18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6250 í B-deild Alþingistíðinda. (5696)

136. mál, hafnalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er nú búið að liggja fyrir Ed. í allmarga mánuði og til þess að gera nýlega afgreitt þaðan. Nokkrar till., sem nefndin flutti, voru að sumu leyti til bóta eða með þeim hætti að ég gat fyrir mitt leyti fallist á þær. Ég ræddi einmitt þetta atriði þar því að ég var mun sáttari við orðalag eins og var í frv. En eins og málum er komið óttast ég að frv. nái jafnvel ekki fram að ganga vegna tímaskorts ef það fer til efri deildar aftur. Ég vil því mjög mælast til þess við hv. flm. brtt. á þskj. 955 að hann dragi till. sína til baka.

Ég endurtek það loforð mitt í sambandi við útgáfu reglugerðar að ég skal eins og ég frekast get koma til móts við þær óskir sem fram koma í till. Ef till. þessi yrði felld er útilokað að koma til móts við óskir flm. í reglugerð. En ég legg mikla áherslu á að þetta mál verði að lögum, því að hér er um mikilsverðar breytingar að ræða, og bendi á að þetta er annað þingið sem málið er flutt þó það hafi verið gerðar á því nokkrar breytingar á milli þinga. Þess vegna óska ég eindregið eftir því við hv. flm. að hann dragi sína till. til baka og vitna þá í þau orð sem ég viðhafði við 2. umr.