07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

19. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til l. um breyt. á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Í þessu frv. er lagt til að meginbreytingin verði sú, að lágmarksverð á sjávarafla verði ákveðið í frjálsum samningum á milli fiskseljenda og fiskkaupenda í Verðlagsráðinu, en deilum sé ekki vísað til yfirnefndar og oddamanns frá Þjóðhagsstofnun eins og nú tíðkast. Með þessari breyt. telja flm. að samningsaðilar verði ábyrgari í samningsgerðinni og þeir geti ekki vísað vandanum af óraunhæfum samningum á ríkiskassann, eins og dæmi séu til um. Með þessari breytingu yrði horfið aftur að hinum upphaflega tilgangi laganna um Verðlagsráð sjávarútvegsins frá árinu 1961, þar sem segir að verðlag sjávarafla skuli ákveðið í frjálsum samningum hagsmunaaðila án íhlutunar ríkisvaldsins.

Öll erum við fylgjandi sem frjálsustum samningum í þessum efnum sem öðrum, en lítum nokkuð nánar á staðreyndir er við blasa í þessum efnum.

Fiskverðsákvarðanir gegna stærri hlutverki í þjóðarbúskap okkar en flest annað. Þær ráða ekki aðeins miklu um rekstrarskilyrði fiskveiða og fiskvinnslu, heldur ráða þær verulega þróun í launamálum sjómanna þar sem aflahlutur er svo veigamikill þáttur í launum þeirra. Fyrr á árum voru þessi verðlagsmál oft í miklu öngþveiti, og t.d. á sjötta áratugnum, eins og kom fram hjá flm., valt oft á ýmsu hvernig ferskur fiskur var verðlagður. Þá ríkti oft megn óánægja hjá sjómönnum með fiskverð og voru þá oft margþættir samningar í gangi, sem voru engum til góðs.

Árið 1960 voru teknir upp frjálsir samningar um fiskverð milli fiskseljenda og fiskkaupenda. Þessi tilhögun gafst ekki heldur vel, því á því ári var komið nærri vertíðarlokum, eins og kom fram að mig minnir í framsögu hv. flm., þegar samningarnir loksins tókust um fiskverð fyrir þá vertíð. Ekki er til bóta að taka upp slíka stefnu aftur.

Eftir þá reynslu sem menn höfðu fengið af hinum ýmsu erfiðleikum við verðlagningu og verðlagsákvarðanir á ferskum fiski var Verðlagsráð sjávarútvegsins sett á stofn 18. des. 1961. Þar tel ég hafa verið stigið rétt spor í rétta átt. Og þó að öllu megi finna sé ég ekki að annað kerfi bjóði upp á betri eða réttlátari möguleika í dag. Að sjálfsögðu fær þetta frv. rækilega umfjöllun í þingnefndum og leitað verður vafalaust umsagnar hagsmunaaðila, og ef fram koma í þeirri umræðu veigamiklir þættir, sem yrðu á einhvern hátt til bóta á núverandi kerfi, þá tel ég víst að allir verði sammála um að gera breytingar þar á.

En við skulum ekki gleyma því, að hjá okkur Íslendingum ríkir sérstaða í verðlagsmálum sjávarafurða. Hjá hinum stærri fiskveiðiþjóðum ríkir hinn frjálsi uppboðsmarkaður, sem byggir á nálægð stórra neytendamarkaða. en við hér á Íslandi verðum að taka mið af neytendamörkuðum erlendis fyrir unninn fisk. Þeim markaðssveiflum sem þar myndast erum við því miður háð. Þetta ástand gerir okkur alltaf erfiðara fyrir í öllum verðákvörðunum á ferskum fiski. Ég dreg því ég segi það aftur — mjög í efa að breyting á núverandi kerfi verði til bóta fyrir þá aðila sem þarna eiga hlut að máli, og sennilega yrði það hvað síst til bóta fyrir sjómenn og útgerðarmenn.

Virðulegi forseti, hv. þd. Nú þegar við ræðum hér hvernig best verði staðið að að verðleggja ferskan fisk upp úr sjó, þá berast okkur þau illu tíðindi síðustu daga að búast megi við verulegri aflaminnkun á Íslandsmiðum. Þetta eru váleg tíðindi og munu ef rétt eru snerta hvert einasta heimili í landinu. Nú þegar er brostið á atvinnuleysi h,já fjölda verkafólks sem unnið hefur að okkar aðalútflutningsframleiðslu. Þannig eru nú 150 atvinnulausir á Akranesi vegna lokunar á tveim af fjórum frystihúsum i bænum. Þetta skeður á meðan deilt er um hvernig fara skuli með skuldir eins togara, er þessi fyrirtæki eiga og var smíðaður innanlands fyrir nokkrum árum. Skuldir þessa skips, sem ég fullyrði að hefur verið vel rekið, hafa hrannast upp hjá opinberum sjóðum vegna óhóflegs fjármagnskostnaðar, verðtryggingar lána og gengisbreytinga þannig að eigendur hafa ekkert fengið við ráðið. Uppboðshamrinum hefur verið lyft og nú bíður verkafólk á Akranesi eftir því hvort hann verður látinn falla eða ekki. Verði hann felldur verður þar um varanlegt atvinnuleysi að ræða.

Þó ég minnist hér á Akranes er það því miður ekki eini staðurinn á landinu sem slíkt ástand vofir yfir. Það er því miður víðar. Þess vegna skora ég á hæstv. sjútvrh., sem ekki er hér viðstaddur, og hæstv. ríkisstj. að leita allra ráða til að leysa þessi mái sem allra fyrst. Það er engin lausn að fara að bjóða upp hluta af flotanum vegna vanskila í opinberum sjóðum og svipta þannig mörg hinna minni byggðarlaga undirstöðu atvinnuöryggis.