15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5921 í B-deild Alþingistíðinda. (5262)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það var á vordögum fyrir nær 12 mánuðum síðan að afloknum kosningum að endurnýjuð var hin illræmda og þjóðinni dýrkeypta helmingaskiptaregla Sjálfstfl. og Framsfl. í íslenskum stjórnmálum. Öllum var ljóst að mikil ólga og óánægja var ríkjandi fyrst og fremst meðal yngri manna í Sjálfstfl. með þetta stjórnarsamstarf. En eins og fyrri daginn voru það gömlu kerfisöflin sem ferðinni réðu innan Sjálfstfl. og auðvitað var Framsfl. til reiðu nú eins og áður.

Engan skal undra þótt afturhaldsöflin í þessum tveimur flokkum nái saman til að viðhalda og verja hið rótgróna samtryggingarkerfi þeirra því segja má að líftaug þessara tveggja flokka sé að viðhalda hinu rotna og spillta þjóðfélagskerfi sem þeir hafa átt hvað mestan þátt í að skapa sér og sínum til framdráttar en til ófarnaðar þjóðarheildinni.

Nægir þar að nefna nýjasta dæmið en þó hvað ljótasta, þ. e. mangósopamálið, þar sem ekki verður annað séð en ríkisstj. hafi sameinast um lögbrot og Sjálfstfl. þannig kyngt öllum stóryrðum um frjálsræði og réttlæti. Svo mikill er vesaldómurinn hjá Sjálfstfl. með hinn stalllausa nýja formann sinn að varaformaður flokksins gefur þá yfirlýsingu að þm. Sjálfstfl. muni við næstu kosningar vera með allt niður um sig eftir viðskiptin við Framsfl. og SÍS. Fýsileg sjón það fyrir kjósendur.

Má ég minna ykkur, góðir hlustendur, á hin fögru fyrirheit og fjálglegu yfirlýsingar Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar um gerbreytta stefnu í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins, um báknið burt, uppstokkun sjóða og fjárfestingakerfisins, afnám gildandi verðmyndunarkerfis í landbúnaði, leggja niður Framkvæmdastofnun ríkisins og svo mætti lengi telja. Engu af þessu hefur Sjálfstfl. uppburði í sér til að koma í framkvæmd í samstarfinu við Framsfl. Í hverju málinu á fætur öðru lyppast Sjálfstfl. niður, gömlu kerfiskarlarnir ráða þar ferðinni. Eins og blóðgjöf getur verið sjúklingi lífgjöf, eins er óbreytt og spillt ástand efnahagsmála og valdaaðstaða sú lífsnæring sem þessir flokkar lifa á. Þetta undirstrikaði hv. þm. Þorsteinn Pálsson áðan þegar hann sagði: „Reyna þarf til þrautar að styrkja núverandi stjórnarsamstarf áður en leitað er til annarra aðila.“

Engin dul skal á það dregin að ekki var fýsilegt um að litast í efnahagsmálum þegar núverandi ríkisstj. tók við. Óstjórn undangenginna ára hafði leitt til slíkrar óðaverðbólgu að efnahagslegt hrun blasti við. Svo svart sýndist sumum ástandið að þeir boðuðu neyðaráætlun til nokkurra ára svo komast mætti út úr þeim efnahagslegu ógöngum og þrengingum sem fyrrv. ríkisstj. hafði komið þjóðinni í. Í ljósi þessa hefði hver sú ríkisstj., sem við hefði tekið að loknum síðustu kosningum, orðið að grípa til róttækra aðgerða í efnahagsmálum, undan því varð ekki vikist.

Núv. ríkisstj. boðaði og framkvæmdi einhverjar hörðustu efnahagsaðgerðir sem um getur í garð launafólks. Gífurleg kjaraskerðing hefur átt sér stað hjá launafólki í tíð núv. ríkisstj., kjaraskerðing sem hefur orðið þess valdandi að Ísland er nú orðið eitt mesta láglaunasvæði sem um getur og hundruð heimila í landinu eru komin á vonarvöl. Sannleikurinn er sá að launafólk hefur tekið á sig, og þá sér í lagi láglaunafólk, miklu meiri kjaraskerðingu en réttlætanlegt er og það getur borið. En það er ekkert nýtt að launafólk sýni í verki að það er reiðubúið að taka sinn skerf þeirra byrða sem þarf til að létta oki óðaverðbólgu af íslensku þjóðfélagi. En hefur þess verið gætt að aðrir þjóðfélagsþegnar bæru sinn skerf byrðanna? Nei, enn sem komið er hefur ríkisstj. einvörðungu skert launin hjá hinum almenna launamanni. Þetta undirstrikaði Steingrímur Hermannsson er hann sagði: Árangurinn í baráttunni við verðbólguna byggist fyrst og fremst á markvissri stefnu í launamálum. — Þar hafið þið, góðir hlustendur, svarið.

Öðrum hefur verið hlíft en nú er röðin komin að þeim. Enginn mælir gegn því að verðbólga hefur lækkað, en sú lækkun hefur einvörðungu verið fengin með kauplækkun. Ríkisstj. segir heimilum að spara en eykur sjálf eyðsluna í ráðuneytum. Ráðh. segja launafólki að herða sultarólina en kaupa sjálfir rándýra ráðherrabíla á kostnað almennings. Ráðh. og raunar hið opinbera sem heild stórauka kostnað vegna flandurs erlendis, en forsrh. segir launafólki að una glöðu við vellinginn sinn heima.

Á sama tíma og ríkisstj. skerðir stöðu þeirra, sem hjálparþurfi eru, lækkar hún skatta á bönkum. Á sama tíma og ríkisstj. skerðir framlög til félagslegrar þjónustu og uppbyggingar í heilbrigðiskerfinu neitar hún að stöðva byggingu seðlabankahallarinnar. Á sama tíma og ríkisstj. eykur skattbyrði launafólks léttir hún sköttum af versluninni. Í því sambandi er rétt að minna á orð fjmrh. þess efnis að verslunin hafi engan veginn tekið sinn skerf af byrðum. Engum dettur í hug að fjmrh. núv. segi of mikið í þeim efnum.

Ég sagði áðan að launafólk hefði til þessa unað kjaraskerðingu í trausti þess að raunhæfur árangur næðist í baráttunni við verðbólguna og aðrir tækju sinn skerf byrðanna. Í ljósi fenginnar reynslu hlýtur launafólk að endurmeta afstöðu sína. Verkalýðshreyfingin hlýtur nú að krefjast þess af ríkisstj. að hún fari sjálf að herða sultarólina og sýna í verki hjá sjálfri sér það sem hún hefur krafist af launafólki og að aðrir þeir sem sloppið hafa verði nú látnir bera álíka byrðar og launafólki er gert að bera. Verði það ekki gert hefur ríkisstj. fyrirgert öllum rétti til biðlundar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.

Góðir hlustendur. Sé litið yfir þetta fyrsta ár valdaferils ríkisstj. ber eftirfarandi hæst: Afnám samningsréttar verkalýðshreyfingarinnar. Minnkun verðbólgu einvörðungu á kostnað launa. Meiri tilfærsla á fjármagni en um getur áður frá launafólki til atvinnurekstrar og milliliða. Meiri svik en nokkur önnur ríkisstj. hefur framið gagnvart því fólki sem býr á hinum svokölluðu köldu svæðum og ver yfir helmingi dagvinnutekna sinna í kostnað við upphitun íbúðarhúsa. Meira valdaafsal frá Alþingi til framkvæmdavaldsins en nokkur dæmi eru um áður og er þar átt við kvótakerfið sem veldur þungum búsifjum á þeim landssvæðum sem síst skyldi. Aukin skattbyrði á launafólki á sama tíma og létt er sköttum af atvinnurekstri og bönkum. Fleira mætti nefna en hér skal staðar numið.

Herra forseti. Allt bendir til þess að ríkisstj. ætli sér að láta Alþingi ljúka störfum nú í þessari viku og losa sig þannig við þingið. Hvers vegna? spyrja menn. Svarið er: Fjöldi ráðh. þarf erlendis í næstu viku, þinghaldi verður að ljúka. Það er umhugsunarefni í lýðræðis- og þingræðislandi þegar hugsunarháttur ráðh. og ríkisstj. er orðinn sá að láta löggjafarsamkomuna sitja sem styst að störfum svo viðkomandi ríkisstj. geti stjórnað af eigin vild án þess að spyrja um vilja Alþingis. Slíkt hugarfar, slík vinnubrögð eru angi af einræðistilhneigingu sem ber að varast og koma í veg fyrir.

Að lokum þetta: Launafólk á Íslandi hefur sýnt að það er reiðubúið til samstarfs og samvinnu við hverja þá ríkisstj. sem af heilindum og réttsýni vill breyta íslensku þjóðfélagi úr óðaverðbólgu og ranglætisþjóðfélagi í réttlætisþjóðfélag sem hefur að leiðarljósi samhjálp og réttir hlut lítilmagnans og þeirra sem verst eru settir með tilfærslu frá þeim sem betur mega sín. Hver sú ríkisstj., sem hefði vilja og kjark til að stjórna með þessi markmið að leiðarljósi, fengi stuðning fólksins í landinu. Íslenska þjóðin hefur því miður ekki borið gæfu til að koma á slíku stjórnarfari.

Alþfl. er nú sem fyrr reiðubúinn til að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma á stjórnarfari sem hefur að leiðarljósi jöfnuð, réttlæti, samhjálp. Alþfl. biður um ykkar stuðning í baráttunni fyrir þjóðfélagi sem byggir á þeim hugsjónum. — Lifið heil.