04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5356 í B-deild Alþingistíðinda. (4624)

310. mál, menntaskólar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa fallið mörg orð um þessa litlu till. sem er kannske ekki svo lítil. Ef ég rek mig nú eftir þessum orðum, þá byrjaði hv. þm. Davíð Aðalsteinsson á því að benda á að greinin í frv. hljóðaði upp á „allt að“ þriðjung kostnaðar og benti á að það mætti kannske vera lægra. Þetta var ég búin að sjá líka og spurði þess vegna hæstv. menntmrh. að því í gær hvort hún hefði hug á því að hafa þetta eitthvað lægra en þriðjung. Það er greinilegt að hv. þm. hefur ekki heyrt hennar svör. Þau voru neikvæð. Þess vegna er brtt. endanlega flutt hér við 3. umr.

Hv. þm. Ragnar Arnalds taldi að sjálfsagt og að mörgu leyti nauðsynlegt væri að hafa einhvers konar gjöld í kvöldskóla til þess að ekki kæmist los á kennsluna, ekki kæmist los á nemendur í kvöldskólum. Má vel vera að það sé ágætis hugmynd, en innritunargjald er allt annar hlutur en að greiða þriðjung af launakostnaði við kennsluna. Ég get út af fyrir sig mjög vel fallist á að eitthvert innritunargjald sé í kvöldskóla, t. d. sambærilegt við það sem er í Háskóla Íslands, ef það verður til þess að menn taki ákveðnari ákvarðanir, ef svo má segja, um að fara að stunda fullorðinsnám en ella væri.

Eins benti hv. þm. Ragnar Arnalds á að vel gæti komið til greina að hægt væri að styðja við bakið á fullorðnu fólki, sem vill mennta sig, með því að veita því aðild að Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er sennilega ágætisleið en er þó varla til að einfalda málið ef það er hugsað til þess eins að vega upp á móti kennslukostnaði nemenda. Þá erum við eingöngu komin með tilfærslur á hinum ýmsu sviðum ríkisreikninga.

Síðan kom hér upp hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason og var mikið niðri fyrir. Hann taldi að málið hefði ekki verið hugsað til hlítar af mér. Því mótmæli ég hér með eindregið. Rökin sem hann færði fyrir því voru þau að fólk í vinnu hefði laun og gæti þess vegna greitt eitthvað fyrir kennsluna. Mig rekur minni til þess, ég ætla að það séu tveir mánuðir síðan, að hv. þm. kom hér í ræðustól með launaseðil konu, sem hafði ósköp venjuleg kvennalaun, og yfirheyrði hæstv. fjmrh. um það hvernig þessi kona ætti að lifa af þessum launum. Nú spyr ég hv. þm. Eið Guðnason: Hvernig á þessi kona líka að borga kennslukostnað af þessum launum ef hún skyldi vilja mennta sig? Svari þm. því ef hann getur.

Ég hirði ekki um að svara útúrsnúningi þm. um hæfileika til náms, við slíkt elti ég ekki ólar, en þm. var mikið niðri fyrir út af málflutningi Kvennalistakvenna sem alltaf töluðu um jafnréttismál sama hvað væri til umr. Þá vil ég spyrja hv. þm.: Veit hann ekki á hvaða forsendum þm. Kvennalistans eru komnir til þings? Það væri óskandi héðan í frá.

Eins endaði þm. mál sitt á því að tala um að Kvennalistakonur misskildu ætíð öll jafnréttismál. Þetta er röksemdafærsla sem við konur erum búnar að heyra alla tíð og þess vegna erum við einmitt á þing komnar og munum halda áfram að vera hér á meðan slík sjónarmið heyrast á Alþingi Íslendinga.