03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. 3. landsk. þm., þá liggur ljóst fyrir að lögin um opinberar framkvæmdir gilda um framkvæmdir sem eru fjármagnaðar af fjárlögum alfarið og ríkisframkvæmdir sem eru fjármagnaðar að hluta til af ríkissjóði og að hluta til af sveitarfélögum eða öðrum þeim aðilum sem lög segja til um að skuli taka þátt í þeim framkvæmdum sem þar eru. Hins vegar er í þeirri grein, sem hv. 10. landsk. þm. vitnaði til, getið um framkvæmdir á vegum þeirra stofnana sem hafa sjálfstæða stjórn og það sem samkv. lögum og þeirra fjárhagsáætlun er ekki að finna í fjárlögum. — Vonast ég til þess að ég hafi getað svarað því sem þm. spurði um.

Varðandi það, sem hv. 5. þm. Reykv. vék að, hvort það geti verið að fyrrv. hæstv. viðskrh. hafi ekki farið að samþykktum ríkisstj. í þessum efnum. Það get ég ekki dæmt um. Ég veit að þegar hann kemur aftur til þings mun hann svara því. (Gripið fram í: Hvar ætli hann sé núna?) Ég veit ekki, hv. þm., hvar hann er staddur núna. Ég held að þegar hann fékk fjarvistarleyfi frá þingsetu hafi það verið vegna þess að hann hafi farið í opinberum erindum erlendis. Ég ímynda mér að hv. þm. kannist við það og það komi stundum fyrir þm. að þeir geri eitthvað slíkt. En þetta kemur þá í ljós.

En hæstv. fyrrv. fjmrh. sagði að í ágústmánuði á s.l. ári hefði ríkisstj. haft þetta mál til meðferðar, þ.e. byggingu Seðlabankahúss, og gert þar um samþykkt. En þá hefur hæstv. ráðh. verið búinn að gleyma að þegar kom fram í febrúarmánuði á þessu ári var útboð gert í sambandi við byggingu Seðlabankans. Ég trúi ekki öðru en hæstv. fyrrv. ráðh. hafi lesið blöðin svo vel að hann hafi áttað sig á því, þegar útboðið fór fram, að þar hafi verið um að ræða byggingu Seðlabankans. En ríkisstj. hafði samkv. því sem hann sagði verið búin að taka afstöðu gegn því að það yrði haldið áfram með þessa framkvæmd. Það kemur þá í ljós og hægt að skoða það, því að samkv. bókun ætti það að liggja fyrir. (JBH: Getur hafa verið erlendis.) Getur hafa verið erlendis, sagði hv. þm. Við skulum reyna að finna afsökun fyrir slíku. En einhverjir hafa þó verið heima. Það eru ekki bara ráðh. úr mínum flokki sem fara erlendis. Það hefur þó einhver verið heima af flokksmönnum fyrrv. ráðh. og þeir hefðu þess vegna mátt átta sig á því að hér var verið að gera eitthvað sem ríkisstj. hafði samþykkt að ekki skyldi gert.

Hann vissi ekki hvað ég átti við þegar ég sagði að hér væri seint í rassinn gripið. Þetta er nú máltæki. (Gripið fram í: Það vantar aðeins á þetta máltæki.) Það vantar á máltækið, segir hann. En hv. þm. Garðar Sigurðsson, 4. þm. Suðurl., spurði: Í hvaða rass? Það sem einfaldlega er átt við með þessu máltæki er að sá sem hér kemur og vill fá að breyta er ansi seint á ferðinni því að vissulega hefur þm. haft möguleika á því að koma fram sínum skoðunum og hafa áhrif. Ég vék nú ekki að því áðan, en um tíma gegndi einn af flokksmönnum Alþb. formennsku í bankaráði Seðlabankans á þessu tímabili. Það hefði því verið mjög auðvelt að koma fram aths. og þá væntanlega breytingunum sem hér er verið að tala um.