07.05.1984
Efri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5419 í B-deild Alþingistíðinda. (4694)

70. mál, tóbaksvarnir

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu vera fá orð, aðallega til að lýsa yfir stuðningi við þetta fram komna frv.

Í sjálfu sér kom mér ekkert á óvart þegar ég sá að hæstv. viðskrh. fór að mæla fyrir frv., vegna þess að svo mjög spila viðskiptahagsmunir hér inn í hjá ýmsum þeim aðilum sem reynst hafa þyngstir í vöfum og þyngstir í skauti þeim stjórnvöldum sem hafa viljað sporna hér við. En það er kannske mál sem við getum rætt frekar síðar. En staðreyndin er sú að þeir, sem annast sölu og dreifingu tóbaksvara, eru einmitt þeir viðskiptaaðilar sem hafa helst reynt að setja fótinn fyrir allar fyrirbyggjandi aðgerðir í þessum efnum þar sem stjórnvöld hafa reynt að taka á með skipulegum hætti.

Ég þarf ekki að segja mikið um fylgi mitt við þetta frv. Ég segi það t. d. að mér hefði fundist það ofur eðlilegt með tilliti til þeirrar miklu þýðingar sem þetta mál hefur og þess mikla starfs sem vissulega þarf að vinna í þágu tóbaksvarna að hærra hlutfalli af brúttósölu tóbaks væri varið til þessa verkefnis.

Við erum með annað mál hér á dagskránni sem snerti þetta einnig, þ. e. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og ég get þá sparað mér að koma hér upp í sambandi við það mál alveg sérstaklega með því að segja nú að það væri sannarlega ástæða til að láta ákveðinn skatt af tóbaksvörum standa undir þeirri starfsemi sem fram fer á vegum Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa víða um landið. Það væri skattlagning sem ég hygg að flestir, hvort sem þeir neyta þessarar vöru eða ekki, mundu fyllilega sætta sig við að á væri lögð.

Um fræðsluþáttinn þarf ekki að hafa mörg orð. Þar veitir ekki af að taka betur á. Á síðasta þingi, minnir mig, eða þinginu þar áður var samþykkt alveg sérstök till. um aukna áherslu í fíkniefnafræðslu almennt í skólum og ég tel tóbaksvörur þar undir tvímælalaust. Ég vænti þess að þar sé einhver skriður kominn á frekari en var löngum í því efni. Þegar ég fékkst við kennslu á árum áður varð maður að láta brjóstvitið að mestu nægja í þeim efnum til að reyna að vara fólk við skaðsemi og óhollustu þess arna, en fátt var um fræðsluefni sem væri þannig sett fram að viðkomandi tækju eitthvert mark á því. Venjulega er á því efni sem sett er fram á hlutlausan hátt og af sérfróðum aðilum alveg sérstaklega meira mark tekið en þeim sem eru stöðugt að prédika fyrir börnunum slíkt og annað álíka í skólunum.

Ég ætla ekki að hafa nein frekari orð um þetta, en bendi á að við erum það heppin, segi ég, að þessi viðskiptasambönd spila kannske ekki alveg eins mikið hér inn í og víða annars staðar þar sem hin óhefta samkeppni fær að ráða varðandi sölu á tóbaki og tóbaksvörum, en þó fer ekki milli mála að umboðsmenn fyrir þessar vörur hér á landi eru býsna drjúgir í áróðri sínum og koma honum víðar að en nokkurn grunar. Það væri a. m. k. eitt af því góða, sem gæti út úr þessu frv. komið og samþykkt þess ef þar væri hægt að stemma þarna að einhverju leyti stigu við.