19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6310 í B-deild Alþingistíðinda. (5765)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki setja á langa tölu um þetta mál þó vissulega hafi menn beðið eftir því með óþreyju að hér væru fluttar miklar og merkar ræður um þetta.

Ég hef þá sérstöðu í landbn. að ég var ekki á þeim afdrifaríka fundi þegar n. klofnaði, ekki í öreindir sínar að vísu, en klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls og var í raun og veru ekki ljóst á nefndarfundinum sjálfum hver raunveruleg niðurstaða yrði m. a. hjá 1. minni hl. n., hvað þar mundi verða langt gengið.

Þetta mál er búið að vera mikið uppáhaldsmál fjölmiðla upp á síðkastið og ekki tel ég það vera kost við eitt mál að það hafi verið þar á dagskrá, en því miður eru fyrir því uppáhaldi í þessu tilfelli ærnar ástæður. Hins vegar vil ég leggja áherslu á að það að gera þetta að meginmáli núna í þinglokin hlýtur að orka mjög tvímælis þegar mörg raunveruleg stórmál eru á ferðinni, án þess að ég sé að draga nokkuð úr mikilvægi þessa.

Hvað um það. Ég vildi aðeins rekja það að innan landbn., eins og hefur nú óbeint komið fram, hafa þessi mál þróast á ýmsan veg. Fyrir nokkrum vikum kom upp sú hugmynd hjá formanni n. að vísa þessu frv. ásamt öðrum frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins til ríkisstj. með tilliti til endurskoðunar framleiðsluráðstaganna í heild, ásamt öðrum málum sem þá lágu fyrir, tveimur að mig minnir til viðbótar. Ég tók þá undir þessa málsmeðferð hjá formanni með tveimur meginformerkjum: annars vegar að þessu áliti fylgdu tilmæli til endurskoðunarnefndarinnar, sem þá var og var alfarið á vegum stjórnarflokkanna og við í stjórnarandstöðunni höfum enga hugmynd um hvað þar er að gerast í raun og veru, að það yrði beint til hennar tilmælum um jákvæða athugun á þessu máli, ósk um breytingar í þá átt sem þessi frv. gerðu ráð fyrir, og hins vegar lagði ég áherslu á að í tengslum við þessa nefnd fengju neytendur þar aðild og að stjórnarandstaðan fengi að fylgjast með þessu verki, svo þýðingarmikil sem þessi endurskoðun er.

Málið hlaut ekki afgreiðslu þá og nú horfir málið nokkuð á annan veg við. Atburðarásin hefur verið slík að undanförnu að málið horfir býsna mikið öðruvísi við.

Ég tek ekki undir fordæmingu á Grænmetisverslun landbúnaðarins í einu og öllu. Ég fullyrði þvert á móti að ýmislegt hefur sú stofnun gert vel í skipulagi og sölumálum. Það sem vel hefur verið gert hefur gleymst vegna þess að margt hefur þar mistekist og margt hefur farið á annan veg og því er venjulega hampað ærið betur og meira sem miður fer. Mér þykir það hins vegar verst að í hvert skipti sem þar hafa gerst mistök, í hvert skipti sem eitthvað hefur farið þar úrskeiðis, hafa menn rokið þar upp til handa og fóta til varnar, til réttlætingar á því sem sannanlega hafa verið mistök, hafa jafnvel þvegið hendur sínar, reynt að koma sökinni yfir á aðra og í raun og veru, því miður, ekki sýnt í neinu yfirbót og jafnvel þrætt fyrir augljósustu hluti. Þetta vita menn og þekkja og það er miður um þá stofnun sem annars ætti ekki að þurfa á slíkum vinnubrögðum að halda. Fyrir mig ráða ekki fordómar eða fordæming, en ekki heldur réttlæting, afsökun eða vörn af neinu tagi.

Tvö atriði standa nefnilega upp úr að mínum dómi í þessum málum og þau á og verður að tryggja: Í fyrsta lagi að neytendur eigi ávallt kost á sem bestri vöru, í öðru lagi og jafnhliða að hagur innlendrar framleiðslu, innlendra framleiðenda, sé tryggður, enda vitum við að yfirleitt er hin innlenda framleiðsla afbragðsvara ef allt er eðlilegt um meðferð og geymslu hennar. Þessi tvö markmið þarf að tryggja. Frjálsræði í innflutningi þarf ekki að rekast hér á, frjálsræði í innflutningi tryggir hvorugt. Hér er því vandrötuð leið sem hvorki næst með því að ríghalda í gamalt kerfi, sem hefur viðgengist of lengi, né heldur með upphrópunum um einfaldar lausnir sem gróðaaðilar þykjast ætla að tryggja. Um leið og menn losa um óeðlilegar hömlur og rýmka á þann hátt um innflutning, sem skynsamlegt getur talist, þurfa menn að huga fyrst og fremst að því að íslenskir framleiðendur standi ekki uppi með vöru sína, ágæta vöru sína, í vanda, eða t. d. að þegar þeirra nýja og góða framleiðsla kemur á markaðinn séu til birgðir innfluttra kartaflna í landinu, við skulum vona sómasamlegrar vöru þó, e. t. v. þá á niðursettu verði. Slíkt yrði engum til góðs, hvorki neytendum né framleiðendum.

Ég held nefnilega að umræðan að undanförnu, þrátt fyrir alla annmarka hennar, hafi leitt eitt gott af sér: — menn hafi í raun og veru sannfærst um gildi og gæði íslenskrar framleiðslu betur en oft áður þegar raddirnar um óheftan innflutning í beinni samkeppni við íslenska framleiðslu hafa verið hvað háværastar og um leið komið fram fordæming á íslensku kartöflunum.

Ég held mig enn við það meginsjónarmið að fulltrúar framleiðenda og neytenda eigi að finna sameiginlegar leiðir út úr þessu máli og tryggja gagnkvæman hag og rétt. Þá á ég við raunverulega fulltrúa framleiðenda og raunverulega fulltrúa neytenda þessara aðila beggja, en ekki sjálfskipaða. Ég er á engan hátt sannfærður um að sú skipan sem 1. minni hl. n. leggur til tryggi þessi tvö meginsjónarmið mín varðandi hag neytenda og framleiðenda. Ég er á engan hátt öruggur um það. En í ljósi þess sem gerst hefur er nauðsynlegt að svo verði reynt. Og enn frekar efa ég nú, miðað við málsatvik og viðbrögð aðila, að rétt sé að vísa þessu máli til ríkisstj., þó á jákvæðan hátt sé gert og þó nú sé komin sérstök nefnd í málið sem ég hlýt að binda nokkrar vonir við. Ég held að nú verði að gera ákveðna tilraun til rýmkunar, ekki síst í ljósi liðinna atburða, þó æsiskrif og brýningar hafi þar engin áhrif á mig, heldur aðeins blákaldar staðreyndir sem okkur er skylt að taka tillit til.

Ég hygg því að gera eigi tilraun til að slík skipan, sem hér er lagt til, komist á, en verði háð ákveðnum tímamörkum og á meðan verði rösklega unnið að þessu máli öllu og heildarendurskoðun með því tryggð og farsælust skipan fundin sem völ er á. Ég vil þó flytja hér skriflega brtt. við greinina sjálfa til enn frekari tryggingar, þ. e. við 4. gr. sem verður 1. gr. Aftan við orðin í annarri setningunni „Í reglunum skal m. a. kveðið á um að leyfi til innflutnings skuli því aðeins veitt að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn og að innflutningsaðili uppfylli kröfur um hollustuvernd“ komi: að mati Hollustuverndar ríkisins. — Ég tel það eðlilegan og sjálfsagðan varnagla.

Sömuleiðis flyt ég brtt., sem ég legg enn meiri áherslu á, um að svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða komi hér sem þegar hefur verið dreift til hv. þdm.:

„Ákvæði þessara laga skulu gilda til bráðabirgða til ársloka meðan heildarendurskoðun laganna um Framleiðsluráð landbúnaðarins fer fram, enda leggi landbrh. fram nýtt frv. um skipulag grænmetisverslunar í landinu að liðnum þessum reynslutíma.“

Þetta ákvæði er sett til þess að á þessu fáist ákveðin reynsla, m. a. og sér í lagi nú í sumar er íslensk framleiðsla kemur á markað. Í öðru lagi knýr það á um að skipan þessara mála verði komið í nýtt og betra horf til frambúðar.