18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6225 í B-deild Alþingistíðinda. (5658)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta frv., sem við erum að ræða nú, er eitt mikilvægasta málið sem komist hefur til afgreiðslu á þessu þingi. Húsnæðismál snerta hvern einasta mann og ráða ekki litlu um það við hvernig lífskjör fólk býr í reynd. Málið hefur verið til meðferðar í Nd. svo mánuðum skiptir eins og oft er búið að tæpa hér á og nú erum við að afgreiða það á nokkrum sólarhringum hér í Ed. Ég vil taka það fram út af orðum hv. frsm. meiri hl. félmn. áðan að þótt við stjórnarandstöðuþm. í Ed. viljum alls ekki koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls vegna þess að í því er ýmislegt sem er í rauninni skömminni skárra en núverandi skipan, þá hefur sú gagnrýni, sem fram hefur komið við þau vinnubrögð, þar með ekki fallið niður.

Þær breytingar frá núgildandi lögum, sem frv. felur í sér, eru flestar til bóta en ganga hvergi nærri nógu langt að mati okkar kvennalistakvenna. Það sem við Íslendingar þurfum á að halda er gerbreytt stefna í húsnæðismálum sem hafnar því að sá sé ekki maður með mönnum sem á ekki nokkur tonn af steinsteypu, gleri og timbri í fórum sínum. Í staðinn leggjum við áherslu á að fólk geti valið um það í hvers konar húsnæði það vill búa og hvort það vill eiga eða leigja, hvort húsnæðið er nýtt eða gamalt.

Um árabil hefur sú stefna verið ríkjandi að hvetja allan almenning til að byggja og byggja stórt. Lánum hefur verið beint til nýbygginga en kaup á eldra húsnæði hafa verið annmörkum háð. Þessi stefna kemur glögglega í ljós í 1. gr. frv. þar sem markmið laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins eru skilgreind, en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið laganna er að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika launafólks til að eignast eigið húsnæði.“

Afleiðing þessarar stefnu hefur m. a. verið sú að ný hverfi hafa byggst upp, t. d. hér í Reykjavík, með undraverðum hraða. Skólar hafa yfirfyllst í nýju hverfunum meðan gömlu hverfin hafa ekki endurnýjast sem skyldi og skólar þar tæmst. Þetta hefur vitaskuld í för með sér afskaplega slæma nýtingu á opinberri fjárfestingu í þessum efnum.

Það sem er þó hvað alvarlegast í þeirri húsnæðisstefnu, sem hér hefur verið rekin, er fyrirhyggjuleysið. Nú eru að koma út á húsnæðis- og atvinnumarkaðinn stærstu árgangar sem fæðst hafa á Íslandi. Það hefði mátt sjá það fyrir, svo sem fyrir 20 árum, að holskefla væri í vændum, að mikil eftirspurn yrði eftir fjármagni til húsnæðiskaupa og við því yrði að bregðast með sérstökum ráðstöfunum og uppbyggingu. En ekkert var gert, því miður. Í staðinn hafa möguleikar fólks til að komast yfir eigið húsnæði versnað verulega á undanförnum árum þar sem lenging á lánum fylgdi ekki í kjölfar vísitölubindingar.

Það þarf vart að minna hv. þdm. á þá miklu umr. um húsnæðismál sem átt hefur sér stað í vetur. Hún ber þess vott að breytinga er þörf. Það veitir hins vegar ekki af að minna hv. þdm., held ég, á það að miklar breytingar hafa orðið á heimilishögum fólks. Fjölskyldan fer minnkandi og þau heimili verða æ fleiri þar sem aðeins er ein fyrirvinna, í flestum tilfellum konur. Hvernig eiga þær að eiga möguleika á að eignast þak yfir höfuðið á því láglaunasvæði sem Ísland er nú orðið? Allt kallar þetta á ný viðhorf og breytta stefnu. En hvernig ætlar ríkisstj. og hv. Alþingi að bregðast við?

Í kosningunum fyrir rúmu ári voru gefin mörg loforð og stór um endurbætur á húsnæðislánakerfinu. Hvað verður um efndirnar í frv. stjórnarinnar sem hér er til umr.? Lán úr Byggingarsjóði ríkisins lengjast um 5 ár og er það auðvitað til bóta. En eðlilegast væri að lánstími væri í samræmi við endingartíma húsa eða allt að 42 ár. Það verður einnig að fagna því að nú gefst fleiri aðilum kostur á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna, svo sem Félagsstofnun stúdenta sem m. a. gegnir því hlutverki að byggja húsnæði til leigu fyrir námsmenn.

En það eru einnig margir gallar á gjöf Njarðar, einkum hvað varðar fjármögnun lánakerfisins. Það er að sjálfsögðu lítið gagn að því að opna Byggingarsjóð verkamanna ef sjóðurinn fær ekki aukið fjármagn til ráðstöfunar. Verkamannabústaðakerfið getur ekki fullnægt þörfinni eins og er og má síst við samdrætti. Sjóðurinn er enn langt frá því markmiði að byggja 1/3 af húsnæði í landinu og ekki verður séð að þeir tekjustofnar, sem honum eru ætlaðir, muni auðvelda honum að ná því markmiði sem kveðið er á um í frv. sjálfu. Fram hefur komið á fundum hv. félmn. í Ed. að Byggingarsjóður verkamanna muni ekki hafa bolmagn til að ráðast í neinar nýjar framkvæmdir á þessu ári og að vanda hans er að hluta til ýtt yfir á næsta ár.

Ég harma það að ekki skuli hafa verið skotið traustari fótum undir byggingarsjóðina, t. d. með því að leggja skyldusparnað á hátekjumenn í stað þessa gagnslausa skyldusparnaðar sem nú er viðhafður. Benda má á að þegar harðnar í ári verður lítið um afgang hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og óvíst um kaup hans á skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins. Nær væri að eyrnamerkja ákveðna tekjustofna ríkissjóðs þannig að tryggt verði að byggingarsjóðirnir fái það fjármagn sem þeir þurfa. Hér eins og í flestum öðrum málum er um það að ræða hvaða verkefni eru efst á verkefnalistanum og hvað má bíða.

Húsnæðismálin ættu að vera forgangsverkefni fram yfir nýja flugstöð, seðlabankabyggingu og óhagkvæmar fjárfestingar í virkjunum og stóriðju þótt eflaust megi spyrja hvort ekki sé komið nóg af steinsteypufjárfestingum og tími til kominn að snúa sér að betri nýtingu og hagkvæmni. Ég efast ekki um að mikið mætti spara með ódýrari og hagkvæmari byggingum en nú eru reistar og með því að hvetja til samvinnu. En þar eru ríkisstjórnarflokkarnir við sama gamla heygarðshornið.

Meðferðin á Búsetamálinu í Nd. sýnir glöggt að engu á að breyta. Með stofnun búseturéttarfélaga sá fjöldi fólks loks möguleika á að reyna að komast í öruggt húsnæði á viðráðanlegan hátt, enda skipta félagsmenn þarna nú þúsundum. Mér er kunnugt um Íslendinga búsetta erlendis sem fóru að hugsa til heimferðar er þeim bárust fregnir um að nú væru að opnast möguleikar til að komast undir þak án þess að kosta bestu árum ævinnar í endalausan þrældóm, áhyggjur og botnlausar skuldir. En hrædd er ég um að þetta fólk verði fyrir vonbrigðum með þetta afkvæmi ríkisstj. sem nú er í burðarliðnum. Þeir eru nefnilega margir sem sætta sig ekki við ríkjandi húsnæðisstefnu þótt þeir hafi orðið að beygja,sig undir hana því að mörgum finnst sem betur fer að lífið eigi að snúast um annað en steinsteypu.

Ég tel að þær hugmyndir, sem búa að baki þessu frv., séu margar hverjar úreltar og að í því hefði átt að leggja aðrar áherslur, svo sem að auðvelda til muna byggingu leiguhúsnæðis sem mikill skortur er á um land allt. En ég vil að lokum ítreka þá skoðun mína að brýna nauðsyn beri til að beina meira fjármagni inn í húsnæðislánakerfið yfirleitt.

Eins og er verður Húsnæðisstofnun ríkisins stöðugt að bjarga sér fyrir horn. Hún er í fjársvelti og meðan svo er fer engin stefnumótun þar fram eins og ætlast er til í lögunum og ég tel brýnt að breyting verði á. Þegar þarf að hugsa til framtíðarinnar, kanna það í hvernig húsnæði fólk vill búa, hversu mikil þörfin verður á næstu árum fyrir nýbyggingar og finna öruggar leiðir til að fjármagna húsnæðislánakerfið. Menn þurfa hér að opna hugi sína fyrir nýjum leiðum í húsnæðismálum. Það er ekkert náttúrulögmál eins og sumir virðast halda að Íslendingar verði að eiga sitt eigið húsnæði. Það bjóðast margir kostir sem öðrum þjóðum hafa staðið til boða og reynst vel. Og er ekki kominn tími til að Íslendingar fái líka að velja?