08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5505 í B-deild Alþingistíðinda. (4766)

442. mál, Suðurlína

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Á þessu ári á endanlega að ljúka Suðurlínu og þar með hringtengingu rafmagns um land allt. Lagning byggðalínanna er stórt spor til þess að skapa grundvöll fyrir jöfnun orkuverðs í landinu öllu, sem er forsenda þess að hinar breiðu byggðir geti verið með í alhliða uppbyggingu þróaðs atvinnulífs og jafnframt að búsetuskilyrði séu sem jöfnust. Það er ljóst að lagning byggðalínukerfisins hefur verið geysilega kostnaðarsöm miðað við nýtingu fyrstu árin og þess vegna nauðsynlegt að gæta fyllstu hagsýni í sambandi við alla ákvarðanatöku, áætlanir, útboð, vinnu og eftirlit.

Fsp. þær sem ég flyt á þskj. 567 eru bornar fram til þess að fá fram staðreyndir mála um hvernig staðið hefur verið að þessum hluta framkvæmda byggðalínanna. Iðnrh. ætlar að vera svo vinsamlegur að svara viðbótarspurningu, sem ekki er á þskj., varðandi aðveitustöð á Prestsbakka, hvort hún verði byggð í sumar í tengslum við þessar framkvæmdir eins og alltaf hefur verið miðað við. Það er stórmál fyrir íbúa Vestur-Skaftafellssýslu að svo verði. Flutningsgeta línanna frá Hvolsvelli til Vestur-Skaftafellssýslu er takmörkuð og línurnar í sýslunni eru veikar. Það er því mikið öryggismál fyrir sýslubúa að geta einnig fengið rafmagnið austan frá um suðurlínu.

Spurningar mínar á þskj. 567 eru svohljóðandi:

1. Hver er nú kostnaður við lagningu Suðurlínu frá Höfn í Hornafirði og vestur um?

2. Hvert var tilboðsverð einstakra verkþátta við lagningu hennar?

3. Hvert var endanlegt verð þegar uppgjör fór fram?

4. Hver var hönnunar- og eftirlitskostnaður við hvern einstakan verkþátt?

5. Hver er kostnaður við að ljúka línunni að fullu? Og til viðbótar:

6. Verður aðveitustöð á Prestsbakka byggð í sumar?