25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4879 í B-deild Alþingistíðinda. (4299)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga sem er staðfesting á því frv. sem Alþingi samþykkti fyrir síðustu kosningar. Hér er um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins að ræða og þarf það staðfestingar við á nýkjörnu Alþingi.

Ég get haft um þetta mjög stutta ræðu því málið er vel kunnugt og hefur verið þaulrætt, en skal aðeins drepa á meginatriði.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að þm. verði fjölgað í 63 þjóðkjörna þingmenn og í sömu grein er ákveðið að 54 þeirra þingsæta skuli skipt á kjördæmin, þ. e. núverandi kjördæmi. Þau eru óbreytt, en með þessu ákvæði er fjölgað þeim þm. úr 49 í 54 sem skipt er á ákveðin kjördæmi. Þessi skipting er þannig að Reykjavíkurkjördæmi eru ætluð 14 þingsæti, Reykjaneskjördæmi 8, Vesturlandskjördæmi 5, Vestfjarðakjördæmi 5, Norðurlandskjördæmi v. 5, Norðurlandskjördæmi e. 6, Austurlandskjördæmi 5, Suðurlandskjördæmi 6.

Síðan segir í sömu grein að a. m. k. 8 þingsætum skuli ráðstafað til kjördæma fyrir hverjar kosningar samkv. ákvæðum f kosningalögum og loks í c-lið: „Heimilt er að ráðstafa einu þingsæti til kjördæmis að loknum hverjum kosningum samkv. ákvæðum í kosningalögum.“ Um þetta eina þingsæti gilda í því kosningalagafrv. sem liggur fyrir hinu háa Alþingi sérstök ákvæði sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér.

Í 2. gr. frv. er jafnframt ákveðið að kosningarrétt skuli allir hafa sem eru 18 ára eða eldri og er kosningaaldur þannig lækkaður. Sömuleiðis er ákvæði þar sem heimilað er að veita kosningarrétt íslenskum ríkisborgurum sem dvelja erlendis. Er sú heimild rýmkuð frá því sem nú er.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, er ekki ástæða fyrir mig til að hafa hér lengri framsögu og læt ég þetta nægja, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og þeirrar n. sem sérstaklega hefur verið kjörin til að fjalla um breytingu á stjórnarskrá og breytingu á kosningalögum.