08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

53. mál, starfsemi endurhæfingarráðs

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 56 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. félmrh.:

„Hvað hyggst félmrn. gera, þegar lög um fatlaða taka gildi, varðandi þá starfsemi er nú fer fram á vegum endurhæfingarráðs?"

Spurt er vegna þess að samkv. nýjum lögum um fatlaða, sem gildi taka um áramót, lætur endurhæfingarráð af störfum og stjórnarnefnd um málefni fatlaðra tekur við starfi því sem þar hefur verið innt af hendi.

Á vegum endurhæfingarráðs hefur um langt skeið verið starfrækt skrifstofa sem sinnt hefur ýmsum verkefnum fyrir fatlaða. Þau verkefni hafa aðallega lotið að atvinnumálum, atvinnuleit og ráðgjöf ýmiss konar, bæði félagslegri og læknisfræðilegri. Þessi starfsemi hefur verið mörgum mikils virði og er óhætt að segja að þar hafi margir fengið farsæla úrlausn sinna mála eða mikilvæga aðstoð á ýmsan hátt, þótt eflaust hafi enn betur mátt gera. Starfsfólk skrifstofunnar er með reynslu og þekkingu á þessu sviði, en mér er tjáð að nokkur óvissa hafi ríkt og ríki um framhaldsstörf þess.

Það er ljóst að ný stjórnarnefnd verður að leggja mikla áherslu á starf hliðstætt því sem á skrifstofu endurhæfingarráðs hefur verið unnið og raunar í enn ríkari mæli eftir að komin eru inn í lög skýrari og ákveðnari ákvæði um atvinnumiðlun og ráðgjafaþjónustu alveg sérstaklega til fatlaðra.