08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

395. mál, staðgreiðslukerfi skatta

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér þykir rétt að vekja athygli á því að það var á stefnuskrá fráfarandi stjórnar, stjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, að komið yrði á staðgreiðslukerfi skatta. Ég var þeirrar skoðunar meðan ég starfaði í fjmrn. að mjög brýnt væri að koma á samtímasköttun og það gilti jafnt um hagsmuni ríkisvaldsins og hagsmuni almennings, það væri sem sagt mikil bót til hins betra að koma slíku skipulagi á. Þess vegna stóð fráfarandi stjórn fyrir flutningi frv. um þetta efni hér í þinginu fyrir tveimur árum, haustið 1981, og lagði talsverða áherslu á að frv. yrði afgreitt á þeim vetri, en frv. dagaði uppi hér í þinginu. Ég lét í ljós óánægju mína með að svo skyldi fara og kallaði sérstaklega saman fulltrúa frá öllum þingflokkum til viðræðna í rn. til að freista þess að skapa samstöðu um að málinu yrði komið fram, hugsanlega þá í eitthvað breyttu formi ef menn vildu það frekar, enda höfðu komið fram raddir um að frv. sem lagt var fram haustið 1981 hefði ekki verið gallalaust og er það nú raunar sjaldnast að frumvörp sem lögð eru fram séu gallalaus og oft þörf á að færa þau til eitthvað betri vegar. En því miður virtist vera takmarkaður áhugi fyrir því hjá talsmönnum þingflokkanna að koma þessu máli fram. Ég lýsti þá yfir óánægju minni með það og ég lýsi enn yfir óánægju minni með þann litla vilja og þann litla skilning sem virðist vera á þessu máli. Ég hefði kosið að heyra þau svör nú, þegar spurst er fyrir um þetta mál, að til stæði að flytja frv. um það efni. Ég er sannfærður um að þegar miklar tekjusveiflur verða í þjóðfélaginu, eins og við erum t.d. nú vitni að, er það stórkostlegur hagur fyrir launafólkið í landinu að búa við samtímasköttun. Raunar gildir nákvæmlega það sama um ríkisvaldið, að það er mikill hagur fyrir það að koma slíku kerfi á. Ég verð því að láta mér nægja að ljúka þessum fáu orðum mínum hér með því að skora á hæstv. fjmrh. og á hæstv. ríkisstj. að taka til athugunar hvort ekki sé rétt að stefna að því að koma hér á staðgreiðslukerfi skatta.