07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

49. mál, tollskrá o.fl.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa stuðningi við þetta frv. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að sú aðgerð sem það gerir ráð fyrir var réttlætanleg á sínum tíma og er það enn nú. Sá iðnaður sem risið hefur á þessum vettvangi hér á landi, þ.e. sem framleiðir hús og húshluta, hefur spjarað sig mjög vel og hefur sýnt að hann er fyllilega samkeppnisfær, en bjó hins vegar við óafsakanlegt misrétti í tollamálum.

Það er auðvitað rétt, sem hæstv. ráðh. hefur hér sagt, að ákjósanlegt væri ef hægt væri að finna aðrar leiðir en þetta jöfnunargjald. En eins og nú háttar held ég sé rétt að framlengja það og við Alþfl.-menn munum styðja það.