14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5844 í B-deild Alþingistíðinda. (5223)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ósköp var 3. þm. Reykv. reiður. Ég vissi ekki að honum væri svona illa við bankana. Hann sem beitti sér hvað mest fyrir því að hjálpa mér sem nýorðnum bankaráðsfarmanni til að útvega ríkisbanka 6 þús. millj. kr. svo að hann gæti rétt sig af eftir 2–3 ára ríkisstjórnarferil 3. þm. Reykv. Ég held að bankakerfið hafi þar átt vin áður en ég kom í ríkisstjórn.

Ég vil benda á að það er alveg furðulegt með vinstri menn almennt að ef þeir hugsa upp skatta, jafnvel þó þeir komi því ekki fram að innheimta þá, líta þeir á þá upphæð sem þeir voru með í huga sem nettótap. Bara ef þeim dettur í hug að innheimta skatta! Það er mjög mikið baráttumál mitt og hefur alltaf verið að bæði fyrirtæki og einstaklingar haldi eftir af sínum tekjum eins miklu sjálfsaflafé og við verður komið. Þjóðfélagið verður ekki rekið með öreigum einum saman. Það mega þessir ágætu fulltrúar kommúnistanna á Íslandi vita. Það verður ekki rekið með öreigum, fátækum bönkum eða févana fyrirtækjum. Þess vegna hlýtur það að vera áhugamál okkar allra að bæði einstaklingarnir og fyrirtæki, hvort sem það eru fyrirtæki sem versla með peninga og eru kölluð bankar eða önnur fyrirtæki, verði sterk þannig að þau geti staðið undir því þjónustuhlutverki með þjóðinni sem þeim er ætlað. (Gripið fram í.) Við verðum að reyna að hækka kaupið við Dagsbrún til þess að þeir verði ekki öreigar. Til þess að geta hlaupið undir bagga þurfa að vera sterk fyrirtæki og fleiri atvinnutækifæri, virðulegi vinur minn Guðmundur J. Guðmundsson.

Um hvað erum við svo að tala? Þannig vill til að ég flutti hér frv. sem bankaráðsformaður Útvegsbanka Íslands um að afnema skatt á gjaldeyrissölu viðskiptabankanna, ríkisbankanna, vegna þess að sá skattur var lagður á brúttótekjur gjaldeyrissölunnar sem þýddi að bankarnir stórtöpuðu fé á þessum viðskiptum. Fjmrh. fyrrv., hv. núverandi 3. þm. Norðurl. v., tók vel í að fella þessa skatta niður, a. m. k. að athuga það. Það gerði hann og gegn því að ég drægi frv. mitt til baka sagðist hann mundu beita sér fyrir því að þessi skattur yrði lækkaður í áföngum. En hvað skeður svo? Það kemur fram nýtt frv., nákvæmlega það sem ég legg hér fram, um nýja skattskyldu á innlánsstofnanir, en ekki samtímis að fella niður gjaldeyrisskattinn heldur til viðbótar gjaldeyrisskattinum. Svo ósanngjarnt var það og varla gat það orðið ósanngjarnara.

Frv. sem ég flyt hér er sama frv. og hæstv. fyrrv. fjmrh. flutti í ríkisstj. sem hv. 3. þm. Reykv. sat í og leiddi sinn flokk innan ríkisstj. Hann hóf sitt mál á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skattskyldu innlánsstofnana. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt var gefin yfirlýsing um það hinn 28. janúar s. l. af hálfu ríkisstj., jafnhliða því sem gerð var grein fyrir ýmsum aðgerðum í efnahagsmálum, að lagður yrði sérstakur skattur á banka og sparisjóði. Skattur þessi mun gefa í tekjur um 40 millj. kr. nettó og er ein af þremur tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs til að standa undir niðurfærslu verðlags sem svarar sex vísitölustigum.“

Frv., sem ég mæli hér fyrir, var flutt af fyrrv. hæstv. fjmrh. og er í engu breytt. Ég stend við það sem fyrrv. hæstv. fjmrh. hafði lofað, en seinna í ræðu sinni segir hann, með leyfi forseta:

„Í ákvæði til bráðabirgða V er gerð tillaga um að dregið sé nokkuð úr þeirri gjaldtöku sem tíðkast hefur hjá gjaldeyrisbönkunum skv. lögum nr. 40/1969, en það er gjald vegna tekna þessara tveggja gjaldeyrisbanka af umboðsþóknun og gengismun. Lagt er til að gjaldið lækki úr 60% í 50% á þessu ári og í 40% á næsta ári“.

Þetta stóð fyrrv. hæstv. fjmrh. Alþb. alls ekki við. Gjaldið var lækkað úr 60% í 50%, en hækkaði svo aftur um áramótin á eftir í 60% aftur í staðinn fyrir að lækka niður í 40%. Ég er nú að leggja til að staðið verði við það, sem upphaflega var lofað, að lækka gjaldið niður í 40% og áfram þangað til það fellur niður. Í stað gjaldeyrisskatts á gjaldeyrisbankana eina er tekinn upp sá skattur sem ég mæli fyrir, að vísu er það næsta mál, og á að koma í staðinn fyrir gjaldeyrisskattinn og verður innheimtur af öllum innlánsstofnunum í landinu. Skattheimtan er þá talin koma hlutfallslega jafnt niður á allar peningastofnanir en ekki bara á gjaldeyrisbankana.

Það er líka rangt hjá 3. þm. Reykv. að engir skattar hafi verið lagðir á áður. Gjaldeyrisskattar voru lagðir á, en á gjaldeyrisbankana eingöngu. Í því frv. sem vonandi verður tekið fyrir næst á eftir er ætlunin að innheimta hlutfallslega sama gjald af öllum innlánsstofnunum í staðinn fyrir það gjald af gjaldeyrisbönkunum sem á að fella niður.

Ég hef gaman af því þegar hv. 3. þm. Reykv. blæs eins og hann gerir. Hann verður alltaf svo æstur og reiður að það er eins og það sé verið að taka frá honum eitthvað sem er hans einkaeign. Hann skortir allt jafnvægi síðan hann fór úr ríkisstj. Ég veit ekki hvort hann hefur erfiða daga innan síns flokks, hvort hann verður að haga sér svona í ræðustól eða ekki, etja mönnum saman. Hann er margbúinn að reyna það, en tekst ekki. Ég skil ekki þessa leikaðferð. Það gæti verið gott fyrir Alþingi, bara upp á framtíðina, að taka það upp á vídeóspólu og gefa hv. 3. þm. Reykv. Hann áttaði sig þá e. t. v. á því hvað hann er að gera og hvernig hann æsir sig upp því það verður enginn annar æstur. Það er hætt að taka mark á manninum.

Auðvitað gerði ríkisstj. sér grein fyrir því hvað hér um ræðir. Hv. 3. þm. Reykv. er sjálfur búinn að vera ráðh. og veit hvernig málin ganga fyrir sig í rn., (Gripið fram í.) veit hvaða útreikningar fylgja málunum. Hitt er annað að þegar mál koma úr n. og þegar öllu er hraðað svo mjög er ekki alltaf víst að ráðh. fái upplýsingar um það sem skeður í nefndunum tímanlega fyrir umr. Ég skal viðurkenna að ég var ekki búinn að fá upplýsingar um það sem skeði í fjh.- og viðskn. Ed. áður en umr. hófst og meira að segja kom ég ekki inn í deildina fyrr en frsm. hafði flutt sitt erindi vegna þess að ég var upptekinn hér í hv. Nd. Ég gat því ekki gefið upplýsingar um niðurstöðutölur þegar þetta var rætt þar á lokastigi. (SvG: Hefur ráðh. upplýsingarnar núna?) Ég vona að virðulegur forseti gefi þm. orðið aftur. Hann virðist vera kominn af stað aftur (SvG: Ráðh. hefur engar upplýsingar.) Upplýsingarnar liggja fyrir í grg. og í nái. (SvG: Vill ekki ráðh. nefna töluna?) Af hverju les ekki hv. þm. það sem komið er frá n. Ed.? — Þar fyrir utan vil ég taka undir það með hv. þm. að að sjálfsögðu er nauðsynlegt að þingið afli sér allra upplýsinga. Ég vona að hv. þm. muni eftir því að n. gera það og þær eru til þess og síðan skila þær áliti. Það er ekkert sem hindrar virðulegan þm. í að biðja um þær upplýsingar sem hann óskar eftir og telur sig þurfa að fá til viðbótar við það sem er þegar komið fram í Ed.

En ég vil segja það að lokum og undirstrika að ég hef verið ákaflega gagnrýninn á bankastarfsemina, sérstaklega eins og hún er rekin í Seðlabankanum. Hlutverk Seðlabankans er allt annað en það viðskiptabankahlutverk sem hann hefur gegnt. En það er ekki það sem við erum að tala um. Þetta mál kemur Seðlabankanum ekkert við. Þessi blessaður 3. þm. Reykv. þvælist vítt og breitt um völlinn. Hann áttar sig ekki á hvar hann er staddur, hvort hann er að tala um viðskiptabankana eða hvort hann er að tala um Seðlabankann. Það skiptir engu máli ef hann getur með æsingi og hamagangi og hávaða náð til þeirra sem á hlýða. En allir í þessum sal eru orðnir vanir slíku, þannig að þeir taka ekkert mark á því og það hefur engin áhrif.