11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5709 í B-deild Alþingistíðinda. (5029)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil helst ekki þurfa að endurtaka það í öllum umr. um fjármál og ríkissjóð hvernig göt verða til og hvaða vanda núv. ríkisstj. er að glíma við. Ég er búinn að gera það svo oft og enginn maður í öllu kerfinu ætti að vita betur. Ég trúi ekki að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi ekki fylgst betur með í fjmrn. á þeim tíma sem hann var þar að honum hafi verið ókunnugt um vandann sem hann var búinn að búa til á sama tíma og formaður Alþb. lýsti því yfir að slíkt neyðarástand ríkti í þjóðmálum að nú þyrfti þjóðstjórn — það dugði ekkert annað — og fjögurra ára neyðaráætlun til þess að bjarga ríkisstj. sem þá var. Við skulum því ekkert ræða frekar um þann vanda sem við er að glíma. Það ætti fyrrv. hæstv. fjmrh. að geta sparað okkur öllum, svo oft höfum við rætt um hann. Lausnin á þessum vanda er á dagskrá í Nd. núna og kemur hingað innan fárra daga vonandi.

En það er alveg furðulegt með vinstri menn yfirleitt að ef þeir hugsa upp skatta skuli það teljast tekjutap ef þeir ná þeim ekki: Það er tekjutap ef þeir ná ekki einhverjum sköttum sem þeim dettur í hug að leggja á fólk og fyrirtæki. Upphaf þessa máls er þannig að ég bar fram frv. til laga um að fella niður gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta og ræddi um það við fyrrv. hæstv. fjmrh. mjög ítarlega, hafandi það í huga og vitandi það að bankakerfið stórtapaði á gjaldeyrissölu. Viðurkennandi það tók fyrrv. hæstv. fjmrh. mjög vel í að fella niður gjaldeyrisskattinn af augljósum ástæðum og vegna þess hve sérstaklega staða ríkisbankanna, gjaldeyrisbankanna, var þá slæm.

En hvað skeður svo? Til þess að bæta ríkissjóði upp væntanlegt tap af tekjum af gjaldeyrissölu þeirra tveggja banka sem þá fóru með gjaldeyrissöluna, Landsbankans og Útvegsbankans, ber fyrrv. hæstv. fjmrh. fram nýtt frv. um skattlagningu á innlánsstofnanir allar sem áttu að mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs. En í staðinn fyrir að fella þá um leið niður innheimtuna af gjaldeyrisbönkunum ætlaði fyrrv. fjmrh. hæstv. að halda báðum sköttunum. Það var miklum erfiðleikum bundið að reyna að fá gjaldeyrisskattana lækkaða um 10%, úr 60% niður í 50%, með loforði um að því frv. skyldi verða frekar breytt um næstu áramót.

En hvað skeður? Það er ekki unnið að neinum breytingum. Unnið er að nýrri skattlagningu á peningastofnunum sem þegar eru fjárvana og gömlu skattarnir, gjaldeyrisskattarnir, hækka aftur í 60%. (RA: Og veitir ekki af.) Og veitir ekki af. (Gripið fram í.) Það getur vel verið. En þegar svo þetta frv. hér er fram lagt nú með þeim stefnumörkunum sem hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði lofað, að fella niður gjaldeyrisskattana, þó á ákveðnu tímabili í þremur áföngum og tekið er til greina í skattlagningu á innlánsstofnanir almennt hvaða tekjur eru á báðum frv., það eru tvenns konar skattheimtur í gangi í staðinn fyrir eina áður, þá ætlar hann að ærast og telur að vegna þess að minna komi inn í skattlagningu nú en hann hafði í huga sé þar um beint tekjutap fyrir ríkissjóð að ræða. Ég verð að segja að þetta er alveg furðuleg hugsun vitandi það að ríkisbankarnir eru peningaþurfi, eru fjárvana. (RA: Þeir stórgræða.)

Það er oft sem menn hugsa að auðveldara sé að sækja fé í annarra manna vasa en að láta þá út sjálfir. Ég verð að segja alveg eins og er að ef ríkissjóður þarf á peningum að halda er það ekki með íþyngjandi skattlagningu, hvorki á einstaklinga né fyrirtæki, heldur þurfum við sem þjóð að vinna okkur út úr vandanum á tíma sem við fáum til þess, hvort sem það verður með innlendum eða erlendum lánum. Ég lít ekki svo á að þegar tekjuöflunin með þessum tveimur frv. er lögð saman á meðan gjaldeyrisfrv. er í gangi — en það á að fella niður þótt það hafi verið svikið af fyrrv. hæstv. fjmrh. — sé hún minni en tekjurnar sem ríkissjóður hafði af gjaldeyrisskattinum einum áður en frv. til l. um breytingu á lögum nr. 65 frá 19. maí 1982 um skattskyldu innlánsstofnana almennt komu til greina.

Ég verð að segja alveg eins og er að eftir þá reynslu, sem ég hafði af samstarfi við fyrrv. hæstv. fjmrh. í að bjarga einum ríkisbankanna frá algjörum þrotum, átti ég ekki von á því að um leið og hann væri kominn úr embætti færi hann að vinna að því að koma fleiri bönkum í sömu stöðu og sá banki var í, nema síður sé. Enda held ég að sú ákvörðun hafi verið til góðs sem unnin var í góðu samstarfi við hv. 3. þm. Norðurl. v. á þeim tíma sem hlaupa þurfti undir bagga með Útvegsbanka Íslands. Án hans aðstoðar hefði sá banki verið í mjög ört vaxandi vanda. En síðan hefur staða hinna bankanna breyst í sama horf og í dag eru þeir í það miklum lausafjárvandræðum og staða þeirra við Seðlabankann það veik að óhóflega þung skattheimta á bankakerfið eins og það er í dag statt held ég að mundi stofna þjóðfélaginu í hættu. Þá erum við komnir að þeim punkti sem er stefna Alþb., þ. e. að brjóta niður kerfið og koma á sínu kerfi. Þar komum við að kjarna málsins. Þar stangast á hugsjónir þeirra sem vilja þjóðfélaginu vel og þeirra sem vinna gegn því af hugsjón.

Ég hef ekki mikið meira um þetta að segja. Næstu þrjú árin á meðan gjaldeyrisskatturinn er að renna sitt skeið á enda er hérna um tvöfalda skattlagningu á gjaldeyrisbankana að ræða. Nú eru allir bankarnir og sparisjóðir komnir með gjaldeyrisréttindi þannig að mér er næst að halda að með þessum tveim frumvörpum sé verið að leggja tvöfalda skatta á allt okkar kerfi í staðinn fyrir gjaldeyrisskatt á gjaldeyrisbankana sem voru tveir á sínum tíma.