17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6145 í B-deild Alþingistíðinda. (5518)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess fyrir mig að setja hér á löng ræðuhöld að þessu sinni, en ég vil þó fara um þetta mikilsverða mál nokkrum orðum. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 911 hef ég ritað undir það með fyrirvara. Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel það mjög æskilegt hvernig sem meiri hl. og minni hl. er skipað hér á Alþingi, að aðilar geti, eins og í þessu tilfelli fjvn., náð saman í meginatriðum í vinnslu málsins, þó að menn greini að sjálfsögðu á að einhverju eða kannske verulegu leyti um einhver efnisatriði, varðandi fjáröflun og annað slíkt. Það hefur um nokkur ár, það ég best veit, tekist samkomulag um skiptingu fjárins í þessu tilfelli og ég tel það mjög af hinu góða að menn a. m. k. reyni að teygja sig eins langt og mögulegt er til samkomulags um svo mikilsverðan þátt eins og vegáætlun, vegaframkvæmdir, eru fyrir þjóðarheildina.

Ég vil aðeins í upphafi minna á það að vegáætlun var ekki afgreidd á síðasta þingi. Og án þess að það skipti meginmáli, úr því sem komið er, þá held ég að rétt sé að minna á það hverjir voru þess valdandi að það náði ekki fram að ganga. Það var auðvitað vegna sérstakrar andstöðu þáv. stjórnarandstöðu Sjálfstfl. sem vegáætlun var ekki afgreidd á Alþingi fyrir árið 1983. En eins og ég segi, það skiptir ekki meginmáli. Ég hygg að mál öll hafi gengið fram með þokkalegum hætti þrátt fyrir það. Það getur hins vegar ekki talist til fyrirmyndar að Alþingi afgreiði ekki svo mikilsvert mál eins og vegáætlun er hverju sinni, þó að svo þokkalega tækist til að málið fengi farsæla lausn að flestra dómi á síðasta ári.

Eins og síðasti ræðumaður tók fram byggist minn fyrirvari á svipuðum forsendum og hann gerði hér grein fyrir. Auðvitað hefði það verið æskilegt, og það var stefnt að því af hálfu allra flokka við samþykkt langtímaáætlunar um vegagerð á síðasta þingi, að ná því fjármagni, því prósentufjármagni sem sú langtímaáætlun byggði á. Vissulega hefði það verið æskilegast. En auðvitað getur það skeikað til eða frá, eftir stjórnarfari hverju sinni ekki síst, og aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum hafa m. a. haft þau áhrif að nú er þetta hlutfall eilítið lægra, en gert var ráð fyrir. Það er auðvitað atriði sem alltaf er hægt að deila um, hver skaðvaldurinn sé í þeim efnum, en auðvitað ræður ríkjandi meiri hl. hverju sinni hvernig á því máli er haldið. Ég vil hins vegar undirstrika það sérstaklega, að ég tel það mikils virði að samkomulag náðist, víðtækt samkomulag náðist hér á Alþingi um langtímaáætlun í vegagerð. Það er vissulega mjög mikils virði að reynt sé af fremsta megni að standa við þann grundvöll sem þar var lagður að vegagerð og vegaframkvæmdum á næstu árum. Ég held að þetta sé kannske eitt mikilvægasta málið sem skiptir sköpum í hinum ýmsu byggðarlögum. Ekki hvað síst á það við varðandi hinar dreifðu byggðir víðs vegar um landið, og því er nauðsynlegt að hægt sé að standa myndarlega að framkvæmdum og fjármagnsöflun til þessa þáttar, þáttar sem að mínu viti, og ég hygg að um það séu vel flestir ef ekki allir sammála, er hvað arðbærasti framkvæmdaþátturinn í landinu eins og mál standa.

Eins og hér hefur komið fram þá hefur fjvn. staðið að skiptingu þessa fjármagns. Það var búið í marsmánuði af hálfu þingmannahópa að ganga frá skiptingu á því fjármagni sem þá var gert ráð fyrir að yrði til ráðstöfunar í þessum efnum. Það mál hefur síðan legið alllengi vegna þeirrar ákvörðunar hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi að skera niður í framkvæmdaþáttum. Eins og formaður fjvn. og frsm. gerði hér grein fyrir áðan, þá er það kannske ekki ýkja mikil upphæð í öllu þessu sem þar er um að ræða. En eigi að síður kemur það kannske til með að breyta einhverju, kannske verulegu sums staðar frá því sem gert var ráð fyrir. Um það tjóir að sjálfsögðu ekki að deila. Það er ákveðið af þeim sem hér ráða ferðinni og við því er ekkert að gera og minni hl. hefur tekið þátt í að ákvarða, eins og hér hefur komið fram, með hverjum hætti skuli með farið. Ég vil þó undirstrika það að ég tei mjög æskilegt að um þetta náist samstaða í þingmannahópunum, þannig að málið verði ekki í upplausn, og ég vænti þess og treysti því raunar, þó að sumum hverjum finnist hér nokkurt fjármagn um að ræða í niðurskurði, að menn nái saman um að ganga þannig frá þessu máli að þokkaleg samstaða fáist um það.

Hér er komið inn á Ó-vegamálið. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði, að í upphafi var ráð fyrir því gert að til þeirra framkvæmda yrði útvegað sérstakt fjármagn, þannig að það kæmi ekki niður á öðrum framkvæmdaþáttum. Raunin hefur orðið önnur. Til þess að liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður og ekki skal ég fara að vekja umr. upp um það hér, en meiningin var alltaf sú að til þessara framkvæmda yrði útvegað sérstakt fjármagn sem ekki hefði áhrif til skerðingar á framkvæmdir í öðrum þáttum.

Þá hefur hér aðeins verið vikið að útboðsþættinum í þessum málefnum. Ég vil taka það fram að ég hef verið hlynntur útboðum í þessum framkvæmdum sem og öðrum framkvæmdum á vegum hins opinbera. En auðvitað eru á því gallar, það er augljóst, og ég tek undir það sem hér hefur komið fram að vissulega er æskilegt að reynt sé að halda á þeim málum þannig að sem minnst skerðist hlutur heimaaðila. Ekki síst er áríðandi að reynt sé að líta til þeirra átta í því atvinnuástandi sem nú er í landinu. Mér er hins vegar ljóst að það er erfiðleikum háð að sameina þetta tvennt. Ef á annað borð er um útboð að ræða sitja allir jafnir, eða a. m. k. skulum við gera ráð fyrir því að allir sitji við sama borð í þeim efnum. En vissulega þarf í ljósi fenginnar reynslu að huga að ýmsum þáttum í þeim efnum og þá fyrst og fremst þeim að reyna eftir megni að skerða sem minnst möguleika heimaaðila til að bjóða í framkvæmdir og að vinna þær með eðlilegum hætti þannig að þeir séu samkeppnisfærir við aðra aðila. Þetta er vissulega mikið mál og kannske sýnist sitt hverjum í þeim efnum, en eins og ég tók fram áðan hef ég verið talsmaður þess að gert yrði meira af því en hingað til að bjóða út framkvæmdir á vegum hins opinbera. Og sú skoðun mín hefur ekkert breyst þó að ég sjái ýmsa annmarka í þeim efnum eins og hér hefur komið fram.

Eins og frsm. gerði hér grein fyrir er í nál. samkomulag um það að samgrh. hafi til þess heimild í samráði við þm. viðkomandi kjördæma að deila niður þeim niðurskurði sem um er að ræða í kjördæmunum. Kannske finnst einhverjum hv. þm. vald af þeim tekið með þeim hætti sem hér er ráð fyrir gert, og mér kæmi það ekkert á óvart, enda hef ég orðið þess var úr sumum áttum að menn töldu að af þeim væri verið að taka vald með samkomulagi af því tagi sem gert var ráð fyrir. Því hefur að vísu verið aðeins breytt til hins betra fyrir suma, þannig að menn hafa rýmri stöðu til að fjalla um mál og vissulega er það gott. Ég skal ekkert kveða á um það hér hverjir það eru. En þetta er svo mikilvægur þáttur, a. m. k. fyrir dreifbýlisfólk, landsbyggðarfólk, að það er mjög nauðsynlegt og æskilegt að um hann náist sem víðtækust samvinna, þannig að hægt sé að þoka málum fram í sem mestri einingu burt séð frá pólitískum sjónarmiðum, því að hér er um að ræða framkvæmdir sem eru þjóðhagslega hvað hagkvæmastar, a. m. k. eins og mál standa enn í dag, og ég hygg að svo muni verða um nokkurn tíma enn.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar. Ég taldi rétt, í ljósi þess að mín afstaða til þessa máls er undirrituð með fyrirvara, að gera í örfáum orðum grein fyrir vegna hvers sá fyrirvari er fram kominn.