02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka þær góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Sérstaklega vil ég þakka hæstv. félmrh. góðar undirtektir við þetta mál. Ef marka má undirtektir við þetta mál leyfi ég mér að vona að þetta verði ekki eitt af þessum frv., sem verði svæfð í nefnd, og vænti stuðnings við að þetta mál verði samþykkt á þessu þingi.

Ég harma það að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson skuli ekki vera viðstaddur þessa umr. vegna þess að ég tel nauðsynlegt að leiðrétta það, sem ég vil nú kalla misskilning, sem kom fram í hans máli. Hann taldi mig, þegar ég hafði framsögu í þessu máli, vera með ómaklegar árásir á verkalýðshreyfinguna og að ég teldi að verkalýðshreyfingin hefði látið sig hagsmuni láglaunafólks litlu máli skipta. Þetta er auðvitað alrangt og ber að leiðrétta, því að það sem ég hélt fram í mínu máli og lagði mikla áherslu á var einfaldlega að atvinnurekendur réðu einhliða stórum hluta af tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu með yfirborgunum, kaupaukum og fríðindum sem að verulegum hluta rynni til þeirra betur settu. Að þessu leyti taldi ég að verkalýðshreyfingin, og reyndar stjórnvöld einnig, hefðu verið allt of mikið sofandi á verðinum og kannske látið sig þessa þróun mála of litlu máli skipta. Ég sagði í minni framsögu að kjarasamningar verkalýðshreyfingarinnar væru orðnir marklausir nema fyrir láglaunahópana því að þeir sem við betri kjörin búa semdu um kjör sín raunar sjálfir að miklu leyti við atvinnurekendur með ýmsum duldum greiðslum, yfirborgunum, bílastyrkjum og öðrum kaupaukum. Það var þetta atriði sem ég deildi á en ekki að verkalýðshreyfingin hefði látið sig hagsmuni láglaunafólks litlu máli skipta. Þetta er auðvitað tvennt ólíkt, nema að því leyti til að ég tel að verkalýðshreyfingin hefði betur getað gætt hagsmuna láglaunafólks og haft til þess betri forsendur ef hún hefði beitt sér af krafti fyrir því á undanförnum árum að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Ég get vitnað til þess máli mínu til stuðnings að allmargar kannanir hafa verið gerðar, ekki nægjanlega margar, um launakjör á vinnumarkaðnum hjá einstökum stéttum. Í vinnumarkaðskönnun Kjararannsóknanefndar, sem gerð var 1981, kemur fram að yfirborganir hjá verkafólki eru 12% umfram taxta, iðnverkafólki 16.4%, afgreiðslufólki 14.4% og skrifstofufólki um 22%, svo dæmi sé tekið. Og það er þetta sem ég gagnrýni, að því sem til skiptanna er í þjóðfélaginu í launum sé ekki skipt yfir samningaborðið, vegna þess að ef það er gert með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarin ár, með yfirborgunum og því um líku, eins og hér kemur glögglega fram, þá tel ég að þeir lægst launuðu verði undir í þeirri þróun. Ég tel t.d. hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, fyrrv. formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, að ef það er í raun til 22% meira til skiptanna til skrifstofufólks, ef það er til þetta miklu meira til skiptanna, þá á auðvitað að skipta því yfir samningaborðið til þess að koma í veg fyrir að þeir betur launuðu fái þarna meira, en þeir sem eru á lægstu töxtunum sitji eftir. Það er þetta sem ég er að gagnrýna, sem ég gagnrýndi í framsögu minni að því er verkalýðshreyfinguna varðar. Ég tel því að verkalýðshreyfingin eigi að gera meira af því að knýja á um þetta heldur en hún hefur gert hingað til, að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Á Alþýðusambandsþingi 1980 beitti ég mér fyrir að samþykkt var eftirfarandi ályktun sem ég vil fá að lesa með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið telur að samræma verði launakjör karla og kvenna þegar um sambærileg störf er að ræða. Nauðsynlegt er því að upplýsa hverjar séu raunverulegar launagreiðslur í landinu og að hve miklu leyti yfirborganir og aðrar skuldagreiðslur séu ákvarðandi þáttur í launamisrétti.“

Þetta var samþykkt á Alþýðusambandsþingi 1980, en ég hef ekki orðið vör við að verkalýðshreyfingin eða forustumenn í verkalýðshreyfingunni beittu sér fyrir að framfylgja þessari ályktun sem kemur fram á Alþýðusambandsþingi. Forustumenn í verkalýðshreyfingunni hafa líka stuðning héðan frá Alþingi í því að fá fram úttekt af raunverulegri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, vegna þess að á árinu 1981 var samþykkt héðan frá Alþingi þáltill. um að það skyldi gert. Verkalýðshreyfingin hefði getað með stuðningi þeirrar þáltill. knúið á við framkvæmdavaldið að fá þetta upp á borðið. En þeir hafa bara alls ekki beitt sér í þessu máli. Og það er það atriði sem ég gagnrýni.

Ég held að það reyni einmitt aldrei meira á en nú, við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu, að stokka upp tekjuskiptinguna, breyta innbyrðis launahlutafalli milli launahópa í þjóðfélaginu. Verkamannasambandið hefur gert ályktun um að lágmarkslaun skuli hækkuð upp í 15 þús. kr. á mánuði. Þá reynir auðvitað á hvort hinir betur settu hafi skilning á að það þurfi að hækka lágmarkslaunin sérstaklega, hvort það komi ekki öll skriðan á eftir. Það er þetta launabil sem verkalýðshreyfingin hefur samið um sem ekki má hrófla við. Við höfum það líka fyrir okkur að þegar hafa komið upp hugmyndir varðandi vísitölugreiðslur, að greiða samkv. ákveðinni krónutölureglu sömu upphæð til allra hópanna. Þá hafa heyrst raddir í röðum verkalýðshreyfingarinnar að það væri ekki rétt að gera slíkt vegna þess að það breytti launahlutföllunum. Í þessu máli og því sem ég hef hér gagnrýnt varðandi yfirborganir finnst mér verkalýðshreyfingin ekki hafa staðið sig. Hún hefur staðið sig vel á mörgum öðrum sviðum að því er varðar hagsmuni láglaunafólks, úr því skal ekki dregið. En ég taldi, herra forseti, að þessi leiðrétting kæmi hér fram, vegna þess að mér fannst hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson snúa út úr máli mínu.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það væri eðlilegt að ríkissjóður stæði undir þeim kostnaði sem af frv. þessu leiddi. En ég taldi þó ekki óraunhæft að áætla að verkalýðshreyfingin eða aðilar vinnumarkaðarins tækju einnig þátt í kostnaði við slíka könnun, úttekt og endurmat sem hér er lagt til, vegna þess að það er ekki síst fyrir verkalýðshreyfinguna sem nauðsynlegt er að fá þetta endurmat og þessa úttekt upp á borðið og hún hlýtur sérstaklega að njóta góðs af því fyrir sína umbjóðendur að fá þetta fram. En verði samstaða um það í nefnd hér á þinginu að ríkissjóður standi alfarið straum af þessu þá skal ekki standa á mér að samþykkja slíkt.

En ég vil, herra forseti, hér að lokum ítreka aftur þakkir fyrir góðar undirtektir við þetta frv.