10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Eitt aðalatriðið í máletnagrundvelli BJ er aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Í einföldum orðum felur það í sér að þm. eigi ekki að vera ráðh. eða sifja í bankaráðum, Framkvæmdastofnun eða öðrum skyldum stofnunum. BJ bendir á að seta alþm. í hinum ýmsu stofnunum framkvæmdavaldsins standi efnahagslífi okkar og þá um leið í ljósi nútíðar raunverulegum efnahagsaðgerðum fyrir þrifum. Seta alþm. í stofnunum framkvæmdavaldsins leiðir tvennt af sér. Annars vegar hefur hann ekki sama tíma og ella til að sinna störfum sínum sem löggjafi. Í öðru lagi verður hann að dómara í eigin störfum og að okkar mati þar með óhæfur til þessa verks vegna árekstrarhagsmuna. Seta þm. í fyrrnefndum stofnunum framkvæmdavaldsins leiðir til ákveðinnar samtryggingar andstæðinga á þingi, sem veikir enn meir eftirlitshlutverk Alþingis. Skipting valdsins í þessum stofnunum milli þm., sama hvort um stjórn eða stjórnarandstöðu er að ræða, leiðir til samtryggingar. Það er þar sem flokksræðið og flokksvaldið kemur inn í myndina. Aðstöðumunur þeirra flokka sem nú sitja á þingi er mjög mikill, það verður að viðurkenna. Núverandi stjórnarflokkar ríkja núna og eins og þeir hafa lengst af gert vegna umfangsmikilla tengsla sinna við stór og viðamikil fjármálaöfl í efnahagslífi okkar. Peningar eru jú vald. Hinir, sem eru í stjórnarandstöðu, hanga þarna nánast vegna fortíðar sem rekur þá til þess að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda í þeim stofnunum sem hér um ræðir. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann að stytta mál sitt. Ég hafði skilið að þetta væri stutt athugasemd.)

Þingflokkar hafa nú komið sér saman um framboð til þeirra ráða og stjórna sem hér á að kjósa til. BJ hefur tekið þátt í þeim viðræðum að svo miklu leyti sem um er að ræða störf er ekki brjóta í bága við málefnagrundvöll Bandalagsins. Þar sem samstaða hefur náðst milli þingflokka um framboð, þannig að kosningar munu fara fram án handauppréttingar, tel ég nauðsynlegt að upplýsa að þm. BJ sitja hjá í atkvæðagreiðslum að því er varðar kosningu í atvinnuleysistryggingasjóð Húsnæðisstofnun ríkisins, Vísindasjóð, úrvarpsráð, tryggingaráð, stjórn kísilmálmverksmiðju og Framkvæmdastofnun ríkisins.