07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Hv. flm. ræddi um það hér áðan að hér væri um þá einu breytingu að ræða að samkv. frv. fengi fólk heimild til að stofna svokölluð vinnustaðafélög og spurði hvers vegna verkalýðsforustan væri á móti því að auka rétt fólksins. Ég tel nú að með þessu séu hlutirnir afskaplega einfaldaðir og ég vil ekki liggja undir því að ég eða svokölluð verkalýðsforusta vilji á nokkurn hátt þrengja rétt verkafólks. Það hefur aldrei komið til greina og að því munum við ekki stuðla.

Hitt er annað mál, að skipulagið sem við höfum valið okkur er það að samstaðan geti gert betur en sundrung og með samstöðu nái menn betri árangri. Það eru til bæði í Evrópu og Ameríku þess konar fyrirtækjafélög, svokölluð gul verkalýðsfélög, þar sem forstjórar fyrirtækjanna ráða meira og minna um það hvernig þessi verkalýðsfélög haga sér. Og þessi verkalýðsfélög eru notuð oft á tíðum til þess að keyra niður eða berja á verkalýðshreyfingunni sem slíkri, draga sig undan, huga bara að sínu og brjóta niður. Þetta er reynslan sem menn hafa fyrir sér, jafnvel úti í Danmörku, einkum í Ameríku. (Gripið fram í: Og er það mikið öðruvísi hér?) Já, sem betur fer er það öðruvísi. Hér eiga eigendur fyrirtækja ekki hlutabréf í verkalýðsfélögum sem betur fer. Það getur skapað stundargróða að hafa slík félög, svokölluð vinnustaðafélög, en þegar á heildina er litið og þegar litið er til framtíðarinnar þá held ég að það yrði til tjóns fyrir fólkið sjálft sem í þessum félögum er. Ég óttast það að yrði þessi regla tekin upp þá yrðu það grimmir sérhagsmunahópar sem gætu skarað eld að sinni köku, en hinir, sem minna mættu sín hvað samtakamátt snertir, yrðu út undan. Þessi breyting yrði til þess að fyrrnefndu aðilunum yrði gert mun auðveldara í kerfinu en áður.

Ástandið er þannig í dag að hinar ýmsu starfsgreinar, sem ekki eru innan ASÍ, mynda félög og ríða á vaðið til þess að skara eld að sinni köku. Það er ekki af hinu góða. Ég held að það væri hyggilegra að festa þetta í fastara skipulag heldur en að hver og einn hlaupi út undan sér, eins og því miður hefur gerst undir núverandi skipulagi. En ég vil taka það fram að skipulag ASÍ gildir ekki alls staðar. Það eru fleiri stéttasambönd til í landinu heldur en sú hreyfing. Sambönd eða félög sem mundu nýta sér þessa möguleika sem yrðu opnaðir upp á gátt með samþykki þessa frv.

Ég ætla ekki að ræða þetta mikið efnislega nú en ég vil taka það fram að það þarf að ræða þetta frv. vel í n. Ég tel að framlagning þess á sínum tíma hafi orðið til þess að vekja menn af Þyrnirósarsvefni hvað varðar skipulagsmál verkalýðssamtakanna, ég er sannfærður um það. En hvort sú leið sem hér er boðuð er rétt, það er aftur annað mál.