03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5186 í B-deild Alþingistíðinda. (4574)

310. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil fyrst svara fsp. hv. 3. þm. Vesturl. Frv. til l. um skólakostnað verður nú í fyrsta lagi ekki lagt fram á þessu þingi. Í öðru lagi vil ég skýra frá því að nú nýlega hafa farið fram viðræður við forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga við skólakerfið. Þar hafa ýmis atriði komið til greina, en þetta atriði, sem hér er sérstaklega vikið að, er hluti af stærra máli sem verður að leysast í samhengi við kostnaðinn sem greiddur er á öðrum skólastigum. Það er mín skoðun persónulega að stefna beri að því að sveitarfélögin taki að sér stærri hlut í sambandi við grunnskólann en ríkið aftur á móti við framhaldsskólana. Ég tel að það leiði til gleggri verkaskiptingar og þá verði síður um að ræða þá mismunun milli skóla á sama skólastigi sem nú er fyrir hendi. En þessi mismunun sem óneitanlega er og hv. þm. minntist á, er í raun og veru leifar af því fyrirkomulagi sem var á greiðslu kostnaðar við iðnfræðsluna. Hún hefur á ýmsan veg sem og annað verknám farið inn í fjölbrautaskólana.

Að því er varðar fsp. hv. 11. þm. Reykv. um: í fyrsta lagi hvort stefnt yrði að því í áföngum að afnema þátttöku nemenda öldungadeilda í kennslulaunum, þá liggur það ekki fyrir nú að stefnt sé að því. Eins og nú árar sjáum við ekki raunhæfan möguleika á því að hægt sé að opna kerfið á þann veg að boðin sé ókeypis fræðsla fyrir alla þjóðina í skólakerfi landsins, ef svo má segja, eða fyrir hvaða aldur sem er. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að láta hina ungu kynslóð ganga fyrir að þessu leyti. Ástæðan er ekki síst sú, að ógerlegt yrði að gera áætlanir fyrirfram um kostnað í skólakerfinu, húsnæðisþörf, kennaraþörf og annað, ef við hefðum þennan hátt á. Hins vegar er auðveldara að sjá fyrir raunverulegan kostnað og átta sig á því hver hann verður þegar nemendurnir taka þátt í honum með þessum hætti. Enn fremur stendur í langflestum tilfellum þannig á að fólk á þessum aldri hefur haslað sér völl í lífinu, komið undir sig fótunum eins og sagt er, og stendur því ólíkt betur að vígi með að greiða sína skólavist eða velja sér námsferil á einhverju síðara stigi ævinnar heldur en þeir sem yngri eru og hafa ekki sjálfir unnið sér inn fé.

Síðan var spurt hvort ég hygðist haga því svo til í reglugerð að lagaheimildin yrði ekki notuð til fulls. Ég tel að ákvörðun í þá veru væri ekki skynsamleg, því lögin gefa svigrúm. Til þess er svigrúmið haft að það fjárhag og ég tel að það atriði verði að ráða. Meira máli skiptir að hafa námsvistarpláss fyrir fleiri, á þann veg sem unnt er þegar nemendurnir sjálfir greiða fræðsluna að nokkru eins og þarna er ráð fyrir gert. Aftur á móti kæmust færri að ef kennslan væri ókeypis eins og er fyrir aðra nemendur skólans.

Þetta vildi ég láta koma fram. Og ég vil undirstrika það að þessi starfsemi hefur verið rekin á þann veg allan þann tíma sem hún hefur verið við lýði að nemendur hafi greitt allt að þriðjungi kennslulauna og það hefur ekki hamlað því að vaxandi fjöldi fólks hefur sótt þessa fræðslu sér til gagns og þroska. Þar hefur ekki síst verið um mikilvæga starfsemi að ræða fyrir konur sem ekki hafa af einhverjum ástæðum átt þess kost að stunda nám á fyrri stigum ævi sinnar.

Ég þakka hv. menntmn. þessarar deildar fyrir greiða afgreiðslu á þessu máli og góða samstöðu um að ætla sér að koma því fram og hæstv. forseta fyrir að greiða fyrir afgreiðslu þess.