17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6204 í B-deild Alþingistíðinda. (5611)

155. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það mál sem er nú hér til umr., frv. um kosningar til Alþingis, er af sama stofni og það mál sem stendur hér næst á dagskránni, frv. til stjórnarskipunarlaga. Ég ætla því að leyfa mér að ræða þessi mál eitthvað í samhengi og vona að ég fari ekki mjög út fyrir efnið.

Það er fyrst athyglisvert í sambandi við þetta stóra og mikilvæga mál að það virðist vera samantekin ráð hjá fjórum stærstu flokkum þingsins að taka ekki til máls. Kemur það mjög undarlega fyrir sjónir að svo skuli háttað, jafnmikilvægt og þetta mál er. Eitthvað virðist vera óljóst og jafnvel gruggugt þegar flokkarnir finna sig knúna til þess að þegja í svona mikilvægu máli. Og sannleikurinn er sá að ferill flokkanna í þessu máli er þeim ekki til sóma. Ég vil benda á að stjórnarskrá Íslands hefur verið í endurskoðun nánast í fjörutíu ár og enn hefur ekkert komið fram um breytingar nema um að færa kosningaaldurinn niður í 18 ár og svo þessi breyting á úthlutun þingsæta úr kjördæmum. Öll önnur mál, eins og breytingar á stjórnarskránni um skipan Alþingis, bráðabirgðalög, þjóðaratkvæði o. s. frv. sem er knýjandi nauðsyn að breyta og endurskoða, hafa ekki komist frá stjórnarskrárnefndinni eftir allan þennan tíma. Sú spurning vaknar hvort flokkakerfið beinlínis ráði við þessi mál.

Ef er svo komið í málefnum Íslendinga að þeir flokkar, sem fara með völd í landinu, geti ekki náð saman um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands þá vaknar spurningin hvort þjóðfélag okkar sé þá ekki illa sett. Breytingar eru boðaðar en eftir fjögurra áratuga reynslu virðist ekki auðvelt að leggja trúnað á að þessar breytingar séu væntanlegar.

Ég vil líka benda á að í því samkomulagi sem lagt hefur verið fram frá stjórnarskrárnefnd á þskj. 974, segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Frv. þetta er byggt á samkomulagi formanna fjögurra stjórnmálaflokka frá síðasta þingi og efnislegum breytingum á frv. varð ekki komið við þar eð samkomulag náðist ekki. Nm. lýsa því hins vegar yfir fyrir hönd flokka sinna að unnið verði áfram að málinu milli þinga og niðurstöður verði lagðar fram á næsta haustþingi.“

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, ég vitna enn í þetta þskj.:

„Nefndinni vannst heldur ekki tími til þess að ræða til þrautar tilhögun persónukjörs. Það verður með sama hætti rætt á milli þinga.“

Nú er það ljóst að nefndin hefur haft fyllilega nægan tíma, en hún hefur ekki komið þessu frá sér enn og það er borin von að þessar breytingar birtist á haustþinginu.

Því hagar svo til að ein þjóð býr í þessu landi og öll okkar barátta beinist að því að veita þegnunum jafnrétti á allar lundir. Við reynum að bæta kjör þeirra sem búa í dreifbýlinu með margvíslegum fjárfestingum, með uppbyggingu í skólamálum, félagsmálum og á allar þær lundir sem nútímaþekking og tækni leyfir. Um þetta er alger samstaða. Hins vegar skýtur svo skökku við að þegar kemur að því að jafna atkvæðisrétt manna þá eru menn ekki reiðubúnir til þess heldur telja að atkvæðisrétturinn eigi að miðast við búsetu í landinu. Viðhorf af þessu tagi er auðvitað með öllu óverjandi því hér er blandað saman algerlega óskyldum málum.

Ég vil enn minna á það, eins og ég gerði í ræðu minni við fyrstu umr. um stjórnarskipunarlög, að það hefur ávallt verið háð barátta í sögu mannkynsins fyrir því að allir einstaklingar hefðu jafnan atkvæðisrétt. Við þekkjum sögu kvennabaráttunnar þar sem konum var lengi meinaður atkvæðisréttur sökum þess að talið var að þær hefðu svo rangar hugmyndir um stjórnmál og kynnu ekki neina hluti í þeim efnum og skylt væri að halda þeim utan við stjórnmálin. Það eru ekki nema áttatíu eða níutíu ár síðan konur fengu atkvæðisrétt hér á Íslandi, en enn er barátta kvenna víða um heim að fá atkvæðisrétt. Trúarbrögð eru eitt af þeim málum sem hefur talið mönnum heimilt að mismuna fólki í atkvæðisrétti. Þetta þekkjum við víða um lönd, t. d. á Sri Lanka og Indlandi og víðar. Litarháttur — við þekkjum það í Suður-Afríku. Síðan kemur meginatriðið sem eru sjálf eignin, hún hefur verið grundvöllur þeirrar baráttu sem háð hefur verið um aldir gegn því að jafna atkvæðisrétt. Ekki er nema rúm öld síðan þetta tókst á Íslandi, að láta ekki eign hafa áhrif á atkvæðisrétt manna.

Enn er eitt eftir og það er þessi búseta. Þeir, sem búa í dreifbýlinu, telja að þeir búi við lakari kjör og þar af leiðandi eigi vægi atkvæða þeirra að vera meiri. Ég er algerlega andvígur svona hugtakaruglingi og tel að það eigi að jafna aðstöðumun Íslendinga í dreifbýlinu eftir öðrum leiðum, með sjálfsstjórn í eigin málum, með nýju skiputagi, tryggja fólkinu jöfn lífsréttindi. Það verður ekki talið að húshitunarkostnaður á Vestfjörðum geti heimilað það að búa til misvægi atkvæða í landinu. Fleira mætti telja af því taginu. Ég tel því að það sé mannréttindamál, grundvallaratriði, að allir hafi sama atkvæðisrétt.

Nú er því ekki að leyna að þetta nýja kosningalagafrumvarp er til bóta, reynt er að koma til móts við þessa kröfu um jöfnun atkvæðisréttar með því að fjölga þm., ekki síst í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Engu að síður þykir mér þessi jöfnun ekki nægileg. Og sú aðferð, sem hér er höfð við úthlutun þingsæta og kölluð er „regla stærstu brota“ eða „meðaltalsaðferð“, getur leitt til þess að jafnvel þm. úr Reykjavík og Reykjaneskjördæmi geta verið fluttir út á landsbyggðina þar sem skakkar kannske þúsund eða þúsundum atkvæða. Sem augljóst dæmi má geta þess að Alþfl. hefði ekki fengið nema einn þm. í Reykjaneskjördæmi við síðustu kosningar í staðinn fyrir tvo eins og honum ber. Það getur ekki verið réttlátt að 11 000 kjósendur Alþfl. í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi fái aðeins þrjú þingsæti. Að því leyti er þetta síst til bóta. Hér eru því svo miklir vankantar á að ég get ekki stutt þetta frv.

Það er segin saga að þeir sem ráða vilja ekki láta af völdum. Það kostaði mikla baráttu að veita konum fullan atkvæðisrétt, á sama hátt að sjá til þess að verkamenn fengju atkvæðisrétt — og hann var ekki bundinn við þingfararkaup — og það hefur kostað mikla baráttu að ná jöfnuði á öllum sviðum. Það eru alltaf til öfl sem standa gegn jafnréttinu í krafti falsaðra hugtaka og tilbúinna röksemda. Það er hér einnig í dag og kvöld. Það er ekki hægt að styðja frumvörp sem tryggja misréttið, sem tryggja ójöfnuð. Það kemur berlegast í ljós þegar flokkarnir fjórir, sem standa að þessu, láta ekkert í sér heyra um það efni. Ætla mætti að þeir viti skömmina upp á sig.

Ég lít svo á að grundvallaratriðið í þessu máli sé að landið sé eitt kjördæmi og allir Íslendingar hafi sama atkvæðisrétt. Þannig verður það síðar meir. Þó að ráðaöfl og íhaldsöfl standi nú að þessu fylkingarfyrirbæri misréttisins, þá koma þeir tímar að búsetublekkingin víkur fyrir réttlætinu og jöfnuðinum á sama hátt og konum var mismunað áður fyrr og eignarmenn lögðust á atkvæðisréttinn og töldu sig vita betur. Og það segi ég þinginu að eftir nokkra daga, þegar við erum komin undir græna torfu hvenær sem það gerist, koma tímar með breyttum viðhorfum. Þá fá allir menn jafnan atkvæðisrétt hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Ég vil því segja og endurtaka að hér á landi býr ein þjóð og stjórnmálamenn hafa enga heimild til að mismuna fólkinu á þann hátt sem hér er gert með ójöfnuði í atkvæðisrétti. En þeir sem ráða vilja ekki láta af völdum sínum og það verður því þeir sem ráða ferðinni enn um sinn. En það koma dagar þegar þetta verður skoðað í sögulegu ljósi sem einn kafli í baráttusögu mannsins fyrir jafnrétti og lýðræði. En ég styð ekki þetta frv.