10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5688 í B-deild Alþingistíðinda. (4993)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. flutti hér ræðu áðan og gat þess að hann vildi hella úr skálum reiði sinnar. E. t. v. finnst mörgum að hér sé fyrst og fremst um tilfinningamál að tefla og það séu geðhrifin sem skipti máli, aðalatriðið sé að hella úr skálum reiði sinnar, ekki hitt að hugleiða hvað menn eru að segja. Hv. þm. gat þess að það væru myrk miðaldaviðhorf sem einkenndu málflutning þeirra sem væru ekki sáttir við þá kröfugerð, sem hér er mest á loft haldið, að það eina sem þurfi að jafna í þessu landi sé atkvæðisrétturinn. Hvar er þessi jafni atkvæðisréttur í heiminum? Er hann í Bretlandi? Eru hinar myrku miðaldir enn þá í Bretlandi? Er hann í Danmörku? Eru hinar myrku miðaldir enn þá í Danmörku? Er hann í Noregi? Eru hinar myrku miðaldir enn þá í Noregi? Ég vel þessi þrjú lönd vegna þess að jafnaðarmannaflokkar, hvort sem þeir hafa kallað sig verkamannaflokk eða jafnaðarmenn, hafa ráðið ríkjum í þessum löndum og átt kost á því að breyta kosningaskipulagi frá hinu myrka miðaldakerfi yfir í það sem hv. 5. þm. Reykv. telur að sé hið eina rétta. E. t. v. hafa þar aðeins verið forstokkaðir foringjar, svartsýnir, þröngsýnir og heimskir. E. t. v. er þetta dómurinn sem hann vill kveða upp yfir þeim mönnum sem þar hafa stjórnað. Samt er nú svo að þessir menn verða metnir af sögunni margir hverjir sem einhverjir mestu stjórnmálamenn þessa heims. En þeir höfðu rólega yfirsýn yfir þessi mál. Þeir höfðu það mikla yfirsýn yfir þau að þeir skynjuðu muninn á aðalatriðum og aukaatriðum. Þeir skynjuðu þann mikla aðstöðu- og valdsmun sem gat legið í því hvar menn voru búsettir í hinum ýmsu löndum.

Mér hefur borist bréf frá Gunnlaugi Péturssyni, þar sem hann setur upp á nokkuð skipulegan hátt sína skoðun á því í hverju þessi mismunun m. a. liggi, en hann er íbúi þessa svæðis. Og ég vil leyfa mér með leyfi forseta að lesa þetta. Þetta er ekki langur pistill, en þar grípur hann á nokkrum atriðum sem vissulega eru umhugsunarverð:

„Einstaklingurinn greiðir atkvæði til þess að hafa áhrif á löggjöf og raunar alla stjórn landsins, en áhrifamáttur kemur fram í fleiru en atkvgr. einni:

1. Þingmenn eru langsamlega flestir búsettir á höfuðborgarsvæðinu og hljóta sem íbúar þess svæðis að bera hag þess fyrir brjósti vegna fjölskyldu sinnar, hvert svo sem þeir sækja kjörfylgi sitt. Þeir fáu þm. sem búsettir eru utan þessa svæðis eru þar þó til húsa a. m. k. hálft árið og þann tíma undir daglegum áhrifum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þeir komast ekki hjá þessu meðan þing situr.

2. Starfsmenn Alþingis búa á höfuðborgarsvæðinu og það gera einnig nálega allir þeir sem alþm. þurfa daglega að sækja eitthvað til eða hafa samskipti við, bæði í einkalífinu og starfinu á þingi.

3. Löggjöfin er ekki nema hluti af stjórnun landsins. Ráðuneytin öll og flestar ríkisstofnanir eru í Reykjavík. Þar fer fram túlkun laga, samning reglugerða og mótun venja í framkvæmd laga, meðferð mála og allri daglegri umsýslu á því sviði. Flestir starfsmenn ráðuneyta og ríkisstofnana eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu þegar þeir eru ráðnir til starfa. Þeir fáu sem eru það ekki setjast þar að sjálfsögðu að og verða þar búsettir frá ráðningu.

Það sem sagt er hér að ofan á við um áhrif íbúa höfuðborgarsvæðisins á löggjöf og stjórnsýslu. Forgangur þeirra til áhrifa er þó miklu meiri og víðtækari. Segja má að þeim hafi verið falin mótun hugsunarháttar allra landsmanna að mestu leyti. Svonefndir fjölmiðlar, hljóðvarp, sjónvarp og dagblöð, eru að heita má allir starfræktir í Reykjavík og starfsmenn þeirra því búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Umsvif fjölmiðla hafa margfaldast undangengna áratugi og eru enn að magnast. Fjölmiðlar hafa landsmenn alla á kné sér langar stundir svo að segja hvern einasta dag. Sé til innræting meðal Íslendinga, þá er hún þar.

Miklu fleira mætti benda á, svo sem Háskólann, Tækniskólann og raunar flesta æðri skóla landsins o. s. frv. o. s. frv. Áhrif íbúa höfuðborgarsvæðisins á hugsunarhátt landsmanna og daglegt líf eru og verða margfalt meiri en áhrif annarra landsmanna, jafnvel þó íbúar höfuðborgarsvæðisins væru sviptir atkvæðisrétti við alþingiskosningar, hvað þá ef hann væri jafnaður til fulls. Því fylgdi alveg óheyrileg mismunun.“

Þetta er bréf frá Reykvíkingi og ég vænti þess að háskólamenn séu ekki svo fastir í sínum fílabeinsturni að þeir reyni ekki að skynja það þjóðfélag sem er fyrir utan. Vissulega hlustaði ég með athygli á þá umsögn hv. 5. þm. Reykv. að þeir sem hér hefðu talað á móti og væru að vestan væru einna líkastir tveimur klettadröngum sem brimið gnauðaði við en þeir högguðust lítið. Það má vel vera að honum þyki að með þessu sé hann búinn að stimpla þessa tvo á þann veg að þeim sé á einhvern hátt minnkun að. Ég ætla ekki að dæma það. Hitt veit ég, að sem áhorfandi á hafið hefur mér fundist að það væri rétt sem skáldið kvað: Reikult er rótlaust þangið. Og ég er ekki viss um að það rótlausa þang sé fært um að leggja þær línur sem þarf í þessu efni. Ég hygg að það þurfi allmikinn stöðugleika til þess að móta stefnu í málum eins og þessum. En það sem mér hefur orðið að vonbrigðum, ekki hitt að ég finni hjá mér nema þörf til að hella úr skálum reiði minnar, en það sem mér hefur orðið að vonbrigðum er það, að það sem lýðræðisþjóðir heimsins í kringum okkur hafa sett upp og virt í sögulegum hefðum og venjum í mótun síns samfélags er okkur einskis virði. Við metum það eins og það hefði aldrei verið til.

Ísland var í upphafi byggt mönnum sem undu illa ofríki annars staðar. Þeir leituðu samkomulags um að mynda hér ríki. Það var ríki hinna fornu fjórðunga. Og það er athyglisvert að enn er svo ástatt að í því húsi sem við erum í stödd gnæfa merki hinna fornu fjórðunga, ef menn skoða það grannt. En þeir sem hér eru innan dyra virðast hafa gleymt því að þeir hafi verið til, því síður að þeir átti sig á því að ef einn hinna fornu fjórðunga ætlar að fara að drottna yfir hinum, þá tel ég að lýðræðið sé í afturför á Íslandi.