10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5694 í B-deild Alþingistíðinda. (5003)

81. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sjútvrn. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum frá 31. maí 1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna en hér er um að ræða frv. um Hafrannsóknastofnun. Frv. þetta hefur verið lengi til meðferðar á Alþingi, en það var unnið að tilhlutan nefndar sem var skipuð 20. ágúst 1982 til að athuga rekstur og skiputag Hafrannsóknastofnunar. Í nefndinni áttu sæti Jón Arnalds ráðuneytisstjóri, formaður, Geir Gunnarsson, þáv. formaður fjvn., Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Magnús Pétursson hagsýslustjóri, Már Elísson fiskimálastjóri og Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins.

Frv. var lagt fram á síðasta Alþingi en náði þá ekki fram að ganga. Verulega var þó í því unnið í sjútvn. Ed. og fluttar þar brtt. sem tekið er tillit til í þessu frv. Síðan var mælt fyrir frv. þessu í Ed. þann 14. nóv. s. l. og skal ég reyna í örfáum orðum að gera grein fyrir helstu efnisatriðum þess.

Það nýmæli er í þessu frv. að við stofnunina skuli starfa tveir aðstoðarforstjórar. Á árinu 1975 voru gerðar þær breytingar að setja þar á stofn útgerðarstjóra sem skyldi hafa með hendi daglega stjórn fjármála vegna reksturs rannsókna og leigu skipa. Fyrir nokkrum árum voru síðan ráðnir með ráðherrabréfum tveir aðstoðarmenn forstjóra sem jafnframt voru og eru deildarstjórar ákveðinna rannsóknadeilda stofnunarinnar. Þessir aðstoðarmenn forstjóra hafa í reynd sjálfkrafa tekið við störfum forstjóra í fjarveru hans og annast rekstur og stjórn stofnunarinnar að svo miklu leyti sem forstjórinn hefur falið þeim. Þeir hafa að öðru leyti verið fulltrúar forstjóra við daglegan rekstur stofnunarinnar og almennt aðstoðað hann við rekstur hennar.

Nú er talið nauðsynlegt að lögfesta þessar stöður, en þó þannig að aðeins annar af aðstoðarforstjórum sé vísindamaður á sviði hafrannsókna en hinn aðstoðarforstjórinn verði fjármála- og rekstrarstjóri stofnunarinnar. Það hlýtur að teljast eðlilegt í svo stórri stofnun sem Hafrannsóknastofnun er í reynd að þar sé sérstakur aðill sem annast fjármálastjórn. Að mínu mati þýðir lítið í reynd að tala um hagkvæmni og sparnað í ríkisrekstri nema að styrkja til verulegra muna innri fjármálastjórn allra stofnana á vegum ríkisins. Það starf verður ekki unnið af Fjárlaga- og hagsýslustofnun einni. Það verður að vinna innan frá í viðkomandi stofnunum og það verður ekki gert nema að auka vald þeirra sem fara með þau mál og það séu sérstakir menn, fjármálastjórar, sem hafi fulla stjórn á þeim málum.

Um þetta eru að sjálfsögðu deildar meiningar og ekkert síður í stofnununum sjálfum. Vissulega geta þar orðið árekstrar á milli vísindamanna annars vegar og þeirra er stjórna fjármálum hins vegar, en það verða menn að geta jafnað í viðkomandi stofnunum og stjórnað sínum eigin málum eftir bestu getu.

Í samræmi við till. sjútvn. Ed. á s. l. ári er skv. þessu frv. fjölgað í stjórn stofnunarinnar um tvo menn frá því sem áður var gert ráð fyrir. Gert er ráð fyrir því að skipun núv. stjórnar falli úr gildi, skv. þeirri brtt. sem samþykkt var í Ed., 1. júlí n. k., en þeir aðilar sem eiga að tilnefna í stjórn stofnunarinnar eru Fiskifélag Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, einn af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar, einn sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einn skipaður af sjútvrh. án tilnefningar.

Gert er ráð fyrir því að stjórnin fái aukið hlutverk og henni er ætlað að taka ákvarðanir um meginatriði í stefnu og starfi stofnunarinnar og gera till. um starfs- og fjárhagsáætlanir og till. til ráðh. um skipun ráðgjafarnefndar og deildaskiptingu stofnunarinnar.

Einnig er gert ráð fyrir því að stjórnin staðfesti skipaáætlun og reikninga stofnunarinnar. Með þessum hætti er stjórninni veitt aukin hlutdeild í mótun skipulags, en að tilhlutan nefndarinnar voru þegar hafnar umr. meðal starfsfólks og innan stjórnar um framtíðar deildaskipulag og fyrirkomulag Hafrannsóknastofnunar. Hafa starfsmenn tekið verulega þátt í þeirri umr. og skilað um það ákveðnum till.

Ég vil aðeins geta þess að í 17. gr. eru markmið Hafrannsóknastofnunar skilgreind á ný. Þau verkefni sem lögin kveða á um að skuli vera í hendi hennar voru skilgreind fyrir tæpum tveimur áratugum þegar aðstæður voru aðrar en nú. Þess vegna þótti nauðsynlegt að skilgreina þau aftur.

Í 18. gr. gildandi laga er kveðið á um að til að framkvæma verkefni stofnunarinnar skuli skipa starfseminni í fjögur verksvið. Í dag starfar stofnunin hins vegar í 9 mismunandi deildum auk fjögurra útibúa. Skv. frv. er gert ráð fyrir að sett skuli nýtt skipulag með ákvörðun ráðh. að fengnum till. stjórnar Hafrannsóknastofnunar og liggja fyrir till. um það.

Gert er ráð fyrir því að deildarstjórar skuli ráðnir. Með þessu er leitast við að tryggja frekari sveigjanleika í starfseminni, betri nýtingu á mannafla, tækjum og fjármunum í stað þess að deildir myndist í tengslum við áhuga og sérsvið einstakra vísindamanna eins og oft vill verða og nokkuð ber á í þessari stofnun.

Að frumkvæði nefndarinnar hafa þegar farið fram umr. með sérfræðingum hennar um núverandi deildafyrirkomulag og framtíðarskipan þessara mála eins og ég gat um áðan. Gert er ráð fyrir því að skipulag núv. stofnunar falli úr gildi við gildistöku þessara laga og komið verði á nýrri skipan mála. Þótt þar sé ekki um neina byltingu að ræða á það skipulag að gera ráð fyrir því að mun meiri sveigjanleiki verði í starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar. Ég vænti þess að það megi verða til þess að auka starfsemi hennar og viðgang því að mjög mikilvægt er að sinna þessum grundvallarrannsóknum eftir því sem nokkur kostur er og hefur aldrei verið mikilvægara en nú að við gerum okkur sem besta grein fyrir lífríkinu hér í hafinu umhverfis okkur ef við eigum að geta spáð fyrir um efnahagslega framvindu þjóðarinnar á næstunni.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.