15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5936 í B-deild Alþingistíðinda. (5269)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þorsteinn Pálsson, 1. þm. Suðurl. og formaður Sjálfstfl., flutti hér í upphafi þessa fundar mjög sérkennilega ræðu. Hann skýrði í upphafi frá helsta afreki sínu hér á þingi í vetur, þeirri skrautfjöður sem hann vildi fyrsta nefna af athöfnum síns fyrsta þingvetrar, að koma húsnæðissamvinnufélögum á borð við Búseta út úr frv. félmrh. Síðan kom skýrsla þessa þm. sem nefndur hefur verið blaðafulltrúi ríkisstj. Og hvað fólst nú í henni? Nýr stjórnarsáttmáli, enn þá harðari leiftursókn gegn lífskjörum almennings. Honum þykir engan veginn nóg að gert og blaðafulltrúann klæjar í lófana að komast inn í stjórnina. Hann flutti okkur hér framboðsræðu ráðherraefnis á biðilsbuxunum.

Fjmrh. sagði hér áðan að menn köstuðu steinum úr glerhúsi. En ég vil spyrja: Hvernig er umgjörðin utan um þann ráðh. sem stærir sig af því að vilja ekki leggja skatta á almenning um leið og hann leggur tveggja milljarða skatta á börnin þeirra í formi erlendra lántaka? Afleiðingar þeirrar háskalegu stjórnarstefnu sem nú er fylgt í landinu eru uggvænlegar á fjölmörgum sviðum. Sérstakar áhyggjur vekja alvarlegar horfur hvað atvinnuöryggi varðar. Þegar á fyrsta vetri valdatíma þessarar ríkisstj. mistókst henni ætlunarverk sitt númer eitt eins og það er skilgreint í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 26. maí árið 1983. Þar segir á bls. 3, með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur því sett fyrstu aðgerðum sínum í efnahagsmálum eftirfarandi markmið: Atvinnuöryggi.“ — Ég endurtek: Atvinnuöryggi.

Þegar í haust er leið fór atvinnuleysi vaxandi og í allan vetur hefur það verið mun meira en þekkst hefur um árabil. Sérstaklega er ástandið alvarlegt á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Þannig hefur hlutfall atvinnulausra á Akureyri undanfarið verið 4–5% og 6–8% meðal þess unga fólks sem þar er úti á vinnumarkaðnum. Þarf reyndar engan að undra, því þær undirstöðugreinar sem eru uppistaðan í atvinnulífi úti á landsbyggðinni hafa lítillar samúðar notið hjá hæstv. ríkisstj., enda tæpast von, því í landbúnaði, útgerð og öðrum undirstöðuframleiðslugreinum er lítið orðið um þá riddara einkagróðans sem eru hin útvalda stétt þessarar ríkisstj.

Staða landsbyggðarinnar í heild er reyndar ærið áhyggjuefni þeim sem meta jafnvægi í byggð landsins meir en útlendar hagfræðikenningar. Nýjustu tölur benda til verulegs fólksflótta frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins, svo að nam fast að 1000 manns á síðasta ári. Ofan á þessar tölur er svo hæstv. ríkisstj. að setja af stað hverja stórframkvæmdina á fætur annarri á suðvesturhorninu. Nægir að nefna flugstöðvargróðurhúsið á Keflavíkurflugvelli, Helguvík og ýmsar aðrar hermangsframkvæmdir og áform um tvöföldun átversins í Straumsvík í þessu sambandi.

Þá blasir það og við að ríkisstj. hefur koðnað á öllum aðgerðum til að leiðrétta það mikla misrétti sem ríkir í landinu t. d. hvað kyndingarkostnað varðar. Landsbyggðin ber æ þyngri hluta af meðlagsgreiðslum til stóriðjunnar þrátt fyrir menn hinna ofurmannlegu afreka. Og yfirlýsingaglaður iðnrh., sem kippa ættaði öllum samskiptum við Alusuisse í liðinn á augabragði, situr nú gneypur og horfir í hné sér.

Samtímis þessu er mikill samdráttur í flestum greinum úti á landi. Fjárfestingar í landbúnaði og sjávarútvegi eru í lágmarki vegna ástandsins í þessum greinum. Byggingariðnaður og ýmis þjónusta úti á landsbyggðinni hefur dregist gífurlega saman. Það verður því ekki annað séð en stefni í nýja holskeflu byggðaröskunar í ríkisstjórnartíð Steingríms Hermannssonar haldi svo sem horfir. Slíkt er hvorugs hagur, hvorki landsbyggðarinnar né Stór-Reykjavíkursvæðisins, og allra síst er það hagkvæmt fyrir þjóðarheildina. Svokallaðar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. til stuðnings undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar hafa lítið reynst nema innantómar yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. eiga ætíð nóg af. Afgangurinn hefur verið kák og vitleysa. Hvar eru t. d. þær úrbætur á lausaskuldavanda útgerðarinnar staddar sem sjútvrh. boðaði í tengslum við ákvörðun fiskverðs á sínum tíma? Þær eru sofnaðar í nefnd og hafa það náðugt að sögn. Og ráðstafanir ríkisstj. hingað til í sambandi við rekstrarvanda sjávarútvegsins hafa aðallega beinst að því að ganga á hlut sjómanna í bókstaflegri merkingu, þeirrar stéttar í landinu sem að undanskildum bændum hefur sennilega tekið á sig mesta kjaraskerðingu af öllum undanfarið.

Steingrímur Hermannsson forsrh. heldur gjarnan fjálgar ræður hér í þingsölum eða norður á Akureyri, ef hann á þar leið um, um það að nú skuli sækja fram á sviði háþróaðs iðnaðar og tækni og nýta menntun og hugvit vaxandi kynslóða á sama tíma og ríkisstj. undir forustu formanns Framsfl., þess sama og stórræðurnar flytur á miðstjórnarfundunum, er að þjarma með ýmsu móti að menntakerfi landsins. Hæst ber þar auðvitað aðförina að Lánasjóði ísl. námsmanna þar sem ríkisstj. rýfur fyrirvaralaust gerða samninga og stefnir afkomu fjölda námsmanna og fjölskyldna þeirra í algera tvísýnu og vegur að jafnrétti til náms. Það er óhjákvæmilegt að ráðleggja hæstv. forsrh. eindregið að finna sér eitthvað annað til að gaspra um á stórfundum framsóknarmanna í framtíðinni, ef hann vill láta taka mark á sér, maðurinn.

Þá er ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri aðför að sjálfstæði og menningu íslensku þjóðarinnar sem þessi ríkisstj. beitti sér fyrir í formi gífurlegra hernaðarframkvæmda á Miðnesheiði og í Helguvík. Þar er verið að reisa höfn og gífurlega eldsneytisbirgðastöð. Margháttuð tæknivæðing og koma nýrra flugvéla, áform um sprengjuhelda neðanjarðarstjórnstöð o. s. frv. eru allt liðir í vígvæðingu Bandaríkjamanna á Norðurhöfum og með því að leyfa þessa uppbyggingu er verið að margvefja Ísland inn í kjarnorkuvígbúnaðarnet Bandaríkjanna. Hæstv. utanrrh. kemur síðan bláeygur eins og smáskáti og talar um hin friðelskandi varnarmannvirki eins og þau væru helgimyndir í kirkju. Nú þegar milljónir manna víða um heim rísa upp gegn þessari vitfirringu velur hæstv. utanrrh. sér tímann og boðar nú hernaðarmannvirki. Já, helst eitt í hvern fjórðung. Maður hefur það á tilfinningunni að þessum mönnum líði ekki vel fyrr en þeir koma kjarnorkusprengju undir hvers manns rúm.

Herra forseti. Það kann við fyrstu sýn að virðast undarlegt að þessi ríkisstj. skuli af fullkomnu tillitsleysi traðka á fjölmennum hópum okkar þjóðfélags, svo sem almennum launþegum, sjómönnum, bændum, fötluðum, námsmönnum og svo mætti lengi telja, en ekki þora að hrófla við fremur fámennum hópum fjármagnseigenda. En á því er sú einfalda skýring að þetta er ríkisstj. hinna síðasttöldu. Þessi ríkisstj. var mynduð til að standa vörð um hagsmuni gróðaaflanna í þessu landi, þeirra sem mata krókinn á veru erlends hers í landinu, á samskiptum við útlenda auðhringa, á braski og milliliðastarfsemi. Þessi ríkisstj. er að gera Ísland að velferðarríki fjármagnsaflanna, að Paradís auðmagnsins, en að láglaunasvæði fyrir vinnandi alþýðu. Framsfl. er genginn í heiðnaberg frjálshyggjunnar og illindin innan ríkisstj. eru ekki um stefnur í efnahagsmálum. Þar eru allir sammála. Ágreiningsefnin eru um mangósopa og önnur slík stórmál. Leiftursókn frjálshyggjunnar er nú framkvæmd á Íslandi undir forustu Framsfl. Forsrh. þessarar ríkisstj. er sami maðurinn og einu sinni sagði: „Allt er betra en íhaldið“, og barðist gegn leiftursókninni. Það fólk sem studdi framsókn í baráttunni gegn hinni kaldrifjuðu leiftursókn og horfir síðan upp á framferði þeirra þessa dagana hlýtur að hugsa þeim þegjandi þörfina og lái þeim hver sem vill. Félagshyggjufólk í landinu þarf að átta sig á því að í þessari ríkisstj. hafa verstu afturhaldsöfl landsins læst saman járnbryddum klóm. Íslenskt launafólk þarf að segja þessum öflum á þann eina veg sem skilst að við viljum ekki ofurselja Ísland frumskógarlögmálum fjármagnsins, að við viljum hér þjóðfélag friðar, samhjálpar og jafnréttis. Launamenn á Íslandi, verkamenn og sjómenn, bændur og neytendur, námsmenn og kennarar, einyrkjar, félagshyggjufólk og samvinnumenn þurfa að sameinast gegn ríkisstj. fjármagnsaflanna, auðhringanna og hermangsins. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Ég þakka þeim sem hlýddu og óska ykkur, landar mínir, gleðilegs sumars.