19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6376 í B-deild Alþingistíðinda. (5893)

28. mál, afnám bílakaupafríðinda embættismanna

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Hér var af hv. 5. þm. Austurl. látið að því liggja að við gæfum undir fótinn með að samið væri um þetta á annan veg. Það sem n. er að leggja áherslu á er að hún telur eðlilegt að greiðslur sem eiga sér stað með þessum hætti séu skattskyldar. N. er ljóst að hinar ýmsu stofnanir semja við sína starfsmenn um eitt og annað og í slík mál getum við ekki blandað okkur að mínu viti. En almennt mat á því hvort þarna sé um tekjur að ræða eða hvort þarna sé ekki um tekjur að ræða er mál sem eðlilegt er að Alþingi taki afstöðu til.

Nú er það svo að forseti er skattfrjáls skv. stjórnarskrá sem æðsti yfirmaður landsins. Við búum við það aftur á móti að það er vissulega alllöng hefð á því hvernig staðið hefur verið að bílamálum ráðh. Ég get ekki kallað þá hefð hneyksli. Það má vel vera að viðhorf í þjóðfélaginu hafi breyst á þann veg að eðlilegt sé að endurskoða þær reglur og skipuleggja á annan veg. En ég er þeirrar skoðunar að eigi að veita ákveðnum þegnum þjóðfélagsins skattaívilnanir á einhvern hátt, hvort sem það er gert með þeim hætti sem þarna hefur verið gert varðandi bílana eða á annan hátt, þá sé eðlilegt að slík ákvæði séu í stjórnarskránni. Þar finnst mér að þau eigi að vera ef þau eru til. En ég vil vekja á því athygli að mér finnst íslenskt þjóðfélag gera nokkuð vel við sinn æðsta þjóðhöfðingja með algeru skattfrelsi á sama tíma og sá toppur sem mest hvílir á sem stjórnanda þjóðfélagsins, þ. e. forsrh., er hafður á sama bekk og ráðh. E. t. v. finnst mönnum að það sé sjálfgefið að svona sé að málum staðið. En ég er þeirrar skoðunar og vil að það komi hér skýrt fram að ég tel að íslensk þjóð geri ekki of vel við sína ráðherra. Ég tel að hún geri ekki of vel við sína ráðherra og ég vildi gjarnan fá upplýsingar um hvaða greiðslur ýmsir hálaunaðir forstjórar landsins hafa og bera það saman við kjör ráðh. Ég ætla ekki að fara hér í miklar umr. um þessi mál en vil undirstrika að það er skattaatriðið sem okkur finnst óeðlilegt í þessu sambandi. Við teljum að með þessu sé verið að afhenda þessum mönnum fjármuni sem þeir greiða ekki skatta af og við tókum undir með flm. þessarar till. um að þetta skyldi afnumið.