25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4851 í B-deild Alþingistíðinda. (4260)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Hæstv. forseti. Ég geymi mér umræður um kísilmálm. Við fáum væntanlega hið háa Alþingi hið fyrsta til að fjalla um þau mál. Eins er é löngu hættur að fjargviðrast út af Kröfluvirkjun. Ég hafði ýmislegt um það að segja á sínum tíma, eins þegar ég kom úr flugferð yfir Leirhnjúk þennan fræga morgun, 20. des. 1976 minnir mig að það hafi verið, eða 1975. Árni Johnsen ætti að muna það, þar sem við vorum þar saman farþegar, með listflugmanni miklum. Við reynum að gera eitthvað gott úr Kröflu og víst höfum við fengið haldgóða reynslu af umsvifum þar og ekki er að vita, þegar fram líða stundir, nema hún geti gert í blóðið sitt. Þetta er afkastamikil virkjun eins og jarðgufuvirkjanir eru. Þar er það ekki sveiflukennt vatnsafl sem á í hlut. Nú verða holur á Hvíthólasvæði tengdar þessari gufuaflsvirkjun þannig að vélasamstæðan, sem sett hefur verið upp, mun skila 30 mw. Auðvitað eru það miklar skuldir sem á þessu fyrirtæki hvíla, en úr því sem komið er þýðir ekki um það að fást, heldur reyna að koma því sem hagfelldast fyrir í okkar orkukerfi, en fyrir því hefur ekki verið séð fram til þessa dags. Til að mynda er það að virkjunin stendur óhreyfð í allt sumar. Þannig megum við ekki halda á málum, heldur þurfum við að skipuleggja orkuframleiðsluna sem mest eftir markaðsþörfum, enda þótt við þurfum á hverjum tíma að eiga nokkra umframorku í kerfinu sjálfu.

Ég þakka ágætar undirtektir við þetta frv. frá hv. 3. þm. Vesturl., hv. 5. landsk. þm. og hv. 8. þm. Reykv. Ég legg ekki mikið upp úr því að andstöðu hafi sérstaklega gætt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. Og víst var það greinilegt að hv. 4. þm. Vesturl. gerði bæði sárt og klæjaði.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. minntist á að hér væri um neyðarráðstafanir að tefla. Ég læt mér hægt um það orðalag, en sé svo, þótt ég vilji álíta að hér séu ráðstafanir gerðar til frambúðarstarfrækslu og arðsemi þessa fyrirtækis, þá er hitt víst að aðgerðirnar sem gerðar voru með lögum nr. 45 frá 1982 voru neyðarráðstafanir hreinar, þar sem lagðar voru undir um 20 millj. dollara til fjárhagsendurskipulagningar, hlutafjáraukningar, víkjandi lántökum sem kallaðar eru, sem er auðvitað sjálfskuldarábyrgð og kemur ekki til endurgreiðslu af hálfu lántakanda fyrr en önnur stofnlán eru greidd, og með beinum ábyrgðum hluthafa 10 millj. Bandaríkjadala. Öll þessi lántaka fór ekki fram vegna hinnar erfiðu stöðu félagsins. En við þessa aðgerð nú verður létt af íslenska ríkinu sem svarar 15.9 millj. Bandaríkjadala, 470 millj. ísl. króna, sem léttir af erlendri skuldastöðu okkar vegna hlutafjáraukningarinnar og vegna þess að greiddar eru niður skuldir fyrirtækisins. Þess vegna er það að mínum dómi ákaflega mikilsvert að hafa náð þessum samningum. Við hefðum gjarnan kosið að geta hækkað orkuverðið verulega. Að því er þó gætandi að við erum meirihlutaeigendur í þessu fyrirtæki, eigum 55%, og þess vegna er hagur okkar auðvitað allur að fyrirtækið komist á réttan kjöl.

Ég vil upplýsa að forgangsorkan er seld til þessa fyrirtækis á 11.386 mill og er það auðvitað ekki nálægt því eins hátt verð og við þyrftum. Hins vegar eru tekin inn ákvæði um það, að þegar fyrirtækið hefur skilað verulegum ágóða, 50 millj. norskra kr., þá skiptist umframágóði af því milli Landsvirkjunar og félagsins í hlutföllunum 33:67, þannig að hér er auðvitað stórt í sniðum og ef heldur svo fram sem horfir um rekstur fyrirtækisins, þá er það fróðra manna hyggja að innan 4–5 ára kynni þessu marki að verða náð. Einnegin er þarna um eiginfjárstöðu fyrirtækisins að tefla í að mig minnir hlutföllunum 60:40 eiginfjárstöðu miðað við endurskoðaða hlutafjáreignina.

Ég vil aðeins upplýsa að árið 1981 framleiddi þessi verksmiðja einungis 32 þús. tonn, 1982 42 þús. tonn, 1983 50 þús. tonn. Núna stefnir í það hámark og eiginlega fram úr því sem hún að meðaltali er talin geta afkastað, sem er 53–55 þús tonn. Menn gera sér vonir um að nú náist um 58 þús. tonn. 55 þús. tonna framleiðsla er trygg á hverju ári, 30 þús. tonna vegna sölu Elkem og 20 þús. tonna vegna Sumitomo. Þess má geta að það var deiluatriði harðsnúið undir lokin að Sumitomo hefur forgang að 5 þús. tonnum fram yfir 50 þús. tonn, þannig að við teljum okkur örugg um hámarkssölu á hámarksafköstum verksmiðjunnar. Lauslega áætlað má ætla, miðað við rekstur verksmiðjunnar í dag, að nettógjaldeyristekjur vegna reksturs verksmiðjunnar séu 420 millj. kr. Af þessu sjá menn að mikið er í húfi að vel takist til um viðreisn þessa fyrirtækis. Það er misskilningur, sem hv. 4. þm. Vesturl. hélt fram, að Japanir væru að koma stórrekstri, stóriðju fyrir í öðrum löndum með þessari athöfn sinni og annarri sem þeir hafa nú aðhafst í þessum málum. Ástæðurnar eru þær að vegna gífurlegs orkukostnaðar í Japan hafa járnblendiverksmiðjur og álbræðslur farið á dúndrandi hausinn. (Gripið fram í: Og stálið líka.) Og þar er enginn Byggðasjóður til þess að halda fyrirtækjum við, eins og við hv. 4. þm. Austurl. rákum með prýði einu sinni, til þess að hindra að arðbær fyrirtæki í Japan fari á hausinn. Þessi er ástæðan.

Menn hafa auðvitað lengi fundið til þess að tækniþróun, sölukostnaður o. s. frv. væri allhár hjá þessu fyrirtæki. Auðvitað er tækniþekkingin mjög mikilvæg. Ég vil geta þess að þetta er nýjasta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum. Hún hefur gengið með ágætum. Rétt er það að þær fréttir af rekstri fyrirtækis eru ógóðar sem eru eingöngu um að það hafi tapað alla sína tíð, en þó er það huggun harmi gegn að tæknilega hefur hún staðist fyllstu kröfur. Ég nenni nú ekki að fara í söguskoðun hér, en einhvern tíma var sagt: Sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Og ég man alveg hver stóð fyrir upphafi járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Það var 1971–72 undir forystu Alþb. Það kann vel að vera að Union-Carbide-menn séu miklu betri viðurskiptis og hugnanlegri Alþb.-mönnum heldur en Elkem í Noregi. Þeir báru ekki, Alþb.-menn, ábyrgð á samningunum við Elkem. En þeir báru ábyrgð á því að þeirra kæru vinir, eins og bréfaskriftirnar hljóðuðu upp á, Yours truly always, þeir voru með í þessum leik Union Carbide á sínum tíma og til allra ráðgerða um þetta mál var stofnað af hálfu Alþb. og Magnúsar heitins Kjartanssonar.

Ég var óánægður með samningana um Járnblendifélagið á sínum tíma. Sú óánægja mín orsakaðist af því, sem aðallega réð ferðinni og eftir stóð af hugmyndum Alþb., og það var að Íslendingar skyldu eiga meiri hluta í þessu fyrirtæki. Það var höfuðgallinn að mínum dómi. Og það er óbreytt skoðun mín enn í dag að á þessum markaði, þar sem stóriðjuframleiðslan er seld, munum við Íslendingar aldrei ráða neinu. Eins og menn þekkja, þá er sala afurðarinnar síðasta stig framleiðslunnar. Fyrir því er það að ég hef verið eindreginn andstæðingur þeirrar stefnu, sem hefur verið nefnd af hálfu Alþb. hin íslenska stefna, að Íslendingar ættu að eiga meiri hlutann í slíkum fyrirtækjum. Við eigum ekki að hætta slíku til og ég mun ýmislegt á mig leggja áður en slíkt verður gert, meðan ég fer með það starf sem nú gegni ég. Þetta vil ég taka fram, sem raunar er óþarft, af því sem menn vita um afstöðu mína og Sjálfstfl. til þessa atriðis. Honum varð það á 1974–78 að taka upp þessa stefnu Alþb., sem aldrei skyldi verið hafa. En hér hefur okkur sem sagt tekist að minni hyggju, enda mundi ég ekki leggja þetta annars til, að gerbreyta allri aðstöðu þessa mikilsverða fyrirtækis, sem veitir fjölmörgum mönnum atvinnu, sem aflar stórmikils gjaldeyris, sem getur og að minni hyggju verður mikil lyftistöng í atvinnusögu okkar. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað enda bendir allt til að þannig muni til takast.

Ég fer fram á það við hv. nefnd og hv. deild, að séð verði fyrir skjótum framgangi þessa máls, þar sem bráðabirgðasamkomulagið hljóðar á þann veg að menn skuli hafa lokið öllum heimildum og allri gagnasöfnun sem að lokasamningi lýtur fyrir 1. júní n. k.