08.05.1984
Sameinað þing: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5517 í B-deild Alþingistíðinda. (4778)

445. mál, arðgreiðslur til hluthafa Flugleiða hf.

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir greinargóð svör og átti ég reyndar ekki von á öðru. Svörin við fyrstu þremur liðum þessarar spurningar eru aðeins upplýsandi svör til þess að mála mynd af því dæmi sem þarna er um að ræða. Niðurstaða þess er sú að á meðan ríkið greiðir og skuldbindur sig fyrir Flugleiða hönd fyrir upphæð allt að 160 millj. ísl. kr. greiða Flugleiðir ríkinu aftur tæplega 3 millj. kr. í arð. Síðan svarar hæstv. fjmrh., eins og ég reyndar átti von á, að hann telji það ekki réttlætanlegt að fyrirtæki í taprekstri greiði hluthöfum sínum arð. Því er síðan svarað líka að fjmrn. eða ríkissjóður hafi nýtt sér þessar arðgreiðslur á undanförnum árum, þ. e. þær virðast ekki hafa verið nýttar á fyrsta ári en síðan á árunum 1982 og 1983, 1982 ekki alveg að fullu en 1983 algerlega að fullu og þá til þess að greiða ferðakostnað í sambandi við ríkisspítala. Það kemur reyndar ekki alveg greinilega fram í ferðakostnað hverra og hvert en það er kannske hægt að fá þær upplýsingar ef nánar er að gáð.

Síðan kemur að spurningunni um það hvort hér sé um ólöglegan verknað að ræða. Að vísu hefur þetta mál ekki verið skoðað til hlítar að því er svör fjmrh. gefa til kynna en þó virðist mönnum sýnast það sama sem fyrirspyrjanda sýndist þegar hann fór að skoða þessi mál nánar að hér sé að öllum líkindum á ferðinni ólöglegt athæfi. Reyndar er þá ríkissjóður eða handhafi hans orðinn meðsekur í þessu ólöglega athæfi. Þá er kannske spurning hvort það er ráðlegt fyrir ríkissjóð að grípa til einhverra ráðstafana, gera eitthvað í þessu máli frekar en eiga hugsanlega von á því að fá á sig kæru sem meðsekur aðill í ólöglegu atferli og standa í þeim málaferlum sem þær hugsanlega leiddu af sér. Í sjálfu sér er ekkert við þær arðgreiðslur að athuga sem núna hafa átt sér stað því að fyrirtækið sýnir að því er tölur segja hagnað. Við því er ekkert annað að segja en að maður fagnar því ástandi og þeirri breytingu og vonar að hún haldist sem lengst þannig að ekki komi til þess að ríkið þurfi að grípa til stuðnings við þetta fyrirtæki. Vil ég þar með nota tækifærið til að hvetja hæstv. fjmrh. til að láta ekki undan í því máli að gefa Flugleiðum afslátt af lendingargjöldum á Keflavíkurflugvelli.