15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5918 í B-deild Alþingistíðinda. (5261)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við fjárlagaafgreiðslu hafði ríkisstj. mörg orð um ábyrg fjárlög og aðhald í erlendri lántöku. Skömmu síðar kom neyðaróp fjmrh. Tvo til þrjá milljarða vantaði í ábyrgu fjárlögin hans. Nú reyndi á hvort ríkisstj. hefði kjark til að takast á við vandann. Þetta var prófsteinn á getu hennar, en hún hreinlega gataði á prófinu. Nekt ríkisstj. var algjör og hrun efnahagsstefnu Steingríms Hermannssonar staðreynd. Niðurstaðan af prófverkefni ríkisstj. var hroðaleg. Erlendar lántökur auknar um 2 þús. milljónir kr., eða sem svarar meðalárslaunum 10 500 launþega í landinu. Skyldu lántökurnar verða notaðar í arðbær verkefni, eins og segir í stjórnarsáttmálanum. Ó, nei. Þær fara í hallarekstur ríkisstofnana, í útflutningsuppbætur með kjöti ofan í útlendinga, í skuldasöfnun í sjávarútvegi vegna mistaka í fjárfestingarmálum undanfarin ár, í greiðslur vegna barnsmeðlaga, í húsnæðismál sem aldrei hefur áður þurft að taka erlend lán til. Hvert stefnir eiginlega þegar svo er komið að hver fjögurra manna fjölskylda í landinu skuldar erlendum lánadrottnum 700 þús. kr. eða sem svarar fjórum árslaunum verkamanna.

Svo leyfir ríkisstj. sér að kalla þessa óráðsíu því virðulega nafni „ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum“. Auðvitað á þetta ekki að heita neitt annað en frv. til l. um uppgjöf ríkisstj. Steingríms Hermannssonar.

Voru byrðarnar settar á breiðu bökin? Ó, nei, aldeilis ekki. Ríkisstj. Vinnuveitendasambandsins, Verslunarráðsins og SÍS-veldisins hentaði betur að skera niður lán til námsmanna, sjúkradagpeninga húsmæðra og launafólks, margfalda greiðslu sjúklinga fyrir ýmsa þjónustu í heilbrigðiskerfinu, draga stórlega úr þátttöku trygginganna í tannlæknakostnaði unglinga og hækka landbúnaðarvörur til heimilanna. Niðurstaða ríkisstj. var því að skerða stórlega félagslega þjónustu og það til viðbótar þeirri miklu skerðingu sem t. d. Framkvæmdasjóður fatlaðra varð fyrir við fjárlagaafgreiðslu. Þá var framlag til hans skert um 54%, eða um 71 milljón kr., á sama tíma og skattar eru lækkaðir á bönkum um að minnsta kosti 130 milljónir kr. á ári. Öldruðum og öryrkjum er ekki einu sinni hlíft, kaupmáttur grunnlífeyris þeirra hefur rýrnað um tæp 25% á 12 mánaða tímabili. Svo tala sumir ráðh. digurbarkalega um vin litla mannsins. Öllu má nú nafn gefa.

En þetta eru ráð ríkisstj. Þetta hefur ríkisstj. lagt á borð með sér eftir að hafa tekið þriðjung af launum launþeganna á stuttum tíma til eigin þarfa og til atvinnurekenda. Og ekki nóg með það heldur hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir stórlega meðan skattbyrði launafólks hefur aukist um 5 þús. kr. milli ára umfram launahækkanir, eða um 433 milljónir kr.

Staðreyndin er líka sú að íhaldið hefur látið kúga sig í þessu samstarfi. Undir forustu Þorsteins Pálssonar er Sjálfstfl. orðinn nær óþekkjanlegur frá Framsfl. Það eru ömurleg hlutskipti fyrir formann og varaformann Sjálfstfl., sem sögðu: „Báknið burt“, að þurfa nú að leiða flokk sinn í þá gæslusveit Framsfl. sem stendur dyggan vörð um þær heilögu kýr Framsfl. sem eru hagsmunir SÍS og milliliðanna í landbúnaði. Undir verndarvæng Framsóknar hefur á s. l. 6 árum verið veitt 13 milljörðum á fjárlögum til landbúnaðarins, eða 440 þús. kr. á ári frá skattgreiðendum á hvert einasta bú í landinu, sem að stórum hluta rennur til milliliðanna í landbúnaði.

En kannske hefur íhaldið hvorki þor né þrek frekar en Framsókn til að gera þá kerfisbreytingu sem þarf í efnahagslífinu, í sjóðakerfinu, í atvinnumálum, í fjárfestingar-, peninga- eða ríkisfjármálum, sem eru forsendur fyrir því að skapa betri lífskjör í landinu. Stjórnarflokkarnir geta fyrst og fremst þakkað launafólki að mistök þeirra og kjarkleysi hafi ekki kollsiglt öllu efnahagslífi. Fórnir þess hafa verið miklar.

Skv. útreikningum Hagstofu voru heildarmánaðarútgjöld vísitölufjölskyldunnar í febrúar 1983 rúmar 30 þús. kr., en í apríl í ár voru þau 50 þús. kr., eða 66.13% hækkun. Á sama 13 mánaða tímabili hafa launin hækkað um tæp 39%. Skv. þessu eru launþegar 90 klst. lengur á mánuði að vinna sér inn fyrir mánaðarútgjöldum vísitölufjölskyldunnar en fyrir rúmu ári síðan. Það er hvorki afrek né stórmannlegt hjá ríkisstj. að ná verðbólgunni niður með þessum hætti, að gera landið að láglaunasvæði þannig að launakjör verkafólks á Íslandi eru nú á borð við það sem verst gerist í hinum vestræna heimi. Og ekki nóg með það heldur er verðlag 30–40% hærra en í okkar nágrannalöndum. Í þessu landi, sem býr yfir svo miklum þjóðarauði og ótal tækifærum til öryggis og góðra lífskjara fyrir alla landsmenn, er ekkert ofsagt þegar talað er um tvær þjóðir í einu landi. Svo mikið er óréttlætið í tekjuskiptingunni og misskiptingu lífsgæða í landinu.

Á árinu 1982 voru 64% allra ársverka í öllum okkar framleiðslu- og gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum í höndum ófaglærðs verkafólks. Það er hart til þess að vita að þjóð, sem sett er á bekk með sex ríkustu þjóðum heims miðað við framleiðslu á íbúa, þurfi að búa svo að þessu fólki að endar nái ekki saman fyrir nauðþurftum frá degi til dags meðan aðrir lifa praktuglega og oft hrópandi ósamræmi milli lifnaðarhátta þess og þess sem greitt er í sameiginlega sjóði landsmanna.

Ungt fólk hefur nú þúsundum saman hafnað því að verða þrælar þeirrar ómanneskjulegu húsnæðisstefnu sem hér hefur verið rekin og treður á öllu eðlilegu fjölskyldulífi. En íhaldið hefur nú kastað grímunni og sýnt sitt rétta andlit þegar það beygði félmrh. til hlýðni og fékk hann til að kokgleypa öll loforðin sem hann gaf þúsundum af ungu fólki sem á hann treysti um rétt til félagslegra íbúðabygginga. Skiptimyntin var mangósopinn sem fjmrh. var látinn sporðrenna. Félmrh. er aumkunarverður í þessu máli. En ég spyr: Er það virkilega í anda sjálfstæðisstefnunnar að hneppa fólk í fjötra eignastefnunnar þegar það biður aðeins um aukið valfrelsi í húsnæðismálum, frelsi til að lifa eðlilegu fjölskyldulífi og búa við öryggi í húsnæðismálum?

Loforð ríkisstj. í húsnæðismálum eru skýjaborgir einar því skv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar þurfa húsnæðissjóðirnir á að halda á næstu árum 5 þús. millj. kr. í lántöku frá lífeyrissjóðunum eða tvisvar sinnum allt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í landinu miðað við það litla framlag sem ríkissjóður leggur til þessara mála.

Félmrh. gerir lítið úr aðvörunum Alþfl. í þessu efni, fellir till. hans um fasta tekjustofna til að tryggja uppbyggingu og viðgang sjóðanna og vísar bara í sífellu á að hann hafi hækkað lánshlutfallið til húsnæðismála á s. l. ári. En hvaða afleiðingar hefur það haft? Jú, 30% samdrátt eða fækkun um 327 nýbyggingarlán milli ára þar sem ekki hefur samhliða verið séð fyrir nægu fjármagni til Byggingarsjóðs ríkisins.

En verri er staðan í félagslegum íbúðabyggingum. Ekki er hægt að veita lán til einnar einustu nýtrar íbúðar í verkamannabústöðum á yfirstandandi ári þrátt fyrir ákvæði í húsnæðislöggjöfinni um að byggðar séu 6–700 íbúðir í verkamannabústöðum á ári. Auk þess verður að fresta fram á næsta ár 25% af þeim lánum til félagslegra íbúðabygginga sem samþykkt voru á síðasta ári. Till. Alþfl. um að breyta þessari stöðu voru felldar við afgreiðslu á húsnæðisfrv. félmrh.

Góðir hlustendur. Verðbólgan er á nýjan leik að komast á skrið sem er staðfesting þess að rætur vandans liggja ekki hjá launafólki. Rætur vandans liggja fyrst og fremst hjá kjarklausum stjórnmálamönnum sem þora ekki að takast á við vandann. Ríkisstj. Steingríms Hermannssonar, sem nú er að glutra niður þeim ávinningi sem fórnir launþega hafa skilað, á þegar að segja af sér.

Alþfl. hefur hvað eftir annað á undanförnum árum hafnað þeirri stjórnarstefnu sem rekin hefur verið hér á landi. Allar hans spár um hvert stefndi að óbreyttu hafa reynst á rökum reistar. Alþfl. krefst endurmats á störfum láglaunahópanna í þjóðfélaginu og ábyrgrar stefnu í húsnæðismálum sem gefur ungu fólki öryggi í húsnæðismálum án óbærilegrar greiðslubyrði. Alþfl. krefst nýsköpunar í atvinnulífinu, uppskurðar á spilltu sjóðakerfi, kerfisbreytingar í stjórnkerfinu og breyttrar fjárfestingarstefnu. Þessi atriði eru forsendan fyrir betri lífskjörum og framförum í þessu landi. Á þeim grundvelli vill Alþfl. taka höndum saman við umbótaöfl í landinu um endurreisn efnahagslífs og stjórn landsins.