03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð til að styðja þessa till. Það kemur dálítið spánskt fyrir sjónir þegar þeir litlu peningar sem virðast vera til eru notaðir til þess að byggja yfir peninga sem ekki eru til. Slíkt mundi tæpast réttlæta nokkuð annað heldur en að þetta væri gróðurhús þar sem ætti að rækta peninga. En þó að viðskrh. hafi verið að fjalla um lög þar sem er vikið að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, þá fannst mér ég samt ekki fá svar við því sem ég ætlaði einmitt að spyrja hann að. Hvers vegna heyrir ráðstöfun hagnaðar Seðlabankans til byggingarframkvæmda ekki undir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir samkvæmt þeirri skilgreiningu sem okkur var gefin áðan?

Og ég verð að segja það, að þegar ég las lög seðlabankans kom mér það afskaplega mikið á óvart hversu laus ákvæðin eru um ráðstöfun hagnaðar. Það eina sem átti að fara í einhverjar þjóðþrifaframkvæmdir var örlítil hlutfallstala til Vísindasjóðs.

Svo er náttúrlega annað mál í sambandi við þessa byggingu: Hún þarf ekki endilega að hýsa Seðlabankann þó henni verði lokið.