17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6208 í B-deild Alþingistíðinda. (5618)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af þessum umr. vil ég skýra frá því að þess var farið á leit við forseta þessarar deildar af a. m. k. þremur þingflokksformönnum, ég hygg að ég fari rétt með það, það voru þingflokksformenn Alþb., Sjálfstfl. og Framsfl. sem fóru mjög ákveðið fram á það við forseta að þessi fundur yrði haldinn, þ. e. að fundur yrði haldinn í þessari hv. deild að loknum fundi í Sþ. Forseti varð við þeirri ósk og ráðfærði sig að sjálfsögðu einnig við skrifstofustjóra þingsins um það hvort annmarkar væru á því af þingsins hálfu, af hálfu starfsliðsins, að anna svo miklu álagi sem hér væri um að ræða. Eftir nokkur samtöl um þetta þar sem m. a. ýmsir af þingflokksformönnum voru viðstaddir voru ekki taldir neinir meinbugir á því að halda slíkan fund.

Nú er því ekki að leyna að forseti þessarar deildar hefur haft áhyggjur af því að hér væri e. t. v. helst til mikið álag á starfsfólk að ræða. En eftir að svo ákveðin ósk hefur komið fram frá þremur þingflokksformönnum og eftir að hafa ráðfært sig við skrifstofustjóra þingsins um það hvort starfsmenn gætu annað þessu mikla starfi þá taldi forseti ekki rétt að hafna því að boða til þessa fundar.

Að því hefur einnig verið spurt hvort fordæmi séu fyrir svo mörgum og tíðum kvöld- og næturfundum. Hygg ég að slík fordæmi séu býsna mörg. Hitt er satt að á síðari árum hefur verið reynt að takmarka þetta nokkuð og verið samkomulag um það. En ég vil einnig í því sambandi nefna að það hefur verið mjög ákveðið um það rætt við forseta að haga svo störfum að þingi mætti ljúka n. k. laugardag. Ef þess á að vera nokkur kostur að koma fram þeim mörgu málum sem fyrir liggja þá verður ekki hjá því komist að bregða út af þeirri venju, sem það reyndar er og er í öllu siðuðu samfélagi að menn vinni fyrst og fremst á daginn. Það hefur því miður orðið að bregða út af því og forseti sér ekki möguleika á því að fresta þessum fundi eða slíta honum nú heldur að mál gangi áfram eins og áformað hefur verið. Enn eru hér tvö mál til meðferðar og allmargir á mælendaskrá og því verður fundinum haldið áfram.