07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

55. mál, tollheimta og tolleftirlit

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur sést hér áður, eins og fram kemur í athugasemdum, og ég hygg að svo sé um flest þau atriði, sem þar er ráðgert að breyta, að um þau sé ekki verulegur ágreiningur og kannske enginn ágreiningur og samstaða raunar, svo sem er t.d. um fjölgun tollhafna, sem er að langmestu leyti viðurkenning á staðreyndum og nauðsyn þess vegna.

Það er aðeins eitt sem ég vildi vekja máls á í sambandi við þetta frv. og að gefnu tilefni. Ég skal þó ekki hefja langar umr. um það hér eða setja á umr. um það hér, því að mér gefst tækifæri til að fylgja þessu máli eftir í þeirri nefnd sem fær það til meðferðar.

Mér hefur verið á það bent, að þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir, einkum í 4. og 5. gr. frv., kunni hugsanlega að fela í sér nokkra slökun á tolleftirliti, einkum varðandi skip og skipakomur hingað til landsins, frá því sem verið hefur. Ef sú ábending, sem mér hefur borist frá aðilum sem til þekkja, er rétt, þá held ég að við séum á röngum brautum, m.a. með tilliti til þess að nú tvisvar sinnum með afar stuttu millibili hefur orðið uppvíst um verulegt fíkniefnasmygl með skipum til landsins með mjög stuttu millibili, tekið mikið magn af fíkniefnum, og ef þessar ábendingar til mín hafa við rök að styðjast, um að hér sé a.m.k. gefið tilefni til þess að unnt sé að slaka á, þá held ég að við séum á röngum brautum. Ég mun leggja það til í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, að þessi mál verði könnuð ítarlega og jafnframt að nefndarmenn fái upplýsingar um hverjar þær reglur eru sem upp verða teknar núna og eru breyting frá því sem áður hefur verið.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, orðlengja þetta frekar, en mun fylgja þessu eftir í hv. fjh.- og viðskn. vegna þess að ég tel að hér sé um afar mikilvægt mál að ræða að því er varðar tolleftirlit.