07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5446 í B-deild Alþingistíðinda. (4729)

310. mál, menntaskólar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi svaraði hæstv. menntmrh. fsp. sem ég hygg að hv. 2. landsk. þm. hafi borið fram varðandi fullorðinnafræðslu, hvers væri að vænta í þeim efnum. Við þá umr. kom það fram hjá hæstv. ráðh. að ekki væri stefnt að því af hálfu ráðuneytisins að undirbúa — ekki fyrir þetta þing og ef ég hef skilið það rétt — væri það ekki á döfinni eins og er í ráðuneyti menntamála að undirbúa löggjöf varðandi fullorðinnafræðslu almennt. Hæstv. ráðh. gat þá um að til stæði að leggja hér fyrir frv. sem snerti hinar svokölluðu öldungadeildir, og það er það mál sem við erum hér að fjalla um.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem hæstv. ráðh. hefur lagt til að fái þessi frv. til meðferðar og hef þar með aðstöðu til að skoða þessi mál þar, en ég vil strax geta þess að mér finnst sú hugsun að lögbjóða kostnaðarskiptingu með þeim hætti sem er í þessum frv. orka mjög tvímælis, svo ekki sé meira sagt.

Vegna þess að hæstv. ráðh. spurði hvar þm. sæju uppsprettu fjár til að standa undir kostnaði eins og launakostnaði vegna fullorðinnafræðslu, þá held ég að það þurfi ekki að standa á okkur þm. að vísa á möguleika í sambandi við þau efni. Það er nú ýmis óráðsían hjá hæstv. núv. ríkisstj. í sambandi við fjármál sem ætti að gera okkur auðvelt að veita svör þar að lútandi, og einkennilegt að það skuli koma frá fagráðh. þessara mála að fara að bera fram slík sjónarmið þó að auðvitað vitum við að það er fjármögnunarramminn sem ræður úrslitum þegar til kastanna kemur. En ég mun um þetta fjalla í nefnd og gefa þá þessu atriði sérstakan gaum.

Það er hins vegar skoðun mín að full ástæða sé til þess, og raunar brýnt, að móta rammalög um fullorðinnafræðslu almennt, og þá út frá því hugarfari að gera sem flestum auðvelt að leita sér viðbótarfræðslu og það án þess að það sé íþyngjandi kostnaðarlega með beinum útgjöldum fyrir viðkomandi. Það alveg sérstaklega varðandi þá þætti þar sem hið almenna skólakerfi getur komið við sögu með aðstoð.