11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4687 í B-deild Alþingistíðinda. (4078)

304. mál, selveiðar

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka þann skilning sem þessu máli hefur verið sýndur og vænti þess að það takist að ljúka því á þessu þingi, jafnvel þótt mikið liggi fyrir á þeim tíma sem eftir er.

Það hafa komið hér fram nokkrar efasendir um það undir hvaða rn. þetta mál eigi að heyra, og vissulega má draga það í efa og um deila. En ég verð að segja eins og er, að mér finnst að oft og tíðum sé einum of mikið úr því gert. Ég tel að aðalatriðið sé að máli sem þessu sé sinnt af kostgæfni. Það hefur verið undirbúið og því stýrt af sjútvrn. á undangengnum árum. Það starf hófst löngu áður en ég kom í það rn. Rannsóknir eru allar á vegum þess rn. Mér finnst eðlilegt að reynt sé að samræma þessa hluti sem mest undir einu og sama rn. þannig að með því sé tryggt að málinu sé vel sinnt.

Af því að minnst var á hreindýrin hér hygg ég að það hafi jafnvel verið svo að rannsóknir á hreindýrastofninum hafi heyrt undir Landsvirkjun eða iðnrn. vegna virkjunarmála á Austurlandi. Sannleikurinn er sá, að þetta gengur allt saman á skjön í stjórnkerfinu og eðlilegt að þar gangi stundum illa. Einstök rn. virðast vera mjög viðkvæm fyrir því ef eitthvað er verið að fara inn á þeirra verksvið, sem ég tel minni háttar mál ef vel er að málum staðið.

Ég vil taka það fram, að það er út af fyrir sig ekkert áhugamál af minni hálfu að þetta mál heyri undir sjútvrn. Það er aðaláhugamál í þessum efnum að tekið verði fullt mið af þeim miklu hagsmunum sem hér eru í húfi. Ég vil ekki leyna því að eins og hér hefur komið fram er ástæða til að hafa af því miklar áhyggjur. Ég minni á að þau laun sem fiskvinnslufólk okkar fær eru ekki mikil. Það eru miklar fjárhæðir í húfi ef hægt er að draga úr kostnaðinum, og yrði það e. t. v. til þess að í þessum atvinnuvegi væri hægt að greiða mannsæmandi laun.

Ég vil taka fullt tillit til hagsmuna landeigenda í þessu sambandi og náttúruverndarsjónarmiða, en það er nú svo í þjóðfélagi okkar að minni hagsmunir verða því miður oft og tíðum að víkja fyrir meiri hagsmunum. Ef svo er verður það þannig að vera ef við viljum almennt sækja fram í okkar þjóðfélagi. Hins vegar er nauðsynlegt að á því sé fullur skilningur, eins og ég tók hér fram. En ég vil leggja á það áherslu að ég tel að ekkert hafi komið fram sem réttlæti að slaka á í því á nokkurn hátt að halda selastofninum í skefjum.