19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6370 í B-deild Alþingistíðinda. (5879)

91. mál, fiskeldi og rannsóknir á klaki sjávar- og vatnadýra

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur þegar þessi umr. hófst, en vegna þess hvernig hún hefur farið fram nú upp á síðkastið sé ég mig knúinn til þess að segja hér nokkur orð. Ég vil samt byrja á því að þakka fyrir að þessi þáltill. skuli hafa verið flutt. Menn geta litið á framkvæmd þessara mála frá ólíkum sjónarhól, en ég held að það sé þarft að ræða þetta mál, athuga það og knýja á um að eitthvað raunhæfara sé gert en hefur verið fram að þessu. Að því leyti til er ég þakklátur fyrir að mál af þessu tagi skuli koma hér fram og það skuli vera rætt.

Ég held að það ætti að vera okkur umhugsunarefni hvernig á því stendur, miðað við þau skilyrði sem við höfum, miðað við þær vonir sem við berum til þess að þarna geti verið um álitlegan atvinnuveg að ræða, hvað lítið hefur verið aðhafst í þessum málum. Allt sem ýtir á að eitthvað raunhæfara sé gert er af því góða, að mínu mati. Það hefur verið bent á það af ýmsum mönnum, sem hafa hug á þessum rekstri og eru bæði búnir að læra og eru að læra um þessi mál, að það séu mikil líkindi fyrir því að þarna getum við farið út í fiskeldi í sjó, í botnkvíum, en til þess að hægt sé að fara út í það eða mæla með því þurfa fyrst að liggja fyrir rannsóknir á þessu sviði sem því miður hafa ekki farið fram. Það er athyglisvert t. d. með Norðmenn að þeir eru með sjóeldi nyrst í Noregi og þó þeir hafi fengið stundum áföll hafa þeir náð góðum árangri t. d. í sambandi við íslenska laxinn, sem hefur borið af, þolir meiri kulda en aðrar þær tegundir sem þeir hafa ræktað þar. Það sem þyrfti fyrst og fremst að gera nú væri því að hefja rannsóknir. Það er hvorki tími eða möguleiki til þess að setja fram hér hvernig að því skuli unnið, en ég hef heyrt kunnáttumenn á þessu sviði og Norðmenn, sem hafa hingað komið, halda því fram að líkur séu fyrir að við höfum mikla möguleika á þessu sviði. Þá er bara að hefjast handa um meiri rannsóknir. Það er það sem liggur á.

Fram var lagt á þessu þingi frv. um ræktun og eldi og veiði vatnafiska sem að vísu fór bara til 1. umr. og landbn. sendi til umsagnar vítt yfir til þess að reyna að fá þær hugmyndir fram sem kunni að vera í landinu um slíkt. Það er að vísu bara fjallað um vatnafiska í frv. þessu en eins og er er það álitlegasta eldið.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði áðan að þetta mál ætti að fara í hendur sjútvrn., en eins og hv. þm. vita er ræktun og eldi vatnafiska og veiði þeirra talið landbúnaður. Ég vil vekja athygli á að ég lít svo á og það eru margir fleiri sem telja það landbúnað. Hitt er svo annað mál, hvernig það verður með fiskeldi f sjó, þ. e. annað en eldi vatnafiska. Það kann að vera eðlilegast að það heyri undir sjútvrn. Það er mikil árátta hér í þinginu að reyna að breyta öllu sem viðkemur landbúnaði. Það rignir yfir okkur þáltill. Það rignir jafnvel yfir okkur lagafrv. Eitt er hér á dagskrá sem sýnir í raun og veru hvernig þróunin er í þeim málum. Ég vil vekja á því athygli hér, án þess að tilgreina mikið, að menn ættu að huga að því að við búum ekki í þessu landi til langframa, held ég, öðruvísi en að byggja landið allt og þó að markaðserfiðleikar séu nú í landbúnaði væri nær fyrir þingið að huga að því hvernig á að byggja upp atvinnulífið um landið en að standa þannig að málum eins og mér sýnist að ýmsir hafi hug á sem hér hafa lagt til málanna á þessu sviði. Ég get ekki annað en mótmælt því ef það eru einhverjar hugmyndir um að eldi á vatnafiski tilheyri í framtíðinni öðru en landbúnaði.