10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5681 í B-deild Alþingistíðinda. (4990)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hélt nú að hv. þm. Bjarni Guðnason, flokksbróðir minn, væri meiri jafnaðarmaður en raun ber vitni af hans tali. Hann sagðist koma upp til að mótmæla málflutningi tveggja þm. Vestfjarðakjördæmis. Hverju er hann að mótmæla? Hver er stefna Alþfl.? Hver er grundvallarstefna Alþfl. og jafnaðarmannaflokka? Eru það ekki almenn mannréttindi öllum til handa? Og hvað er það sem við höfum sagt hér sem höfum andmælt þeim þætti einum að taka þetta mál eitt og sér út úr og afgreiða það? Ég lýsti því yfir fyrr við þessa umr. að ég hefði ekkert á móti því að leiðrétta það misvægi atkv. sem menn eru að tala um ef annað óréttlæti yrði leiðrétt með. Það er hin sanna jafnaðarstefna. Mér heyrist að tal hv. þm. Bjarna Guðnasonar komi frekar aftan úr forneskju en það sem hér hefur verið talað um af okkar hálfu.

Hann talar um að manngildi og mannréttindi eigi ekki að fara eftir því hvar menn búa. Ég hef a. m. k. haft þá lífsskoðun og hef hana enn, hef talið mig jafnaðarmann alveg frá fyrstu tíð, að það væri frumskylda stjórnvalda í lýðræðisþjóðfélagi að sjá svo til að allir byggju við sem sambærilegust kjör hvar sem þeir byggju á landinu, hvort sem um væri að ræða kosningarrétt eða önnur mannréttindi. Hv. þm. talaði um það, að þó að það kostaði meira að kynda hús á Vestfjörðum ætti atkvæðavægið ekki að vera meira þar. Ég get út af fyrir sig samþykkt það og hef aldrei mælt gegn því að lagfært yrði það misvægi atkvæða sem menn eru að tala um, en ég er andvígur því að það eitt sé tekið út úr og slitið úr samhengi. Það á að leiðrétta fleira jafnhliða.

Hv. þm. ræddi hér mikið um stjórnsýslustofnanir. Ég er honum sammála um að forsvarsmenn þessara stofnana margra hverra, kannske allra, sem um hefur verið talað að flytja héðan af þessu svæði, eru því andvígir. En það á bara ekkert að spyrja þá að því. Forsvarsmenn þessara stofnana eiga ekki að ráða því hvar þær eru staðsettar. Það er stjórnvalda að ákvarða það, það er Alþingis. Menn geta því ekki skotið sér á bak við það þó einhverjir kerfismenn, forsvarsmenn ríkisstofnana, séu andvígir því að flytja þær úr stað. Alþingi eða stjórnvöld eiga ekki að láta þá herra segja sér fyrir verkum.

Ég vísa því á bug að allt tal um flutning stjórnsýslustofnana sé gjálfur eitt. Það verður auðvitað gjálfur eitt meðan stjórnvöld og Alþingi láta forsvarsmenn þessara stofnana setja sér stólinn fyrir dyrnar og koma í veg fyrir að þær verði fluttar úr stað. Ég held því, hv. þm. Bjarni Guðnason, að þessi skoðun sé byggð á röngum forsendum, enda ætlunin að hella úr skálum reiði sinnar, kannske óathugað, eins og hv. þm. tók fram. Ég er sannfærður um að ef jafnaðarmannahugsjónin fær að ráða ferðinni í brjósti þessa hv. þm. talar hann ekki oftar eins og hann gerði áðan. Ég hélt lengi vel að hv. þm. væri jafnvel meiri jafnaðarmaður en ég er, en af tali hans áðan finnst mér síður en svo vera. Ég hefði gjarnan viljað geta litið upp til hv. þm. sem meiri jafnaðarmanns en ég er, en til þess að svo megi vera þarf ýmislegt að breytast. En það er alts ekki útilokað að hv. þm. sjái að sér. (HBl: Það er annars konar jöfnuður á Vestfjörðum en í Reykjavík.) Er hv. skrifari Nd. mættur? Hann fær þá ekki ákúrur úr forsetastól nú.

Við, sem andmælum því máli sem hér er nú til umr., erum ekki andvígir því að leiðrétta það sem miður fer, það er síður en svo, en við erum andvígir því að þetta eina atriði sé slitið úr samhengi við allt annað og rekið með hraði í gegnum þingið, en öll önnur óréttlætismál séu látin bíða. Nú veit ég ekki hvað prófessorslaunin eru há og skal ekkert um það fullyrða, en ég veit að hv. þm. Bjarna Guðnasyni mundi ekki þykja það réttlæti ef hann þyrfti að láta af sínum prófessorslaunum á bilinu frá 5–7 þús. kr. á hverjum einasta mánuði til að borga upphitunina á íbúðinni sinni. Ég er sannfærður um það, þrátt fyrir allt það sem hann sagði áðan, sem var í reiði mælt, að það teldi hann hið argasta óréttlæti og getur verið mér sammála um það. Á sama hátt mætti nefna miklu fleiri þætti sem ég flokka undir almenn mannréttindi. Það er kannske rétt að minna hv. þm. á að ef ég man rétt var það okkar flokkur, núverandi, sem kom því óréttlæti á á sínum tíma sem menn eru nú að tala um í sambandi við vægi atkvæða.

Það er síður en svo að ástæðulausu að við, sem andmælum þessari meðferð mála, gerum það á röngum forsendum. Það hefur meira að segja verið, að ég best veit, grundvallarmálflutningur og stefna Alþfl. að ekki ætti að slíta neitt út úr stjórnarskránni og afgreiða það eitt og sér, það ætti að afgreiða stjórnarskrána sem heild en ekki með þeim hætti sem hér er verið að gera, hvað svo sem formaður flokksins hefur leiðst út í að gera í samkrulli við aðra formenn.

Ég held að það sé rangt hjá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, og það er ábyggilega mælt vegna þess að hann þekkir ekki nægilega vel til, að Ísfirðingar mundu mótmæla því ef t. d. samgrn. yrði flutt á Austfirði og ég hygg að sama megi segja um Austfirðinga ef þessu yrði öfugt farið. Dreifbýlismenn hafa haldið því fram og hafa haft uppi um það kröfur, að það yrði a. m. k. skoðað gaumgæfilega hvort ekki væri rétt að flytja einhverjar stjórnsýslustofnanir ríkisins út á landsbyggðina. Og ég veit það, hvað sem hv. þm. Bjarni Guðnason segir í ræðustól í kvöld, að ef hann ígrundar þetta mál gerir hann sér ljóst að þau áhrif sem það hefur að hafa alla stjórnsýsluna á þessu svæði, Alþingi sjálft og allt sem því fylgir, eru ekkert lítil og rétta hlut þeirra sem hér er verið að tala um að séu misrétti beittir með misvægi atkvæða. Ég tala nú ekki um þegar það er orðið svo að langsamlega flestir hv. alþm. eru búsettir á þessu svæði. Það segir til sín. Menn eru fljótir að mengast í því andrúmslofti sem hér er ef þeir eru langdvölum fjarri sínu heimahéraði.

Fyrr við þessa umr. beindi ég nokkrum orðum til hæstv. forsrh. og gerði að umræðuefni þá yfirlýsingu sem fylgdi með frv. á sínum tíma og er prentuð sem fskj. í nál. um frv. Ég vitnaði til þess að þar væri gefið í skyn og nánast fyrirheit um að leiðrétting skyldi gerð á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Hæstv. forsrh. vísaði þessu yfir á formenn þingflokkanna eða þingflokkana sem slíka og fannst mér nánast felast afsökunartónn í máli hans. Auðvitað var þessi yfirlýsing gefin vegna þess að ýmsir af dreifbýlisþm. fengust ekki til að styðja þetta mál öðruvísi en eitthvað annað fylgdi með til leiðréttingar á óréttlætinu. Sumir studdu það sem betur fer ekki þrátt fyrir þessa yfirlýsingu sem mér sýnist að ætli lítið gagn í að verða ef fram heldur sem horfir. Hæstv. forsrh. vísaði til þess að hann liti svo á að þetta loforð ætti að uppfylla þegar samþykkt væri ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið. Ef við dæmum af fenginni reynslu er því áratuga bið eftir að eitthvað gerist í þessum málum. Og hafi það verið meiningin áttu menn að segja það skýrt og skorinort en ekki vera að gefa falskar vonir undir fölsku flaggi.

Hæstv. forsrh. sagði að leiðréttingar í þá átt sem ég hef verið að tala um og fleiri væru ekki hristar fram úr erminni á síðustu vikum þingsins. Er ekki hæstv. forsrh. kunnugt um að hann er búinn að vera forsrh. nærri því heilt ár? Og þetta mál er ekki að bera á góma fyrst nú. Þetta er loforð sem gefið var af honum fyrir rúmu ári. Allt tal um að hrista fram úr erminni á síðustu stund þessa þings er því út í bláinn.

Þá sagði hæstv. forsrh. nokkurn veginn orðrétt, held ég, að hann liti svo á að þingflokkarnir ætluðu sér að standa við þessa skoðun. Út af fyrir sig er gott að menn hafi skoðun á málum, en það dugar skammt ef slíkri skoðun fylgja engar aðgerðir til að framkvæma hlutina, en það er það sem vantar í þessum efnum. Það er það sem vantar að orðin eintóm séu ekki látin gilda. Það vantar að framkvæmdirnar fylgi með.

Ég spurði hæstv. forsrh. um starf þeirrar nefndar sem hann beitti sér fyrir með tilnefningu fulltrúa frá þingflokkum hér á Alþingi, að ég skildi til þess að vinna að þessu máli, en hæstv. forsrh. sagði að hann hefði ætlað þessari nefnd að fylgjast með því hvað væri að gerast. Það er létt verk að fylgjast með því sem er að gerast í þessum efnum. Það er bókstaflega ekki neitt. Það er ekkert að gerast til leiðréttingar á öðru ranglæti í þjóðfélaginu en því sem menn eru hér að tala um, á misvægi atkvæða.

Ég spurði hæstv. forsrh. hvort nefndin væri búin að halda fund, hvort hún væri farin að starfa. Það komu engin svör við því, enda hefur nefndin það ég best veit enn ekki verið kölluð saman til fundar. Það sýnir eitt og sér alvöruna og áhugann sem menn virðast hafa á því að leiðrétta fleira en vægi atkvæða.

Hæstv. forsrh. benti á máli sínu til stuðnings að fjármagn væri verulega aukið til lækkunar á húshitunarkostnaði í nýframlögðu frv. hæstv. iðnrh. Það er síður en svo að svo sé. Í mesta lagi er hægt að gera ráð fyrir að þar verði um að ræða 340 millj. kr., ef ég man rétt, sem til þessa verða ætlaðar. Við skulum ekkert vera að draga af því, en orkujöfnunargjaldið sem til þessa var ætlað á sínum tíma á að gefa skv. fjárlögum a. m. k. 470 millj. kr. Svo kemur hæstv. forsrh. hér og segir að fjármagn til þessa þáttar sé verulega aukið með þessu frv. frá því sem verið hefur. Meðan slíkt hugarfar ríkir hjá ráðamönnum þjóðarinnar er ekki við því að búast að leiðrétting fáist á því ranglæti sem er ríkjandi í þjóðfélaginu og er slíkt að engu lagi er líkt.

Það sæmir ekki neinum hv. þm., sem telur sig til jafnaðarmannaflokks og hefur þá hugsjón að leiðarljósi, að mæla bót því óréttlæti sem stór hluti þjóðarinnar býr við. Ég vona og þykist raunar vita, að þegar hv. þm. Bjarna Guðnasyni er runnin reiðin verði hann mér sammála. Ég veit að við erum báðir einlægir jafnaðarmenn og höfum jafnaðarmennskuna að leiðarljósi. Hún byggir á jafnrétti, ekki bara að því er varðar kosningarrétt, hún byggir á almennu jafnrétti meðal þegnanna. Þess vegna hélt ég, og raunar veit því að við erum báðir innan Alþfl., að við ættum að geta verið sammála um þetta.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta að sinni. Ég geri ráð fyrir að hér verði mikið rætt um þetta mál. Það er hér til 1. umr., þannig að fleiri hv. þm. hljóta að eiga eftir að tjá sig í þessu máli. Ég vonast til þess að þetta mál verði ekki eitt og sér rekið í gegnum þingið nú á síðustu dögum þess án þess að gerð sé nokkur tilraun til að leiðrétta annað og miklu meira óréttlæti sem einstaklingar í þjóðfélaginu, heilir landshlutar, búa við á ótal mörgum sviðum.