09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

10. mál, verðlagsmál

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki fara náið út í að ræða við hv. þm. Egil Jónsson, við fáum svo oft tækifæri til þess. En það kom mér sannarlega á óvart þegar hann sagði að einhvern tíma í framtíðinni mundu birtast stefnumið ríkisstj. í orkumálum og í húshitunarmálum. Ég hélt að þegar stjórnin var mynduð hefðu þau stefnumið verið sett fram og vissi ekki annað, en nú kemur sem sé í ljós að þau hafa ekki verið til staðar og eru ekki enn til staðar að hverju á að stefna, en einhvern tíma í framtíðinni er meiningin að taka þau upp og reyna að birta þau landslýð.

Ég ætla ekki að fara náið út í hvað okkur fór á milli á framboðsfundunum í vor. Ég fagna því að hv. 11. landsk. þm. man það vel, því að þar var tekið skýrt á málum. Um húshitunina var rætt og talið sjálfsagt að lækka þann kostnað fólks og sagt þar að ef þeir sjálfstæðismenn kæmust til valda, ekki bara í framtíðinni þegar stefnumiðin væru orðin ljós heldur þegar í stað og þeir væru komnir til valda, yrði þessi mikli kostnaður lækkaður snarlega.

Hann nefndi tölur áðan. Hvert hafa þessar upphæðir farið? Hvert hafa 150 millj. farið, sem hann nefndi áðan? Þær hafa farið í það fyrirtæki sem mér hefur hingað til skilist á þeim talsmönnum Sjálfstfl. að væri sérstakt fyrirmyndarfyrirtæki og dálætisfyrirtæki þeirra, þ.e. Landsvirkjun. Í það fyrirtæki hafa þessar 150 millj. farið. Þess vegna hefur stærri hluti af tekjum fólks farið og fer nú til að hita húsin en var áður en hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Á sama tíma og laun hafa hækkað um 8% og síðar 4% hefur hækkunin í húshituninni, þrátt fyrir niðurgreiðslurnar, verið 17.4% . Þetta veit hv. þm. jafnvel og ég.

Þá verður auðvitað svarað eins og hæstv. iðnrh. svaraði hér um daginn: Landsvirkjun var svo illa stödd. Hún var skilin eftir á köldum klaka. — Þar rekur sig nú hvað á annars horn. Ég man ekki betur en komið hafi í ljós að slæm staða Landsvirkjunar stafaði af hinum mikla fjármagnskostnaði og vegna hinna miklu framkvæmda sem þar hafa verið í gangi á undanförnum árum og kostnaði við þær. Það passar ekki alveg við allar upphrópanir þeirra hv. þm. sjálfstæðismanna og annarra talsmanna þeirra sem hafa verið að tala um stöðnunartímabilið mikla á undanförnum árum í öllum þessum framkvæmdum. Hv. þm. Egill Jónsson var enginn eftirbátur þeirra í því að lýsa því, að í orkumálum t.d. hefði ríkt algert stöðnunartímabil á valdaferli hæstv. fyrrv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar en síðan kemur í ljós hjá þeim núna, upplýsa þeir menn um það hér hver um annan þveran, að Landsvirkjun hafi vegna kostnaðar við hinar miklu framkvæmdir verið svo illa stödd að almenningur í landinu hafi orðið að hlaupa undir bagga og greiða 150 millj. þegar í stað til baka til þessa fyrirmyndarfyrirtækis.