07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5452 í B-deild Alþingistíðinda. (4746)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nál. sjútvn. um frv. til laga um ríkismat sjávarafurða. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. hér og nú, mjög ítarleg umr. fór fram um það hér í vetur þegar hæstv. sjútvrh. mælti fyrir því í þessari deild. Það er hins vegar öllum ljóst, sem um þessi mál hugsa, að hér varð að verða á breyting, ekki aðeins breytinganna vegna heldur til að bæta og ég á von á að mönnum hafi tekist það allsæmilega. Mjög mikil vinna hinna ágætustu manna hefur verið lögð fram við þessa lagasmíði allt frá árinu 1979. Málið hefur verið mjög ítarlega rætt og skoðað og fengið mikla umfjöllun, m. a. á fundum með hagsmunaaðilum í sjávarútveginum. Virðulegi forseti. Í nál. segir:

„Sjútvn. er sammála um að mæla með samþykkt frv. með breytingum sem hún flytur tillögur um á sérstöku þskj. Jafnframt fellur meiri hl. n. frá nál. á þskj. 662 og afturkallar brtt. á þskj. 663.

Frv. barst sjútvn. 28. nóvember s. l. Málið var síðan sent til umsagnar 8. des. Alls bárust 16 umsagnir um frv. og hefur n. fjallað um það á níu fundum.

Á fundi n. komu einnig aðilar er þetta mál snertir og skýrðu sjónarmið sín varðandi frv. og gáfu ýmsar upplýsingar.

N. tekur fram að nauðsynlegt sé að bæði fulltrúar kaupenda og seljenda séu í hópi þeirra er ráðh. skipar frá hagsmunasamtökum sjávarútvegsins í fiskmatsráð.

Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.“

Undir þetta nál. rita allir nm. í sjútvn.: Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Guðmundur Einarsson, Gunnar G. Schram, Halldór Blöndal, Friðrik Sophusson og Ingvar Gíslason.

Ég vil þakka nm. góða samvinnu í þessu máli og skilning á nauðsyn þess að þetta mál nái fram að ganga áður en þinginu lýkur í vor.