25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4835 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Með frv. þessu er fyrirhugað að afla ríkisstj. lagaheimildar til að gera þær ráðstafanir til endurskipulagningar á fjárhag Íslenska járnblendifélagsins hf. að Grundartanga sem nauðsynlegar eru til að unnt verði að ganga frá samningum við Elkem a/s í Noregi og Sumitomo Corporation í Japan um þátttöku hins síðarnefnda sem samstarfsaðila ríkisins í félaginu við hlið Elkem, skv. 2. gr. laga þar um nr. 18/1977. Er það meginatriðið með samstarfsaðild Sumitomo og þeim ráðstöfunum sem henni eru tengdar að styrkja markaðs- og fjárhagsstöðu Járnblendifélagsins til varanlegrar frambúðar.

Nánar tiltekið verður hin fyrirhugaða samvinna við Sumitomo á því byggð að komið verði á samskiptum til langs tíma um sölu til Sumitomo og viðskiptavina þess í Japan á kísiljárni frá Grundartanga í verulegu magni. Jafnframt gerist Sumitomo minnihlutahluthafi í Járnblendifélaginu ásamt Elkem og eignist þar 15% heildarhlutafjár, en hlutafjáreign Elkem lækki úr 45% í 30%.

Staða ríkisins og hlutafjáreign (55%) í Járnblendifélaginu breytist ekki við tilkomu Sumitomo sem hluthafa. Staða Elkem verður og óbreytt að öðru leyti en því, að hlutfjáreign þess minnkar skv. framansögðu og það verður ekki söluaðili að kísiljárni því sem Sumitomo tekur við á hverjum tíma. Elkem mun áfram sjá um sölu á öðru kísiljárni frá Grundartanga, á öðrum mörkuðum en hinum japanska, og bera ábyrgð á heildarskipulagningu sölunnar á þeim grundvelli sem um var samið í sölusamningi Elkem og Járnblendifélagsins frá 1977. Jafnframt mun Elkem áfram veita Járnblendifélaginu tækniaðstoð á grundvelli tæknisamnings frá 1976.

Rétt er að leggja áherslu á að fjárhagsaðgerðir þær sem leitað er heimildar fyrir með frv. þessu eru ekki sambærilegar við þær ráðstafanir í þágu Járnblendifélagsins sem heimilaðar voru fyrir tveimur árum með lögum nr. 45/1982. Að því sinni var ráðgert að tryggja greiðsluafkomu félagsins næstu árin með:

a. Beinni hlutafjáraukningu (allt að 5.8 millj. Bandaríkjadala).

b. Víkjandi láni með sjálfskuldarábyrgð hluthafa (um 6 millj. Bandaríkjadala).

c. Eigin lánum félagsins án beinnar ábyrgðar hluthafa (um 10 millj. Bandaríkjadala), en hluti hinna síðastnefndu (6 millj. Bandaríkjadala) komi í stað rekstrarláns sem félaginu var tryggt við stofnun.

Félagið starfar enn innan þess ramma sem þarna var settur, þannig að framlög til þess hafa ekki orðið meiri en þá var ákveðið (þ. e. 5.8 millj. Bandaríkjadala). Hins vegar hefur félaginu ekki tekist að nýta þennan ramma til fullnustu vegna hinnar veiku eiginfjárstöðu sinnar. Hefur hún komið í veg fyrir að félagið geti framkvæmt þær eigin lántökur sem til var ætlast (c). Gerðist þetta þegar fyrir árslok 1982, vegna hinnar miklu hækkunar á gengi Bandaríkjadollars gagnvart norskri og íslenskri krónu, sem varð á því ári. Má vísa um það til ársskýrslu félagsins frá í maí 1983. Hið nýja hlutafé skv. frv. þessu kemur þannig að sínu leyti í stað lánanna sem hætta þurfti við að taka 1982, auk þess sem það leiðir til þess að lánið, sem þá var tekið með hluthafaábyrgð (6 millj. dalir) og jafngildir í rauninni hluthafalánum, verður nú úr sögunni, sbr. 2. gr. frv. sem ég mæli nú fyrir.

Upphaf viðræðna við Sumitomo Corporation má rekja til haustsins 1982, en þá áttu fulltrúar Elkem í stjórn íslenska járnblendifélagsins hf. fund í Reykjavík með þáv. iðnrh., Hjörleifi Guttormssyni, um vandamál félagsins sem snertu hluthafa mjög um þær mundir vegna áðurnefndrar gengisþróunar. Vörpuðu þeir þar fram hugmyndum um samvinnu við japanskan aðila til að breikka starfsgrundvöll félagsins og töldu ákjósanlegast að líta til Sumitomo í því sambandi.

Iðnrh. þáv. svaraði málaleitan þeirri með bréfi í nóvember 1982 þar sem fallist var á að taka upp viðræður við japanskan aðila um sölusamning til langs tíma og einnig um eignaraðild að Járnblendifélaginu, að því tilskildu að íslenska ríkið héldi þar meirihlutaaðstöðu. Var skipaður starfshópur til að undirbúa viðræður þessar og koma þeim af stað. Áttu þar sæti m. a. þeir Páll Flygenring ráðuneytisstjóri, Ragnar Árnason lektor, Hjörtur Torfason hrl., stjórnarformaður félagsins, auk þess sem Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri félagsins, starfaði með hópnum. Nokkrir fleiri fulltrúar á vegum iðnrn. tóku þátt í þessu starfi og hjá Elkem var sérstökum starfshópi falið verkefnið. Fyrsti viðræðufundur með fulltrúum Sumitomo var haldinn í Reykjavík í janúar 1983 og síðan fylgdu fundir í Osló og Tokyo í kjölfarið.

Sumarið 1983 varð nokkurt hlé á viðræðum vegna athugunar á fram komnum sjónarmiðum og frestunar á fyrirhugaðri heimsókn Japana til Íslands, jafnframt því sem stjórnarskipti höfðu átt sér stað. Ákvað núv. iðnrh. hinn 5. júlí 1983 að fela nýskipaðri Samninganefnd um stóriðju, þeim dr. Jóhannesi Nordal, dr. Gunnari G. Schram hv. þm. og Guðmundi G. Þórarinssyni verkfræðingi, að annast frekari viðræður um málið og hefur hún gert það síðan ásamt ritara sínum Garðari Ingvarssyni. Þeir Páll Flygenring, Hjörtur Torfason og Jón Sigurðsson hafa starfað með nefndinni auk þess sem fulltrúar Járnblendifélagsins og Landsvirkjunar hafa komið þar við sögu.

Þessar viðræður Samninganefndar um stóriðju hafa farið fram á fundum hér heima og erlendis síðan í septembermánuði 1983. Hafa þær nú náð því marki, á fundi nefndarinnar með fulltrúum Elkem og Sumitomo dagana 5.–6. apríl 1984, að samkomulag hefur náðst um að stefna að endanlegum samningum milli aðila á tilteknum grundvelli. Var þetta staðfest með undirritun samkomulagsyfirlýsingar hinn 6. apríl s. l.

Samkomulagið var undirritað með fyrirvara um samþykki stjórnar Elkem, Sumitomo, Járnblendifélagsins og Landsvirkjunar og íslenskra stjórnvalda, auk þess sem málið verður borið undir lánveitendur Járnblendifélagsins. Var ákveðið að stefna að því að leiða alla samningsgerð og heimildaöflun til lykta fyrir 1. júní 1984. Er frumskilyrði í því sambandi að Alþingi fallist á að veita þá lagaheimild sem hér er leitað eftir.

Grundvelli samkomulagsins hefur þegar verið lýst að nokkru, en hann er í stuttu máli sem hér segir:

1. Núverandi hluthafalánum verði breytt í hlutafé, sbr. aths. um l. gr. frv.

2. Núverandi hluthafar leggi til nýtt hlutafé, sem nemur jafnvirði 120 millj. norskra króna, m. a. með yfirtöku skulda sem nú eru með ábyrgð hluthafanna.

3. Sumitomo kaupi 15% hlutabréfa í fyrirtækinu af Elkem, eftir að endurskipulagning eiginfjárstöðu Járnblendifétagsins hefur farið fram.

4. Sumitomo verði skipaður einkaumboðsmaður á Japansmarkaði fyrir kísiljárn frá Járnblendiverksmiðjunni og taki að sér sölu og ábyrgist á tilteknu árlegu magni á þeim markaði (20 þús. tonnum). Að öðru leyti verður sölustarfsemi áfram í höndum Elkem á grundvelli gildandi sölusamnings, og er gert ráð fyrir að unnt verði að tryggja fulla sölu á framleiðslu verksmiðjunnar miðað við venjuleg afköst.

5. Kísiljárn til Sumitomo verður afhent með sömu kjörum og gilda skv. sölusamningi við Elkem, þ. e. eftir markaðsverði.

6. Gert er ráð fyrir sérstökum samningi við Landsvirkjun um viðbótargreiðslur ofan á gildandi orkuverð þegar tiltekinni arð- og eiginfjárstöðu járnblendiverksmiðjunnar er náð.

7. Jafnframt ofangreindu hefur einnig tekist samkomulag um aukna þátttöku Elkem í kostnaði við sérstök tækniþróunar- og rannsóknarverkefni hjá Íslenska járnblendifélaginu. Einnig er gert ráð fyrir virkari þátttöku íslenska járnblendifélagsins í markaðsmálum.

Lagafrv. sjálft snertir einungis fjármögnunarþátt samninganna, þar sem aðrir þættir þeirra kalla ekki á lagabreytingar. Aðild Sumitomo að Járnblendifélaginu fellur að öðru leyti inn í ákvæði laga nr. 18/1977 um járnblendiverksmiðjuna með eðlilegum hætti, þ. á m. ákvæði 2. gr. um þátttöku, 4. gr. um hluthafa, 6. gr. um samstarfssamninga og 8. gr. um skattamál.

Hin fjárhagslega endurskipulagning á Íslenska járnblendifélaginu hf., sem tengd er aðild Sumitomo Corporation, verður fólgin í því í fyrsta lagi að núverandi hluthafar félagsins, ríkisstj. og Elkem, munu breyta í hlutafé hinum víkjandi hluthafalánum sem þeir hafa veitt félaginu á árunum 1981–1983 vegna tapreksturs fram til þessa. Nema lánin alls sem næst 140 millj. norskra króna eða 18.6 millj. Bandaríkjadollara. Frá sjónarmiði hluthafanna er aðallega um formbreytingu að ræða, þar sem ekki var gert ráð fyrir endurgreiðslu þessara lána fyrr en félagið væri farið að skila arði umfram greiðslur af öðrum stofnlánum, og eru því kölluð víkjandi hluthafalán. Að því er ríkið snertir er þess einnig að gæta, að umrædd lán eru byggð á þegar fengnum heimildum í lögum nr. 18/1977 til hluthafaráðstafana (3. málsgr. 6. gr.) og hækkunar hlutafjár (1. tölul. 3. gr., þar sem framlagsheimild var hækkuð með lögum nr. 45/1982 úr jafnvirði 13.2 millj. Bandaríkjadala í jafnvirði 19 millj. Bandaríkjadala).

Í öðru lagi og aðallega munu núverandi hluthafar leggja fram nýtt hlutafé til Járnblendifélagsins skv. samkomulagi við Sumitomo, sem alls nemur jafnvirði 120 millj. norskra króna eða sem næst 15.9 millj. Bandaríkjadala. Yrði þetta gert eftir núverandi eignarhlutföllum, þannig að ríkið leggi til 55% eða 66 millj. norskra króna og Elkem 45% eða 54 millj. norskra króna. Er fyrirhugað að fé þetta verði notað að mestu eða öllu leyti til að greiða niður núverandi skuldir Járnblendifélagsins vegna lána til verksmiðjunnar. Munu hluthafarnir því ekki þurfa að afla nýs fjár vegna hlutafjáraukningarinnar, nema þeim þyki það betur henta, heldur geta þeir framkvæmt hana með yfirtöku á hluta þessara lána. Það er fyrst og fremst vegna þessarar ráðstöfunar sem lagaheimild þarf og málið er lagt fyrir Alþingi í formi þessa frv.

Ráðagerðir aðila um þessa nýju hlutafjáraukningu eru til komnar vegna þess efnahagsvanda sem við hefur verið að glíma í járnblendiiðnaði á undanförnum árum. Á járnblendiverksmiðjunni að Grundartanga hefur hann bitnað með þeim hætti, sem kunnugt er, að ekki hefur verið unnt að selja allt það kísiljárn sem verksmiðjan gæti framleitt með venjulegum afköstum og söluverð á heimsmarkaði hefur verið til muna of lágt miðað við þarfir nýrrar verksmiðju með þunga byrði stofnkostnaðar. Vegna þessa hefur Járnblendifélagið safnað mjög verulegu tapi frá því er rekstur hófst vorið 1979, þrátt fyrir þá staðreynd að starfsræksla verksmiðjunnar hefur gengið eins og best verður á kosið í tæknilegum efnum og í rauninni nær algjörlega hnökralaust, þegar frá er talinn orkuskortur veturinn fyrir gangsetningu Hrauneyjafossvirkjunar.

Mjög hefur dregið úr þrengingum verksmiðjunnar á síðustu mánuðum, þar sem jafnvægi hefur ríkt milli framboðs og eftirspurnar frá því síðla vors 1983 og verksmiðjan því starfað með fullum afköstum, auk þess sem markaðsverð hefur hækkað verulega. Tap Járnblendifélagsins varð því miklu minna 1983 en 1982 og útlit er fyrir að það nái hallalausum rekstri á yfirstandandi ári. Vandinn er þó ekki úr sögunni, þar sem enn ríkir lægð í stáliðnaði víðast hvar í heiminum og afturkippur gæti komið í þann bata sem orðið hefur á járnblendisviðinu.

Ástæða er því til að ætla að núverandi hluthafar, annar eða báðir, gætu enn þurft að bregðast við vanda félagsins á einhvern hátt, hvort sem þriðji hluthafinn kæmi til skjalanna eða ekki, með auknum framlögum eða ábyrgðum. Hin nýja hlutafjáraukning gengur þó mun lengra en sú aðstoð sem hluthafarnir mundu þannig ráðgera ef þeir stæðu einir að málinu, a. m. k. fyrsta kastið. Þetta stafar af því, að hlutafjáraukningin er ekki aðeins hugsuð sem skammtímaráðstöfun til lausnar á aðsteðjandi vanda, heldur er henni einnig ætlað að koma fjárhag félagsins í það horf að það geti staðið af sér samkeppni á heimsmarkaðnum og haldi velli til frambúðar, jafnvel þótt enn kæmi þar til alvarlegs samdráttar. Um leið má vænta þess, að félagið fari þá tiltölulega fljótt að skila arði ef vel árar fyrir starfsemina.

Umrædda ráðstöfun telja hluthafarnir rétt að gera með tilliti til þess, að þátttaka þriðja hluthafans stuðlar mjög að því að leysa til frambúðar úr öðrum meginvanda járnblendiverksmiðjunnar, nefnilega því að tryggja möguleika á að reka verksmiðjuna með fullum afköstum á hverjum tíma. Væntir Sumitomo þess að geta haldið uppi stöðugri sölu á Japansmarkaði á verulegum hluta af framleiðslu verksmiðjunnar og eru þá allar líkur til að takast megi að selja afganginn af því sem verksmiðjan getur annað við venjulegar aðstæður.

Í kjölfar ofangreindrar hlutafjáraukningar er svo ráðgert að lækka nafnverð heildarhlutafjárins sem svarar uppsöfnuðu tapi félagsins, þannig að bókfært tap í íslenskum krónum við lok endurskipulagningarinnar sé að fullu jafnað. Þetta bókfærða tap nemur samanlagt sem næst 390 millj. íslenskra króna eða um 100 millj. norskra króna. Hefur félagið þá uppfyllt skilyrði hlutafélagalaga til að geta greitt arð til hluthafa miðað við lækkað hlutafjárnafnverð þegar starfsemin fer að skila ágóða eftir endurskipulagninguna eins og vonir standa til.

Þegar núverandi hluthafar hafa þannig framkvæmt hina ráðgerðu endurskipulagningu á fjárhag Járnblendifélagsins verður gengið frá aðild hins nýja hluthafa að félaginu með því að Sumitomo kaupi 15% heildarhlutafjárins af hluta Elkem, eins og fyrr segir. Fær Sumitomo hlutabréf sem því svarar, en Elkem mun fyrir sitt leyti nota andvirði hlutabréfanna til að vega á móti þeim framlögum og skuldbindingum sem það hefur á sig tekið við endurskipulagninguna. Þeir endar ná þó ekki alveg saman, þannig að Elkem þarf að taka á sig nokkrar skuldbindingar án þess að hlutafjárandvirði komi á móti.

Gagnvart ríkissjóði verða áhrifin af endurskipulagningunni þannig í stuttu máli, að ríkið breytir núverandi lánum sínum og ábyrgðarskuldbindingum vegna Járnblendifélagsins í beint hlutafé í félaginu og eykur jafnframt hlutafé sitt til nokkurrar viðbótar með niðurgreiðslu eða yfirtöku frekari skulda félagsins. Með þessu heldur ríkið á hinn bóginn óskertri hlutfallslegri eignarhlutdeild í félaginu og þar með fullri hlutdeild í þeim arðsvonum og öðrum hagsmunum sem tengdir eru áframhaldandi rekstri félagsins. Við þetta bætast svo hinir ýmsu möguleikar sem tengdir eru samskiptunum við Sumitomo beint og óbeint.

Fyrir Elkem verða áhrifin þau, að fyrirtækið breytir lánum og skuldbindingum í hlutafé á sama hátt og ríkið, en fær fjármögnun á þeirri ráðstöfun að verulegum hluta með því að minnka eignarhlutdeild sína í félaginu um þriðjung. Af því leiðir að fyrirtækið á minni arðsvon en áður af áframhaldandi starfsemi járnblendiverksmiðjunnar, auk þess sem það gefur eftir rétt sinn til að selja það kísiljárn sem Sumitomo tekur við. Á móti hinum neikvæðu áhrifum kemur hitt, að með þessum ráðstöfunum hefur Elkem tryggt sér eins og unnt er að þurfa ekki framar að inna af hendi fjárframlög til að standa undir óbreyttum rekstri verksmiðjunnar. Auk þess nýtur fyrirtækið hinna ýmsu möguleika af samstarfi við Sumitomo.

Frá sjónarmiði Íslendinga er endurskipulagningin mjög jákvæð að því leyti, að hún hefur í för með sér umtalsverða lækkun á heildarskuldum þjóðarbúsins, eða sem svarar jafnvirði nær 16 milljóna Bandaríkjadollara. Þetta stafar af því, að hið nýja fjármagn til Járnblendifélagsins verður notað til að greiða niður erlendar skuldir fétagsins og hinir erlendu hluthafar taka fullan þátt í þeirri fjármögnun að sínum hluta.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að Elkem hefur frá upphafi tekið fullan þátt á móti ríkissjóði í þeirri fjárhagsaðstoð sem Járnblendifélaginu hefur verið veitt á undanförnum árum. Hefur félagið þannig gert stórum betur en að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Íslendingum um framlög til verksmiðjunnar, þar sem bein loforð þess náðu ekki nema til hins upphaflega hlutafjár, sem var 10.2 millj. Bandaríkjadala, og 19.8 millj. norskra króna í hluthafalánum skv. 3. málsgr. 6. gr. laga um járnblendiverksmiðjuna nr. 18/1977. Enda þótt fyrirtækið hafi nú kosið að verjast frekari áhættu í þessu efni með því að minnka hlut sinn í Járnblendifélaginu er ekki ástæða til að túlka það sem neina uppgjöf gagnvart verksmiðjunni, heldur má nú ætla þvert á móti að rekstrargrundvöllur hennar verði traustari en nokkru sinni fyrr.

Af hálfu Íslendinga hefur frá upphafi verið lögð stund á að athuga í viðræðum um málið, bæði við Elkem og Sumitomo, hvort efni væru til að breyta formerkjum hinna gildandi samninga um járnblendiverksmiðjuna í tilefni af þátttöku Sumitomo og tengdum aðgerðum. Um sölusamninginn við Elkem er það að segja, að skilmálar hans eru hagstæðir Grundartangaverksmiðjunni, og ekki er getuleysi Elkem um að kenna, nema síður væri, þótt treglega hafi gengið að selja framleiðsluna þar til nú á liðnu ári. Er því ástæða til að fagna því, að unnt verður að byggja einnig á þessum samningi í viðskiptunum við Sumitomo. Hins vegar er nú um það rætt, að fulltrúar Járnblendifélagsins taki virkari þátt í framkvæmd markaðsmála en verið hefur og skiptir það mestu í þessu sambandi.

Samkvæmt tæknisamningum við Elkem greiðir Járnblendifélagið þangað árlegt gjald fyrir tækniaðstoð sem er verksmiðjunni mjög mikilvægt. Rætt hefur verið um þetta gjald og niðurstaðan orðið að halda því óbreyttu, m. a. vegna þess að Sumitomo telur enga ástæðu til að lækka það. Í þess stað er gert ráð fyrir að Elkem auki þátttöku í kostnaði við tækniþróunar- og rannsóknarverkefni sem unnin verði hér heima.

Viðræðurnar hafa því einkum snúist um það hvort tök séu á að breyta rafmagnsverði Landsvirkjunar til Járnblendifélagsins. Ljóst er að félagið hefur ekki bolmagn til að greiða hærra rafmagnsverð en um hefur verið samið, eins og sakir standa nú. Er því gert ráð fyrir að gildandi rafmagnssamningur haldist óbreyttur, en í honum eru m. a. sjálfstæð ákvæði um endurskoðun vegna breyttra forsendna. Hins vegar verði gerður viðbótarsamningur við hann um sérstakar greiðslur ofan á gildandi orkuverð, þegar tiltekinni arðsemis- og eiginfjárstöðu er náð hjá félaginu, í formi skiptingar til þess og Landsvirkjunar á umframágóða verksmiðjunnar. Hér er um mikilvægt samningsatriði að ræða sem tryggir hagsmuni Íslendinga eins og best verður á kosið um sinn.

Með ofangreindum samningum um málefni Íslenska járnblendifélagsins hf. verður brotið blað í sögu félagsins og íslenskra atvinnumála. Er ástæða til að vona að þeir muni marka drjúg og gæfurík spor í þróun fyrirtækisins og orkufreks iðnaðar hér á landi.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.