25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (4285)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er um Ljósmæðraskóla Íslands og hefur hlotið afgreiðslu í Ed. með nokkrum breytingum þar. Bæði var gerð breyting við 3. gr. frv. og sömuleiðis á 4. gr. frv. Þetta frv. var samið af nefnd sem skipuð var í okt. 1980 af þáv. heilbr.- og trmrh. til þess að endurskoða lög um Ljósmæðraskóla Íslands. Hins vegar var þetta frv. ekki flutt, þó að nefndin hafi lokið störfum fyrir alllöngu, vegna þess að um það varð ekki samkomulag að þessi skóli, sem hefur starfað undir stjórn heilbr.- og trmrh., yrði starfræktur á vegum menntmrn. Varð það að samkomulagi á milli menntmrh. og heilbr.- og trmrh. að hann heyrði áfram undir sama rn. og því var þessi breyting gerð frá því sem nefndin lagði til, enda skiptir það ekki höfuðmáli.

Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að þetta frv. verði samþykkt á þessu þingi. Um það hefur verið fjallað í Ed. með þeim breytingum sem ég gat um.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.