19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6363 í B-deild Alþingistíðinda. (5866)

337. mál, stofnun smáfyrirtækja

Frsm. meiri hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur fjallað um till. til þál. um fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll, en 1. flm. þeirrar till. er hv. þm. Karl Steinar Guðnason, 6. landsk. þm.

N. leitaði umsagna ýmissa aðila um þetta mál. Ég skal ekki rekja þær nema í allra stærstu atriðum. Útflutningsmiðstöð iðnaðarins bendir á að nokkuð umfangsmikla könnun þurfi til að koma þessu máli fram, en vill gjarnan taka þátt í slíku könnunarstarfi og leggja sitt af mörkum til að komast að raunhæfri niðurstöðu.

Í umsögn Framkvæmdastofnunar ríkisins kemur fram, að frá því hugmyndir um fríiðnaðarsvæði komu fyrst upp höfðu menn gjarnan í huga reynsluna við Shannon-flugvöll. Síðan hafa ýmsar forsendur breyst og þeir tollmúrar sem umluktu okkur á þessum árum hafa verið stórlega skertir, auk þess sem tollar innan EBE séu engir og hlutfall tolla af iðnaðarvörum almennt mun lægra en var á 6. og 7. áratugnum. Ástæða sé til að hvetja til athugunar á hagkvæmni sérstakrar iðnaðaruppbyggingar á Suðurnesjum, hvort sem hún er í beinum tengslum við Keflavíkurflugvöll eða aðra staði.

Varnarmáladeild utanrrn. mælir með samþykkt þessarar till. og er reiðubúin að leggja ofangreindri athugun þá liðveislu sem þörf sé á.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum mælir með samþykkt þáltill.

Iðntæknistofnun Íslands bendir á að heppilegt geti verið að gera frumkönnun á hagkvæmni fríiðnaðarsvæðis við Keflavíkurflugvöll, fyrst og fremst með því að kanna hvernig reynsla nágrannaþjóða sé af slíkum fríiðnaðarsvæðum.

Ítarlegust umsögn barst frá Landssambandi iðnaðarmanna. Þeir bentu á að ekki mætti búa þannig um hnútana að mismunun ætti sér stað varðandi annars vegar iðnað á slíku fríiðnaðarsvæði og svo iðnað annars staðar í landinu. Þrátt fyrir þennan fyrirvara telja þeir að þetta sé athyglisverð hugmynd, en telja nauðsynlegt að slík athugun sé gerð í fullu samráði við þá aðila sem hér eigi hlut að máli og gæta eigi hagsmuna íslensks iðnaðar. Jafnframt bendir landssambandið á að fleiri staðir geti hugsanlega komið til greina við staðsetningu slíks iðnaðar og benda sérstaklega á þær hafnir sem byggðar hafa verið í tengslum við stóriðjuframkvæmdir.

Að þessum umsögnum fengnum og að loknum umr. í n. mælir meiri hl. n. með því að till. sé samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 929 og miðast fyrst og fremst við að taka tillit til þeirra ábendinga sem fólust í umsögn Landssambands iðnaðarmanna.