16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6026 í B-deild Alþingistíðinda. (5392)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Það er reyndar ekki mikið gustukaverk að lengja þessar umr. sem hér hafa átt sér stað um frv. um breyt. á lögum um Hitaveitu Suðurnesja. En vegna ummæla og andófs, jafnvel mætti hugsanlega kalla málþóf, 5. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar get ég ekki látið hjá liða að gera örfáar athugasemdir við hans málflutning. Hann ber fram brtt. á sérstöku þskj. við frv., en nál. var hins vegar afgreitt samhljóða þar sem hann skrifaði þó undir með fyrirvara.

Hér er raunverulega ekki nema um tvö efnisatriði að ræða. Í fyrsta lagi hvort í frv. eigi að standa óbreytt það sem fram kemur í 2. gr., að Hitaveitu Suðurnesja skuli heimilt að virkja jarðhita, reisa orkuver og aðveitur og orkudreifikerfi og einnig, og það er c-liðurinn umdeildi, hvers konar önnur nýting jarðgufu og heits jarðvatns. Það hafa verið látin falla allmörg orð um að hér væri farið inn á hættulega braut og hér ætti einokunarfyrirtæki hlut að máli. Mér er spurn hvort það sé eitthvert einsdæmi að fyrirtæki sem Hitaveita Suðurnesja og orkubú séu „einokunarfyrirtæki“. Ég hélt að það þyrfti ekki að núa þessu fyrirtæki því sérstaklega um nasir að hér væri um einokunarfyrirtæki að ræða og skil raunar alls ekki slíkan málflutning. En meginatriðið er hér vitanlega það að hér er spurningin um hvort orkubúið eða Hitaveita Suðurnesja á að vera í stakk búin til að nýta þau náttúrugæði sem frv. til l., lagabreytingin, kemur til með að veita henni yfirráð yfir, að binda það ekki eingöngu við rafmagnsframleiðslu og hitaveituþjónustu.

Ef þeim sveitarfélögum sem hlut eiga að máli, — það eru öll sveitarfélögin sem eru eigendur Hitaveitu Suðurnesja, — sýnist skynsamlegt að nýta orkuna á annan hátt en hér er tekið fram í fyrri tveimur tölul., jafnvel til fiskeldis, til heilsuræktarstöðvar, til ylræktar eða einhvers annars slíks, á það vitanlega að vera heimilt því fyrirtæki sem þarna á hlut að máli og er sameign sveitarfélaganna. Það er vegna þess að það getur enginn þm. hér sagt þessum sveitarfélögum fyrir um hvað er skynsamlegt að gera í þessu efni og hvað er ekki skynsamlegt að gera. Það eiga þau að vera sjálfráð um og það er eiginlega furðuleg framkoma að menn skuli ætla sér að taka þá stefnu í málinu.

Því hefur verið haldið fram þessari afstöðu til skýringar og réttlætingar að hér væri um stórkostlegt áhættufyrirtæki að ræða, farið út á hálan ís að leyfa Orkubúi Suðurnesja að leggja sína orku til annarra nota. Það er í sjálfu sér ákaflega undarlegt að bera þá röksemd á borð vegna þess að hér er vitanlega, eins og ég sagði, um hagsmunamál þessara sveitarfélaga að ræða sem þau eiga að ráða sjálf.

Ekki er nokkur ástæða til þess að ætla að þau fari að spila eitthvert fjárhættuspil með gufuorkuna sem þarna er um að ræða, heldur þvert á móti nýta hana til hagsbóta fyrir þá aðila sem þarna eiga hlut að máli til að koma upp nýjum atvinnugreinum, nýjum iðnaði, nýjum fyrirtækjum á Suðurnesjum einmitt á grundvelli þessarar miklu orku, en hluti hennar blæs nú ónýttur út í loftið og hefur gert alllengi eins og menn vita.

Það er búið að vitna hér mikið í ummæli Orkustofnunar og raunar hefur iðnrh. hæstv. minnst á það og svarað því. Það er eins og það hafi af himnum ofan dottið einhver heilagur sannleikur þó að bréf berist frá Orkustofnun. Vitanlega er það alveg rétt að Orkustofnun er ráðgjafi ríkisstj. í orkumálum, en þar með punktur og basta. Það eru ekki Orkustofnun eða orkumálastjóri sem eiga að segja alþm. fyrir verkum um það hvernig eigi að haga lagafrv. um orkumál. Hann á að veita ráð en það eru alþm. og ríkisstj. vitanlega sem síðan eiga að taka ákvarðanir. Það má gjarnan hlusta á ráð sérfræðinga, en það á ekki að fara eftir þeim ef löggjafarsamkunda þjóðarinnar telur þau heimskuleg og óskynsamleg. Þess vegna gegnir það furðu að vera að gera þetta álit Orkustofnunar að einhverri biblíu í þessum málum sem ekki megi víkja stafkrók frá og er með mestu endemum.

Í öðru lagi hefur það verið gagnrýnt að frv. geri ráð fyrir að orkubúið fái heimild til að selja raforku til Keflavíkurflugvallar. Mér þykir það hins vegar með endemum ef á að koma í veg fyrir að orkubú sem staðsett er í tilteknum landshluta fái ekki heimild til að selja orku til notenda sem staðsettir eru á því svæði. En það er einmitt það sem athugasemdir hv. þm. ganga út á. Hann vill koma í veg fyrir það. Það er rökræn skynsemi að baki því, og væri fjarstæða að koma í veg fyrir það, að orkubúið, Hitaveita Suðurnesja, fengi heimild til þess að selja orku til Keflavíkurflugvallar sem liggur á þessu svæði.

Annað væri vitanlega fráleitt, ekki síst með það í huga að hér er um allarðvænlega starfsemi að ræða, en Suðurnesingar hafa búið við eitt hæsta raforkuverð á landinu og má gjarnan líta á málið einmitt í því ljósi.

Hér væri um hið mesta óréttlæti að ræða ef ætti að taka undan sölu til Keflavíkurflugvallar og Keflavíkursvæðið þegar um er að ræða að gera hér þessar skipulagsbreytingar. Það væri með öllu óafsakanlegt og óréttlætanlegt gagnvart þeim sveitarfélögum sem að þessu fyrirtæki koma til með að standa í breyttri mynd.