenni þær og bregðist við í samræmi við það.

En að lokum er rétt að undirstrika og leggja á það ríka áherslu að stefna ríkisstj. og stjórnarflokkanna í efnahagsmálum er óbreytt. Það verður hér eftir sem hingað til meginforsendan fyrir því að ná efnahagslegu jafnvægi að halda gengi krónunnar tiltölulega stöðugu. Frá því verður ekki vikið.