16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6052 í B-deild Alþingistíðinda. (5452)

136. mál, hafnalög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með að hv. samgn. skuli ekki hafa tekið til athugunar og gert brtt. varðandi 12. gr. frv. varðandi möguleika hafnarsjóða til innheimtu á hafnargjöldum. Eins og ég vakti athygli á við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild var gerð í hv. Ed. breyting frá frv. eins og það var lagt fyrir upphaflega til verulegrar veikingar, að mínu mati, á innheimtumöguleikum hafnarsjóða á hafnargjöldum, vörugjöldum af útflutningi og aflagjaldi. Upphaflega gerði frv. ráð fyrir að verði misbrestur á greiðslu aflagjalds skal viðskiptabanki fiskkaupanda, ef óskað er, standa hafnarsjóði skil á greiðslu gjaldsins, er hann tekur veð í viðkomandi framleiðslu. Enn fremur skal útflytjandi eða banki, sem greiðir framleiðanda söluverð varnings, greiða hafnarsjóði áfallið en ógreitt vörugjald af viðkomandi varningi. Þessi ákvæði voru burt felld og einnig að hafnarsjóður hafi haldsrétt í varningnum uns gjaldið er greitt, þ. e. vörugjald af útflutningi og aflagjald. Ég tel þetta miður farið. Ég tel að hafnarsjóðum hefði ekkert veitt af því að hafa þessi ákvæði inni til að tryggja skilvíslegar greiðslur á þessum gjöldum og mér finnst það mjög miður að hv. samgn. skuli ekki hafa tekið tillit til ábendinga um þetta atriði, en ég hygg að hæstv. ráðh. hafi síst haft á móti því að þetta yrði fært til fyrra horfs frá þeim breytingum sem hv. Ed. gerði á frv.