08.05.1984
Sameinað þing: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5537 í B-deild Alþingistíðinda. (4793)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefur sennilega ekki heyrt þann kafla ræðu minnar hér áðan sem fjallaði um nauðsyn þess að ná íslensku efnahagslífi upp úr núverandi einhæfni þess og þá kosti sem ég nefndi í því sambandi. Með tilliti til óska forseta um stuttar ræður nú vísa ég hv. þm. á Alþingistíðindi og sé ekki ástæðu til að endurtaka ræðu mína. Þar getur hann í ró og næði lesið um þá kosti sem ég nefndi og nauðsyn þess, sem ég talaði um, að við reynum að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs. Um það getum við verið hjartanlega sammála.

Hv. þm. talaði fagurlega um allt okkar mikla vatnsafl, og sannarlega erum við Íslendingar rík þjóð að eiga alla þessa fossa. En það kostar dálítið að virkja vatnsaflið og þess vegna skiptir öllu máli hvernig við höldum þar á fjárfestingarmálum og gerum ekki þau mistök sem við höfum áður gert í þeim efnum. Um það fjallaði ræða mín og eins og ég sagði sé ég ekki ástæðu til að endurtaka hana.

Þm. taldi óvíst að framsæknar iðnaðarþjóðir séu að stugga orkufrekum iðnaði frá sér og nefndi í því sambandi hátt orkuverð í Japan, Bandaríkjunum og Evrópu. Sannarlega er orkuverðið hátt í þessum löndum. Mér skilst að orkuverð í Japan sé t. d. um 60 mill á hverja kwst. af raforku. En hefur það aldrei hvarflað að hv. formanni stóriðjunefndar að það kunni að vera ákveðin pólitík af hálfu þessara þjóða að hafa orkuverðið svona hátt svo þær geti óhindrað samið um flutning á stóriðju úr sínum löndum til annarra landa? Það langar mig til að biðja hv. þm. að skoða sem möguleika.

Þm. taldi að það gæti skaðað hagsmuni Íslands í þeim samningaviðræðum sem fyrir hendi eru ef opinberlega væri greint frá því við hverja er verið að semja. Ég geri ráð fyrir að þm. leggi þar á sitt mat, en vildi gjarnan fá að vita, og þá fara með sem trúnaðarmál, við hvaða aðila þarna er verið að ræða.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. hæstv. iðnrh., talaði um það hérna áðan að kísilmálmverksmiðjan á Reyðarfirði og járnblendiverksmiðjan á Grundartanga væru ekki sambærileg fyrirtæki. Það er ekki ýkja langt síðan hv. núv. iðnrh. og hv. þm. voru ekki á sama máli um að svo væri. Ég læt hæstv. núv. iðnrh. og fyrrv. hæstv. iðnrh. eftir að deila um það, nema ef vera kynni að hæstv. núv. iðnrh. sé búinn að skipta um skoðun í því efni.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að eftir því sem hann hefði skilið hæstv. iðnrh. ætti orkuverðið að standa undir framleiðslukostnaði. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það er ekki mjög viturleg ráðstöfun að selja orku til fyrirtækja undir framleiðslukostnaði. Ég vildi óska að þetta væri rétt, þar sem allar líkur eru á að þetta mál fari í gegnum þingið þótt Kvennalistaþingkonur greiði atkv. gegn því. En eftir því sem stendur á bls. 1 í grg. með þáltill. er því miður ekki svo ljóst að svo muni verða því að eins og ég sagði áðan stendur þar: „Verð á raforku til kísilmálmvinnslunnar skal vera sambærilegt og til hliðstæðra fyrirtækja.“ Ég hlýt að álíta svo — þetta er nú mjög stutt — að hér sé átt við hliðstæð fyrirtæki hér á landi og við vitum að þar er raforkan seld undir framleiðslukostnaði.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi að ég væri þeirrar skoðunar að í þessum málum væri annaðhvort eða, annaðhvort að láta útlendinga hirða þetta allt saman eða þá ekkert, engin stóriðja. Nú þykir mér sem hv. þm. sé farinn að heyra mjög illa, og er hann annars ekki vanur að heyra illa, þannig að e. t. v. hef ég stutt á viðkvæman blett á hv. þm. En því miður er ekki hægt að snúa út úr þessu. Afstaða mín er skýr og einföld. Ég vil enga frekari stóriðju hér á landi og alls engin — ég endurtek: alls engin ítök erlendra aðila í íslensku efnahagslífi frekar en orðið er, sem ég harma. Ég hef fulla trú á því að Íslendingar ráði við orkunýtingu hér, en ekki á sviði stóriðju eins og reynslan sýnir. Stóriðja er þar að auki óarðbær og úreltur atvinnukostur, eins og ég nefndi. Það má segja að stóriðja var hugmynd gærdagsins. Nú er kominn nýr tími og nýr dagur risinn. Og það er kominn tími til að þm. átti sig á því að þessi nýi dagur er risinn í iðnaðarmálum — ekki Íslands enn, heldur heimsins.