17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6210 í B-deild Alþingistíðinda. (5622)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Hv. 5. þm. Reykv. óskaði eftir því að formenn þingflokkanna og forustumenn yrðu hér við og þeir hafa nú gengið í salinn.

Þá kom fram spurning frá hv. þm. Karvel Pálmasyni um það hverjir hefðu rætt um það við forseta þessarar deildar að þinginu yrði slitið á laugardag. (Gripið fram í.) Ég held að það þurfi nú varla að telja upp þau nöfn. Þetta hefur verið almennt umtal hér í þinginu og ég hygg að það hafi varla farið fram hjá nokkrum manni að ráðagerðir hafa verið um þetta, og ég þori jafnvel að standa við þau orð, sem hrutu af vörum mínum hér áðan, að þess hafi verið ákveðið óskað að þannig yrði hagað fundum að þetta mætti takast, og verða þau orð ekki aftur tekin.