04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5350 í B-deild Alþingistíðinda. (4619)

310. mál, menntaskólar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. gerði ég athugasemd við það ákvæði frv. að nemendum í kvöldskóla skuli vera ætlað að standa undir allt að þriðjungi launakostnaðar við kennsluna. Benti ég þá á hversu óréttlátt það væri að nemendur á fullorðinsaldri byggju við aðrar aðstæður að þessu leyti en nemendur almennt hér á landi. Einnig benti ég á hversu mikið réttindamál fullorðinsfræðsla er fyrir allan almenning í landinu, einkum og sér í lagi konur sem almennt hafa töluvert minni menntun en karlar. Það kemur og fram í grg. með frv. að konur eru talsverður meiri hluti þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi úr öldungadeildum.

Við 2. umr. málsins innti ég hæstv. menntmrh. eftir því, hvert væri viðhorf hennar og stefna hvað þetta atriði varðar. Voru svör hennar á þá leið að ég sé fyllstu ástæðu til að vekja aftur máls á þessu atriði og flytja brtt. þar um.

Á því leikur enginn vafi að greiður aðgangur að fullorðinsfræðslu og endurmenntun er meðal brýnustu hagsmunamála íslenskra kvenna. Jafnrétti til náms hefur vissulega verið lögbundið hér á landi árum saman, en það er með þau lög eins og önnur jafnréttislög að þau hafa takmörkuð áhrif á meðan aðstæður þeirra, sem í hlut eiga, eru mismunandi og ekki síst á meðan viðhorf til hlutverka og starfa kvenna í íslensku samfélagi haldast að mestu leyti óbreytt í grundvallaratriðum.

Hversu oft höfum við ekki heyrt söguna um það að stúlka hafi lent í því, eins og sagt er, að verða barnshafandi og orðið að hætta í skóla af þeim ástæðum. Og hversu oft höfum við ekki einnig heyrt að það sé að vísu leiðinlegt, en ekkert tiltökumál, því hún er nú einu sinni kona og hlutverk hennar í lífinu sem móðir og eiginkona þurfi ekki að raskast þótt hún geti ekki haldið áfram námi. Það eru þessi viðhorf og þær aðstæður sem foreldrum og þá ekki síst mæðrum ungra barna eru búnar hér á landi sem gera það að verkum að tæpast er hægt að tala um jafnrétti til náms í reynd, þótt slíkt ákvæði hafi verið að finna í lögum um nokkra hríð.

Viðhorf og gildi breytast allajafnan ekki í einu vetfangi. Þau breytast hægt og það er einnig þungur róður með það, t. d. á þessu þingi, að fá svo mikið sem afgreidd hvað þá heldur samþykkt þau mál sem bæta mundu aðstæður kvenna og gera þeim kleift að standa meira jafnfætis körtum almennt en nú er. Það ber því brýna nauðsyn til að hvarvetna sé gripið niður í lagasetningu með þeim hætti að stuðla megi að raunverulega bættri stöðu kvenna, jafnrétti og jafnrar stöðu kvenna og karla hér á landi. Í þeim efnum er greiður aðgangur að fullorðinsfræðslu ákaflega mikilvægur fyrir konur, því aðeins þannig á mikill hluti íslenskra kvenna raunverulega möguleika á því að afla sér menntunar.

Mennt er máttur eins og allir vita og þarf ekki að orðlengja um þá hlið málsins, en einmitt vegna þess, að mennt er máttur, þá skiptir öllu að allir þegnar þjóðfélagsins hafi jafna aðstöðu til að mennta sig.

Það frv. sem hér er til umr. gerir ráð fyrir hinu gagnstæða. Það gerir ráð fyrir að ákveðinn hópur þeirra sem vilja afla sér menntunar, þ. e. fullorðnir einstaklingar, að meiri hluta konur, beri þar nokkurn kostnað af gagnstætt því sem annars tíðkast hér á landi. Þessu hlýt ég að mótmæla. Einnig hvað þetta varðar eiga konur sérstaklega undir högg að sækja, því eins og allir vita eru launakjör kvenna miklu lakari en karla og veit ég um nokkur dæmi þess að konur hafi ekki getað stundað nám í kvöldskóla af fjárhagsástæðum.

Ég spyr því hv. þdm.: Eru menn tilbúnir til að samþykkja lagasetningu sem felur í sér þá mismunun til menntunar sem það frv. sem hér er til umr. felur í sér? Til hvers eru menn að flytja hér hvert jafnréttisfrv. á fætur öðru ef þeir samþykkja síðan frv. eins og þetta, sem óbreytt felur í sér raunverulega mismunun karla og kvenna, frv. sem vinnur á móti því að raunverulega megi bæta hag kvenna, eins og það er orðað í jafnréttisfrv.?

Herra forseti. Það er margt fleira sem ræða má í sambandi við kostnaðarákvæði þessa frv., m. a. hvernig öldungadeildir voru upphaflega hugsaðar og skipulagðar í þessu tilliti og eins hvernig kostnaður nemenda kemur þyngra niður á þeim sem í dreifbýli búa, þar sem nemendur eru þar yfirleitt færri f hverjum námsáfanga en í þéttbýli. Ég ætla þó ekki að hafa hér um fleiri orð að sinni, en flyt brtt. við þetta frv. á þskj. 756 sem hljóðar upp á að nám í öldungadeildum og á námskeiðum fullorðinsfræðslu skuli vera nemendum að kostnaðarlausu.