11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5703 í B-deild Alþingistíðinda. (5020)

221. mál, jarðalög

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir vert að geta þess hér í upphafi máls míns að mér hefur láðst að tilkynna það, þegar ég lagði afgreiðslu landbn. Ed. inn til vélritunar, að í bókun n. við afgreiðslu málsins er fram tekið að einstakir nm. áskilji sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja öðrum sem fram kunna að koma. Ég bið nm. velvirðingar á þessu. Þetta verður að sjálfsögðu lagfært við endurprentun á nál.

Við fyrri umr. fjallaði landbrh. allítarlega um frv. til l. um breytingar á jarðalögum. Enn fremur fylgdi frv. grg. til upplýsingar um þær ástæður og efni sem í frv. felast. Segja má að megintilgangurinn með þessu frv. og tilefni sé sú skipulagsbreyting sem áformuð er með þessari lagagerð, þar sem Landnám ríkisins yrði lagt niður og verkefnum þess skipt upp á milli annarra stofnana og þá sérstaklega færð yfir til landbrn. Það má því segja að ekki sé um miklar efnisbreytingar að ræða.

Ég mun nú fara um frv. nokkrum orðum og þó sérstaklega brtt., en vísa að öðru leyti til þess sem ég hef áður sagt um fyrri skýringar hér í þessari hv. d. á frv.

Frv. þetta er stjfrv. Meginefni þess er að Landnám ríkisins verði lagt niður og verkefni þessa varðandi stofnun býla, félagsbúa, endurbyggingu jarða, jarðaskrá og umsjá jarða flyst til landbrn. Skv. frv. verða Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins nú í flestum tilvikum umsagnaraðilar. Þó eru í frv. ítarlegri reglur um félagsbú en áður hafa gilt og gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum jarðalaganna í ljósi fenginnar reynslu, m. a. varðandi sumarbústaði. Ekki þarf að taka það fram með tilvísan til þess sem ég sagði áðan, að landbn. mælir með samþykkt frv. með þeim fyrirvörum sem ég gat hér um áðan.

Landbn. Ed. leitaði eftir umsögnum um frv. Búnaðarþing fjallaði sérstaklega um það og gerði við það allmiklar breytingar og kom það fram í ályktun Búnaðarþings árið 1984. Þar er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum frv. Jafnframt fól Búnaðarþing sérstakri nefnd þriggja manna að yfirfara frv. Kom nefnd Búnaðarþings m. a. á fund þingnefndarinnar. Þær brtt. sem landbn. flytur á þskj. 825 eru m. a. tilkomnar vegna ályktunar Búnaðarþings 1984. Þá hefur nefndin átt viðræður við búnaðarmálastjóra og embættismenn í landbrn. ásamt þeim þremur mönnum sem áður er vitnað til.

Eins og fyrr sagði flytur nefndin þrjár brtt. við frv. Sú fyrsta lýtur að því ákvæði frv. sem fjallar um sumarbústaði. Skv. 3. gr. frv. er lagt til að settar verði einfaldari og skýrari reglur um afskipti jarðanefnda af byggingu sumarbústaða og aðilaskiptum að réttindum yfir þeim. Er í því efni gerður greinarmunur á hvort um er að ræða sumarbústaðahverfi eða bústaði utan hverfa. Þannig gerir frv. ráð fyrir að land undir sumarbústaðahverfi verði jafnan tekið úr landbúnaðarnotum skv. 12. gr. jarðalaganna. En við sumarbústaði utan hverfa er slíkt heimilt en ekki nauðsynlegt. Hafi land undir sumarbústaði verið tekið úr landbúnaðarnotum þurfa jarðanefndir og sveitarstjórn ekki að samþykkja aðilaskipti eða réttindi yfir slíkum sumarbústöðum skv. 6. gr. jarðalaganna. Mikilvægt er í þessu sambandi á hvern veg sumarbústaðahverfi eru skilgreind, en í frv. er svofelld skýring við 5. mgr. 3. gr.:

„Það telst vera sumarbústaðahverfi, þegar tveir eða fleiri sumarbústaðir eru byggðir á sömu lóð (landi) eða á samtengdum lóðum.“

Búnaðarþing 1984 fjallaði sérstaklega um þessa skilgreiningu og af hálfu þess var bent á vaxandi áhuga bænda á því að reisa sjálfir sumarbústaði til útleigu eða leigja út lóðir undir bústaði án þess að losað væri um tengsl lands undir slíka bústaði við viðkomandi jörð, t. d. með því að taka landið úr landbúnaðarnotum. Bæði væri það, að bændur litu á þetta sem tímabundin afnot lands, sem síðar kynni á ný að verða tekið til landbúnaðar, og hitt, að slík útleiga gæti orðið vaxandi þáttur í búskaparhefð. Með tilliti til þessa þótti sú viðmiðun frv. að miða sumarbústaðahverfi við tvo eða fleiri sumarbústaði of þröng. Af hálfu Búnaðarþings 1984 var því lagt til að miðað yrði við 10 bústaði, en með tilliti til þeirra réttaráhrifa sem tengd eru þessari skilgreiningu laganna var það tillaga nefndarinnar að miða skilgreininguna á sumarbústaðahverfi við fjóra eða fleiri sumarbústaði.

2. brtt. n. er við 10. gr. frv. Er þar fjallað um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð varðandi aðild að félagsbúum. Í 2. málsl. 2. mgr. d, sbr. 25. gr. frv., er tekið fram að hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geti ekki stofnað til félagsbús. Af hálfu Búnaðarþings og þeirra starfsmanna Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem fjallað hafa um frv. var lögð áhersla á að sama gilti um fólk í óvígðri sambúð og að það kæmi skýrt fram að ákvæðið tæki einnig til þess fólks sem stofnað hefði félagsbú en gengi síðar í hjúskap eða tæki upp óvígða sambúð. Þeir aðilar gætu ekki lengur báðir verið aðilar að félagsbúi. Í brtt. n. er óvígð sambúð skilgreind á sama hátt og gert hefur verið í ýmsum lögum frá síðustu árum, þó þær skilgreiningar séu ekki í öllum atriðum sambærilegar. Má um sambærilega skilgreiningu og hér er gerð till. um vísa til 2. gr. frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda, sem liggur fyrir þessu þingi, og 63. gr. laga um tekju- og eignarskatt.

Reynslan sýnir að stór hluti félagsbúa og stofnunar nýbýla er vegna kynslóðaskipta á jörðum. Menn óska þá gjarnan eftir að standa sameiginlega að búrekstrinum að hluta eða öllu leyti um einhvern tíma meðan kynslóðaskiptin eru að ganga yfir. Skv. frv. er hins vegar gert ráð fyrir að til stofnunar félagsbús þurfi að uppfylla viss skilyrði um landstærð og gæði skv. 5. mgr. 25. gr. frv. Með viðurkenningu stjórnvalda á félagsbúi öðlast aðilar þess tiltekin réttindi, t. d. til lána og uppbyggingar á jörð. Búnaðarþing óskaði eindregið eftir því að tekið yrði upp sérstakt sameignarform um ábúðar- og framleiðslurétt og að sá samningur gilti í ákveðinn tíma meðan kynslóðaskiptin væru að ganga yfir. Nefndin taldi eðlilegt að setja inn í frv. slíka heimild, en nánari útfærsla á henni þyrfti að koma í reglugerð, enda tilvikin margvísleg og nauðsynlegt að huga að því á hvern hátt eigi að víkja frá skilyrðum um landstærð og réttindi aðila félagsbús í þessu tilviki.

Eins og fram kemur í grg. með frv. til breytinga á jarðalögum var ráðgert að leggja fyrir þetta Alþingi sérstakt frv. um graskögglaverksmiðjur þær sem nú eru í eigu ríkisins, en Landnám ríkisins hefur á grundvelli laga nr. 45 frá 1971 rekið þrjár af fjórum graskögglaverksmiðjum ríkisins. Ekki tókst að leggja frv. fram á þessu þingi en ráðgert er að ljúka frágangi þess í sumar og leggja það fyrir Alþingi næsta haust. Þar sem frv. það sem hér er til meðferðar og fjallar um breytingu á jarðalögum gerir ráð fyrir að Landnám ríkisins verði lagt niður er óhjákvæmilegt að fela einhverjum aðila að taka við verkefnum Landnámsins varðandi rekstur graskögglaverksmiðjanna í Flatey, Ólafsdal og á Stórólfsvöllum. Því er lagt til að ákvæði 55.–60. gr., sem fjalla um þennan rekstur, standi í lögum enn um sinn eða þar til ný lög um fóðurverksmiðju ríkisins verða sett. Hins vegar taki landbrn. við þeim verkefnum sem Landnámi ríkisins, landnámsstjórn og landnámsstjóra eru ætluð í nefndum lagagreinum. Því leggur nefndin til að við lögin bætist ákvæði um þetta atriði og gildi það þar til annað verður ákveðið með lögum. Skv. þessu ákvæði mun því landbrn. taka um sinn við þeirri yfirstjórn og skrifstofurekstri sem Landnám ríkisins hefur haft með höndum varðandi þær þrjár graskögglaverksmiðjur sem áður voru nefndar, en þær munu í samræmi við 55.–60. gr. áfram verða reknar sem sjálfstæð fyrirtæki hvert með sérstakri stjórn.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara nákvæmar út í þessi mál. Ég hygg að tillögurnar skýri sig að mestu sjálfar og vænti þess að málið fái hér greiðan framhaldsumgang í þessari virðulegu deild.