03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5169 í B-deild Alþingistíðinda. (4552)

25. mál, lántaka Áburðarverksmiðju ríkisins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni á marga vegu að öðru leyti en því, sem út af fyrir sig skiptir ekki meginmáli í þessu sambandi, er hann segir að erfiðleikar Áburðarverksmiðju ríkisins séu þáttur í hinu margumtalaða landbúnaðardæmi, eins og ég held að þm. hafi komist að orði. Ég vil vekja athygli á því að Áburðarverksmiðjan er ekki í tengslum við landbúnaðinn að öðru leyti en því að hún selur honum afurð sína. Þetta er eins og menn vita iðnaðarframleiðsla og landbúnaðurinn skiptir við þetta fyrirtæki.

Ég tek undir það sem hér kom fram að það er ómögulegt að hugsa sér annað en að farið verði ofan í þessi mál. Hér eru menn bundnir af því að skipta við Áburðarverksmiðju ríkisins. Það er enginn möguleiki á því að haga þeim viðskiptum með öðrum hætti og annað gengur að sjálfsögðu ekki. Þá á ég við að það er að sjálfsögðu vandalaust að fá ódýrari áburð en þennan með því að flytja hann inn, en það út af fyrir sig gengur ekki. Ég hygg að launagreiðslur hjá þessu fyrirtæki séu eitthvað í kringum 100 millj. kr. eða kannske meira. Menn sjá nú hvernig það færi ef sú atvinna brygðist.

Það er hins vegar alveg ljóst að rekstur Áburðarverksmiðjunnar hefur stórversnað á allra síðustu árum. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að það hefur orðið að hlaupa undir bagga í sambandi við áburðarverð áður. Það hefur að því er ég hygg tvívegis verið gert, árin 1975 og 1976, þegar olíuverðshækkunin var sem allra mest. Sú áburðarverðshækkun stóð ekki lengi og tók fyrst og fremst til innflutts áburðar og raunar innflutts hráefnis í þann áburð sem er framleiddur hér. En að öðru leyti hefur þetta ekki gengið fram sem niðurgreiðsla. Það sem hér kemur sérstaklega til er tvennt: að á síðustu árum hefur farið fram stækkun Áburðarverksmiðjunnar með erlendu lánsfé, og líka, eins og hér hefur komið fram, að allt rekstrarfé verksmiðjunnar er í erlendri mynt og nýtur ekki sömu kjara og t. d. Sementsverksmiðja ríkisins varðandi rekstrarlán. Og ég held að sé alveg útilokað annað en að taka það til sérstakrar athugunar.

Það liggur fyrir að verð á tilbúnum áburði hefur á síðustu árum hækkað meira en búvöruverðið í landinu. Það hefur því orðið til þess að færa búvöruverðið upp. En þrátt fyrir þessar aðgerðir, eins og kom fram hjá hv. þm., hefur þetta verð hvergi nærri dugað til að standa undir rekstri verksmiðjunnar núna síðustu árin. Hér er þess vegna um augljóst vandamál að ræða sem ekki verður komist hjá að horfast í augu við. Það verður að koma rekstrarvanda verksmiðjunnar þannig fyrir að hægt sé að framleiða þessa vöru með eðlilegu verðlagi. Mér skilst að núna t. d. standi verksmiðjan frammi fyrir því að hafa safnað skuldum í erlendri mynt fyrir rekstrarhalla þriggja síðustu ára, sem nemur 200–300 millj. kr., og munar sannarlega um minna.

Þetta ætla ég ekki að orðlengja frekar núna, en ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs er fyrst og fremst og einvörðungu sú, að það er augljóst að þessum málum verður að skipa til betri vegar. Þó að menn hafi komist fram úr þessum málum að þessu sinni, þá gengur það ekki með sama hætti til langframa.