10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5677 í B-deild Alþingistíðinda. (4988)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson (frh.):

Herra forseti. Ég hafði vikið að því nokkrum orðum í minni ræðu hvað það er orðið áberandi að fréttamenn og starfsmenn fjölmiðla eru farnir að líta á Alþingi sem löggjafarstofnun á þann hátt einan að það eigi að afgreiða mál án þess að skoða þau, frv. eigi að vinnast úti í bæ, það eigi að flytja þau hér á þinginu og svo eigi þau að fara sem hraðast í gegnum þingið. Þessi kenning, sem virðist tröllríða íslensku þjóðfélagi í dag, gerir það að verkum að þær síur, sem eru í þinginu og er ætlað það hlutverk að vinna að því að mál fái þar eðlilega meðferð, þ. e. nefndirnar, verða stöðugt veikari og veikari í allri málsmeðferð. Það má segja sem svo, að það er að verða algengara að mál séu afgreidd í hliðarsölum, stigaherbergjum og nánast á hlaupum í nefndastörfum í staðinn fyrir að menn gefi sér tíma til að vinna að þeim með eðlilegum hætti. Ég hygg að þeir sem stóðu að samningu þessa frv. hafi einnig gleymt því, að þó að Alþingi eigi vissulega að fara yfir mál og vinna að framgangi þeirra veltur á miklu að þau séu vel undirbúin.

Það kom fram hér í ræðu minni í upphafi að þau mistök hafa orðið að heill kaupstaður hefur orðið út undan. Nú má vel vera að menn telji að um þetta gildi það sama og ef kaupstaðurinn hefði nú verið inni sem sveitarfélag og það hefði orðið breyting og hann hefði fengið kaupstaðarréttindi. Svo er þó ekki vegna þess að þar með var honum ákveðinn staður innan kjördæmisins og við slíka breytingu fylgir hann að sjálfsögðu kjördæminu. Hér hafa þeir aftur á móti lagt það til að eftir að kaupstaðurinn varð til skuli hann vera hafður fyrir utan. Að sjálfsögðu mun koma fram brtt. á Alþingi um að kaupstaðurinn verði settur inn í Vesturlandskjördæmi. Slík brtt. hefur það aftur á móti í för með sér að verði hún samþykkt hefur verið framkvæmd stjórnarskrárbreyting og það verður að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Verði hún aftur á móti ekki samþykkt hefur Alþingi tekið ákvörðun um að Ólafsvík skuli ekki vera í neinu kjördæmi á Íslandi. Svo einfalt er þetta mál.

Ég vænti þess að forsrh. hugleiði það nú í fullri alvöru hvort ekki væri skynsamlegast miðað við aðstæður að fela þetta mál þeirri stjórnarskrárnefnd sem starfandi er í landinu undir forsæti 1. þm. Vestf. og að sögn vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hún gæti þá undirbúið þetta mál með eðlilegum hætti, tekið á því aðalatriði nýrrar stjórnarskrár að eigi að veita hinum dreifðu byggðum aukið sjálfsforræði er það hreinn skrípaleikur, miðað við stöðu sveitarfélaga í þessu landi, að tala um að ætla að veita hinum einstöku sveitarfélögum aukið sjálfsforræði. Halda menn að þeir leysi málin með því að veita sveitarfélögum 100, 200, 300, 400 eða 500 manna aukið sjálfsforræði? Það leysir engin mál varðandi þetta. Það sem leysir raunverulega stöðu þessara mála væri það, eins og hefur komið fram fyrr í ræðu minni, ef landinu yrði skipt upp í nægilega stór svæði til að þau gætu staðið að eðlilegri sjálfsstjórn. Og það hlýtur að vera réttlætismál, á sama tíma og mesta þéttbýli þjóðarinnar sækir það svo fast að fá meirihlutavald hér á Alþingi Íslendinga, að þannig verði að málum staðið að hinar dreifðu byggðir fái það sjálfstæði sem þeim er vissulega nauðsyn á'að fá til þess að þar eflist byggð.

Ég hef spurt að því áður og spyr að því enn hvort mönnum liggi virkilega svo mikið á að afgreiða þessi mál, hvort þau loforð sem gefin voru á sínum tíma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens að afgreiða bæri stjórnarskrána í heild séu það miklu ómerkari en þau sem gefin hafa verið síðar að ekki sé eðlilegt að við þau verði staðið. Það liggur ljóst fyrir að af hálfu Framsfl. gaf sami maðurinn þau loforð í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens og gaf þau loforð að standa bæri við samkomulag fjórmenninganna. Spurningin er aðeins: Hvorn eiðinn ætla menn að svíkja í þessu sambandi? Ætla menn að standa að hinni upprunalegu tillögu að endurskoða beri stjórnarskrána í heild eða ætla menn að halda áfram með það skrípaverk sem hér hefur verið sett á svið að tölvusérfræðingar hafa verið látnir útdeila þingsætum á milli flokka eftir ýmsum aðferðum, þannig að þm. eru almennt komnir með stóran bunka af upplýsingum um hver væri inni og hver væri úti eftir hinum ýmsu reikniaðferðum, með þröskuldum, með afgangi, með tilfærslum, með hlaupamanni og ýmsum fleiri útlistunum?

Hitt verður svo dálítið erfitt til útskýringar, ef menn ætla virkilega að hafa tvenns konar leikreglur á því í framtíðinni hvernig beri að telja atkv. í kosningum. Í sveitarstjórnum á að fara eftir d'Hondt-reglu, í alþingiskosningum eftir þeirri kenningu að afgangsreglan eða meðaltalsreglan sé hin eina rétta. Og ég gæti trúað því að það mundi um síðir vefjast fyrir mönnum að útskýra hverjar séu forsendur fyrir því að það hafi verið hægt allt frá 1904 að nota d'Hondt-regluna, hinn eðlilega hlutfallareikning sem kenndur hefur verið í skólum þessa lands allan þennan tíma, til að leysa þetta mál jafnt í sveitarstjórnum, til Alþingis, til stjórna í félögum, en allt í einu sé reiknireglan orðin röng og það þurfi að taka upp aðra reglu sem gildi aðeins þegar alþingiskosningar eigi sér stað. Mér finnst að rökræn hugsun hafi verið látin víkja, en menn hafi sest við spilaborð, fjórir menn stokkað spilin og sagt: Við viljum tryggja ákveðið öryggi í því hvernig að þessu skuli staðið og við viljum helst fá að sjá spilin áður en við endanlega gefum.