24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4807 í B-deild Alþingistíðinda. (4223)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu máli og vil undirstrika að það sem kom fram í máli hans gæti ég vel fallist á.

Það hefur verið að því látið liggja að kjarnfóðurgjald væri lagt á til þess að stjórna landbúnaðarframleiðslunni. Það er mjög auðvelt að sýna fram á að eins og það hefur verið framkvæmt er þetta ekki stjórnunaraðgerð. Kjarnfóðurverð er ekkert hærra núna en það var á fyrri hluta síðasta áratugar. Ef það væri stjórnunaraðgerð núna hefði aldrei átt að koma til þeirrar margumtöluðu offramleiðslu sem varð. Þetta er verðmiðlunargjald. Þetta er gjald til að færa milli fjármuni innan landbúnaðarins og innan þjóðfélagsins og það er meira en vafasamt.

Þess vegna ber að undirstrika það, sem kom fram í ræðu fyrirspyrjanda, að ef á að hagnýta það með einum eða öðrum hætti til verðmiðlunar verður að gera það með einföldum hætti, og sá háttur er einfaldastur að færa það þá beint yfir í áburðarverðið og láta það ekki stoppa í þeirri rás. Það er út af fyrir sig hókus pókusaðferð að kalla inn fjármagn sem skatt í gegnum fóðurbætisgjald, varðveita það lengri eða skemmri tíma og skila því svo aftur í margfalt verðminni krónum en þegar þær voru teknar af bændunum. Þetta er einn liðurinn í því hvernig kjör bændanna hafa gengið niður á allra síðustu árum.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, taka alveg sérstaklega undir það, sem kom fram í máli fyrirspyrjanda í upphafi, að ekki er hægt að samþykkja það áburðarverð sem ríkisstj. hefur fallist á. Það er með engum hætti hægt að samþykkja yfir 40% hækkun á áburðarverði á sama tíma og gengið er út frá því að verðlag í landinu hækki um 10–12%. Þetta samrýmist ekki. Ef ekki nást fram um það aðgerðir með öðrum hætti verður að láta á það reyna hvað stór hluti Alþingis fellst á að hafa áburðarverðið með þeim hætti sem tilkynnt hefur verið.